Beint í efni

Líkhamur

Líkhamur
Höfundur
Vilborg Bjarkadóttir
Útgefandi
Sæhestur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Líkaminn í öllum sínum myndum er viðfangsefni ljóða Vilborgar Bjarkadóttur í ljóðabókinni Líkhamur – en jafnframt fjalla ljóðin um margt annað. Titillinn spilar skemmtilega á þá margvíslegu hami sem líkaminn tekur á sig, hlutverk hans í tilverunni, fyrir einstakling og samfélag, ímyndir og hugmyndir. Þetta er undirstrikað með teikningum sem fylgja ljóðunum og skreyta kápu, en Vilborg er menntuð myndlistakona.

Ljóðin eru öll stuttir prósar, oft á mörkum þess að vera örsögur – en mörkin þarna á milli eru óljós og ekki biðja mig að skilgreina þau. Bókin skiptist í níu kafla sem allir heita eftir líkamshlutum eða líffærum, t.d. „Litlatáin“, „Tungan“, „Rófan“ og „Hjartað“. Prósarnir tengjast svo þessum yfirskriftum á misaugljósan hátt og bókin í heild einkennist af leik með bæði form og fyrirsagnir.

Kaflinn um augun inniheldur mörg myndlistartengd ljóð: Móna Lísa fellir brosið á kvöldin, dauðþreytt eftir að hafa brosað öldum saman; listnemi tekst á við ástarsorg með því að „fylla strigann með nærmyndum af leyndustu svipbrigðum kærustunnar fyrrverandi“ og þetta tekst svo vel að hann ekki bara nær sér heldur „eignast nýja vinkonu til að leggja grunn að nýjum málverkum.“ Einn prósinn lýsir fjarsambandi sem keramik bjargar: „ef hún hefði ekki leirinn til að toga, strjúka, pota og móta líkama elskhugans“, og listakonan nýtur þess að hafa fullt vald yfir ástmanninum á þennan hátt og segir „að það þurfi að taka ærlega á honum, stjórna honum eins og tamningameistari“. Svo er það prósi sem á vissan hátt virkar eins og yfirlýsing fyrir bókina en þar hefur einn myndlistanemi orðið samnemendum sínum innblástur án þess að þeir átti sig á því: „Á útskriftarsýningunni birtast stakir hlutar líkama hans í ýmsum myndverkum“ og þannig koma áhrifin ljóslifandi fram.

Í kaflanum um nýrun fer fram ýmiskonar hreinsun. Þar er meðal annars fjallað um hreinlæti, sem „felst í því að halda öllum líkamshlutum lyktarlausum með daglegum sturtuferðum og örum fataskiptum. En samtímis eru alls kyns snyrtivörur notaðar til að skapa lykt.“ Í öðrum prósa er svo minnt á að líkaminn er sjálfhreinsandi og starfar að því á nóttunni og á morgnana þarf maðurinn svo að „fjarlægja allskonar óhreinindi [...] sem kom[u] þegar líkaminn þreif sjálfan sig á meðan hann steinsvaf.“ Þó hvorugur textinn sé sérlega merkilegur út af fyrir sig virka þeir vel saman og í samhengi við aðra prósa sem lýsa því hvernig maður verður skyggn eftir að hafa lent í árekstri og stúlku sem eftir marga mánaða „tærari og dýpri“ líkamsskynjun finnur þriðja augað milli hinna tveggja og verður forspá. Þannig skiptast á hið ofurhversdagslega og hið yfirnáttúrulega í ‚hreinsunum‘ líkamans.

Kaflinn um tunguna tengist bókmenntum og lýkur á því að „Þegar bókinni er lokað fyllast persónurnar innilokunarkennd.“ Rithöfundur skrifar innblásnar myndlíkingar um bragðskyn sem eru afrakstur bragðsmökkunar frá bernskuárum hans: „Í gleymsku sinni trúir hann því að lýsingarnar séu sprottnar út yfirnáttúrulegum víddum ímyndunaraflsins og hafi ekkert að gera með reynsluheim slefandi barns sem reyndi að troða heiminum upp í sig.“ Annar prósi segir frá vanda lesandans þegar höfundur lýsir „ekki útliti aðalpersónunnar fyrr en í miðri bók. Þá er hann löngu kominn með mynd af persónunni og verður að framkvæma snögga lýtaaðgerð.“ Um leið hverfur gamla andlitið „og hann neyðist til að syrgja það út alla bókina.“ Seinna er bent á að leiðinlegar persónur séu mun skárri „í bókum en í lifandi lífi.“ Og ekki má gleyma stúlkunni sem segist vera bókapersóna og þegar drengurinn „hyggst halda henni fastri er hún rokin í næsta kafla." Hann stendur uppi ráðalaus, því „hann hefur ekki hugmynd um á hvaða blaðsíðu hún er eða í hvaða bók“. Í kaflanum eru bækur og skrif efnisgerð og líkamar og bækur felld saman í eitt.

Skynjunin birtist í ýmsum myndum í kaflanum um kirtla, en þar segir til dæmis frá jarðarberjum sem gefa frá sér kynfæralykt, svo sá sem ræktar þau hefur ekki lengur þörf fyrir kynlíf. Einn prósanna fjallar um mann sem situr uppi með kjölturakka. Rakkinn geymir síðustu minninguna um konu sem fór frá manninum og „Þrátt fyrir að hann væri alls ekki gefinn fyrir hunda“ treystir hann sér ekki til að „loka seinasta minnisglugganum“ og losa sig við dýrið. Kattaást er lýst í öðrum texta en þar er köttur pilts afar ástleitinn við hann og vinkonu hans finnst þetta hrífandi þar til „hann glopraði því út úr sér að eigandi kattarins væri fyrrverandi kærasta hans.“ Einnig fregnum við af leynilegum hóp sjósyndara sem stundar „þaraflengingar í svörtum fjörum“ og forsprakka hans sem „býður upp á viðtöl undir nafnleynd“ og svarar ágengum spurningum um „heilsufarslegan tilgang flenginganna“. Loks er það „Konan á bókasafninu“ sem „úðar á sig svo sterkri ilmvatnsblöndu að ég veit hvar hún heldur sig. Mig grunar að hún vilji láta finna sig á milli bókahillna.“

Eins og áður segir eru prósarnir missterkir og á stundum hefði mátt vinna þá betur. Þó er heildarmyndin vel heppnuð og ansi sniðug. Styrkleikarnir felast meðal annars í léttleika og hárfínu jafnvægi milli húmors og alvöru. Prósarnir virka á stundum eins og athuganir þar sem líkaminn er kannaður í þaula en aðrir fara á ævintýralegt flug. Sem dæmi um leikinn sem býr í ljóðunum er næstsíðasti prósi bókarinnar, úr kaflanum um hjartað. Þar yfirgefa allir þátttakendur líkama sinn á „helgarnámskeiði fyrir miðla“ og komast þannig nær handanheiminum. En þegar þeir snúa til baka fer allt í rugling því sumir stela „líkömum annarra. Síðastar út voru tvær ungar konur sem þurftu að bítast um þá líkama sem eftir voru. Annar var af fjörgamalli konu og hinn af miðaldra karlmanni. Önnur þeirra skipti um kyn og hin gekk ellinni á hönd.“ Þannig er minnt á að líkaminn er aldrei fasti, endanlegt fyrirbæri, heldur í stöðugri mótun og endurmyndum. Þetta endurspeglar svo form bókarinnar sem einmitt býr yfir skemmtilega útfærðri heildarmynd en er jafnframt laus við of mikla formfestu.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2016