Beint í efni

Leið

Leið
Höfundur
Heiðrún Ólafsdóttir
Útgefandi
Sæmundur (Bókakaffið á Selfossi)
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hún lætur ekki mikið yfir sér, skáldsaga Heiðrúnar Ólafsdóttur, Leið. Titillinn er stuttur og brotið lítið, nokkru minna en hefðbundið kiljubrot. Kápan er látlaus, grænlitaður vefnaður, sem mögulega geymir leynd mynstur. Sjálf er sagan ekki átakamikil, þó vissulega sé þar fjallað um átakanleg mál. Það er kannski einmitt í því sem styrkur verksins felst, að skila rífandi tilfinningaóreiðu í hógværum og fumlausum stíl.

Á síðasta ári vakti Heiðrún athygli fyrir ljóðabókina Af hjaranum sem fjallaði um veru ungrar konu í borg á Grænlandi og lýsti vel tilraunum hennar til að fóta sig í framandi samfélagi. Fram kemur að konan er á flótta, frá hverju er þó ekki ljóst. Leið fjallar einnig um flótta, en nú er áherslan á það sem verið er að flýja: lífið sjálft, fortíðina, og ekki síst, það að geta ekki fundið sér stað.

Söguhetjan, Signý, hefur ákveðið að kveðja þennan heim, og í upphafi bókar er hún búin að ganga að mestu frá eigum sínum þegar móðir hennar kemur óvænt í heimsókn. Ljóst er að samband mæðgnanna er ekki náið, en fram kemur að móðirin veit ekki einu sinni að Signý hefur farið í brjóstnám vegna krabbameins. Þegar móðirin loksins fer getur Signý klárað að ganga frá lífi sínu, henda því síðasta og kveðja bróður sinn, sem hefur beðið hana að líta við hjá sér. Jafnframt þessu rifjar hún upp ýmsar minningar úr fortíðinni. Foreldrarnir voru drykkfelldir og faðirinn, þekktur leikari, barði konu sína illa. Þetta setur mark sitt á börnin, ekki síst soninn sem er eldri en stendur ekki undir hlutverki stóra bróður og það kemur í hlut yngri systurinnar að styðja hann. Honum tekst þó að koma sér ágætlega fyrir í hjónabandi með góðri konu – sem Signý dáir og veltir jafnvel fyrir sér hvort hún sé ástfangin af. Signý hinsvegar flosnar upp úr námi og fer erlendis í annað nám, hittir mann sem hún giftist og skilur svo við og á almennt erfitt með að fóta sig í tilverunni:

Ég er í alvöru ekkert þunglynd. Ég bara nenni þessu ekki lengur. Finnst ég vera búin. Með allt. Ekki þannig að ég gangi um með hausinn fullan af sjálfsmorðshugsunum. Mér finnst bara leiðinlegt að lifa. (19)

Það er einmitt þessi tóntegund sem einkennir verkið, hæfilega einlæg og laus við allan æsing eða drama. Jafnframt er hún lýsandi fyrir þann margháttaða doða sem sett hefur mark á líf Signýar, hún bregst við áföllum með því að fjarlægja sjálfa sig. Þetta kemur strax fram í upphafi þegar hún lýsir viðbrögðum sínum við fréttunum af krabbameininu: „Ég spurði hvað væri það versta sem gæti gerst, bara svona til að segja eitthvað og til að láta líta út fyrir að ég væri ekki eitthvað skrítin. Til að sýna lit og virðast áhugasöm“ (11).

Einnig mætti hugsa sér að fjarlægðin birtist í því hvað Signý er skynsöm og praktísk og skipulögð, til dæmis þegar kemur að því að sinna bróður sínum eða skipuleggja eigið sjálfsmorð. Hún reynir hvað hún getur að sökkva sér, týna sér, í einhverju rugli eða ástandi, en tekst það ekki því hún er of meðvituð. Segja má að sjálfsmorðið sé því einhverskonar úrslitatilraun til að samsamast einhverju, láta hrífast, hverfa inn í eitthvað algleymi. Hún er því ekki bara leið, heldur beinlínis loksins á einhverri leið, á leið eitthvað, svo skoðaðar séru tilvísanir titilsins.

Í sjálfu sér er Leið ekki sérlega frumleg saga, erfið bernska, drykkja og ofbeldi eru fastagestir í skáldskap (og ekki síður æviskrifum), svo og leiðir söguhetja til að takast á við þessar minningar. Á stundum falla minningar og nútími óþarflega þétt saman og sagan verður ofurlítið ruglingsleg; þetta á sérstaklega við um lykilminninguna frá bernskunni sem blandast við heimsóknina til bróðurins. En mögulega er það einmitt meiningin, að láta lesanda villast svolítið í textanum og gera minningarnar nærtækari. Helsta framlag Heiðrúnar felst í því hvernig hún fléttar þetta minni erfiðrar æsku inn í baslið við að framkvæma hið fullkomna skipulagða sjálfsmorð, en leiðin þangað er blönduð kómískum vangaveltum sem birtast ekki síst í átökunum við þá hversdagslegu iðju að ganga vel frá eftir sig. Í Sorpu er hún skömmuð fyrir að flokka ruslið ekki nógu vel og í kringum hellurnar hefur myndast brún skán, eins og ítrekað hafi soðið upp úr, „það er ekki eins og ég sé alltaf að elda“ hugsar Signý pirruð, „Ég er búin að vera að þrífa þessa helvítis eldavél í hálftíma eða eitthvað“ (35). Einnig má nefna söguna af því hvernig Signý elur eiginmanninn upp, „Það tók mig fjögur ár að hjálpa Markúsi að klára skólann, taka masterspróf, hætta að reykja og minnka drykkjuna. Þegar við skildum var ég búin að gera Markús að draumamanni hverrar konu“ (95). Það er einmitt í snörpum innskotum á borð við þessi sem Heiðrún nýtur sín sem best og svo það hvernig hún byggir upp flæði minninga úr einni í aðra og kemur víða við.

Einnig er komið inn á samtíðarlýsingar, en umfjöllunin um ‚seinna ástandið‘, þegar ungar stúlkur féllu fyrir erlendum plötusnúðum, er bráðfyndin og líka mikilvæg fyrir sjálfa söguna, því það er einmitt vinkona frá þessum tíma sem verður örlagavaldur Signýar.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2014