Beint í efni

Leyndarmál Lorelei

Leyndarmál Lorelei
Höfundur
Carolyn Pankhurst
Útgefandi
Salka
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Málfræðingurinn Paul Iverson missir konu sína, Lexy, og verður svo upptekinn af dauða hennar að hann fer að reyna að kenna hundinum þeirra að tala en hundurinn var eina vitnið að því hvernig dauða hennar bar að höndum. Þar sem hún virðist hafa fallið úr hæstu greinum eplatrés er ályktað að um sjálfsvíg hafi verið að ræða en Paul á erfitt með að sætta sig við þá niðurstöðu. Hann sér, eða ímyndar sér, vísbendingar um að eitthvað annað hafi átt sér stað. Í fríinu sem hann fær frá háskólanum sem hann kennir við fer Paul að leita leiða um hvernig hægt sé að fá hundinn Lórelei til að tjá sig um atburði. Kannski er þetta flóttaleið hans frá sorginni. Það er ljóst að hann syrgir mjög konu sína og verður smám saman sinnulaus um sig og aðra og allt annað en þetta, í raun, fáránlega verkefni með hundinn. Enda leiðist hann á óskemmtilegar villigötur í þeirri viðleitni sinni. Meðan á þessu stendur rifjar Paul einnig upp samband sitt við konu sína frá því að þau kynntust fyrst. Hún er dálítið sérlunda listamaður sem fæst aðallega við að búa til grímur af öllu mögulegu tagi og má segja að þessi grímugerð fái táknrænt hlutverk í sögunni. Það er þessi upprifjun sem að lokum leiðir hann að sannleikanum um konu sína og hvað olli dauða hennar.

Bók þessi vermdi vinsældalista enskumælandi landa árið 2004. Á frummálinu nefnist hún The Dogs of Babel en hefur líka komið út undir heitinu Loreilei’s Secret. Hún er nokkuð óvenjuleg og allrar athygli verð. Þar sem sögumaður er málfræðingur leitar hann fyrst á sínu sérsviði eftir svörum og veltir fyrir sér tungumálinu á ýmsa lund. Tungumálið er enska í þessu tilviki sem setur þýðandann, Önnu M. Sigurðardóttur, í nokkra klemmu. Í fljótu bragði virðist þó allt þetta umstang í kringum ensku orðin vel af hendi leyst, t.d. með neðanmálsgreinum, og þýðingin í heild vandvirknisleg og á köflum mjög falleg.

Hér er líka verið að segja frá fallegu ástarsambandi sem sorg og andlegir erfiðleikar hafa áhrif á. Líf þessara tveggja einstaklinga er ekki tóm sæla, eins og gengur, en sælustundirnar málaðar sterkum litum og nær höfundur eflaust að hreyfa við mörgum lesandanum í þeim lýsingum sínum. Samt er eins og þeir erfiðleikar sem Lexy glímir við geri hana að einum of pirrandi manneskju til að maður fái samúð með henni. Sama má segja um mann hennar, Paul. Hann er óttaleg gufa og þótt vel komi fram hvernig hann umturnast í sorg sinni getur lesandinn líka átt erfitt með að setja sig í fótspor hans, sérstaklega á meðan hann er með tjáskipti hunda á heilanum. En það vakir eflaust fyrir höfundinum að sýna Paul sem veikari aðilann í hjónabandinu. Það er reyndar Lexy sem er veik, þannig séð, en Paul sem er meðvirkur og í afneitun gagnvart veikindum hennar.

Verulega góðir sprettir einkenna þessa sögu og textinn er fallegur eins og áður segir. Sagt er frá í nútíð og þótt maður sé ekki alveg sáttur við þessa nútíðarfrásögn í fyrstu venst hún ágætlega þegar á líður. Annmarkarnir eru þó helst þeir sem áður var vikið að, það er eins og persónurnar nái ekki alveg samúð lesandans, a.m.k. ekki þess sem hér skrifar.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2005