Beint í efni

Listin að vera einn

Listin að vera einn
Höfundur
Shuntaro Tanikawa
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Hermann Stefánsson

Ef sú stund rennur upp að ljóðið virðist nýtt,
þá mun það verða þegar ljóðið hefur
sannfært okkur með því að endurtaka í sífellu
á sinn hógværa en samt þóttafulla hátt
að heimurinn muni aldrei breytast.
(„Úr dagbók frá Kita-Karuizawa“, 8, bls. 135 (brot))

Sá sem þannig yrkir er frá Japan. Ljóðskáldið Shuntaro Tanikawa er eitt af stórskáldum heimsins að mati þýðanda þessa kvers, Listin að vera einn, sem inniheldur safn ljóða Tanikawa frá harla löngum ferli. Þýðandinn, Gyrðir Elíasson, ritar einnig formála, ekki skoðanalausan, þar sem dregin er upp mynd af skáldinu, sagt undan og ofan af ferlinum, greint frá einkennum og hugðarefnum skáldsins, raktir hugsanlegir áhrifavaldar úr bókmenntum, tónlist og lífinu. Tanikawa er vel við aldur, fæddur árið 1931, hefur þýtt töluvert, fengist við barnabókmenntir og handritaskrif, en þó hefur hann fyrst og síðast fengist við ljóðlist. Hann heldur áfram að yrkja til þessa dags. Ljóðin í safninu eru héðan og þaðan af ferlinum, þýdd (úr ensku og öðrum millimálum eins og skilmerkilega er getið um) úr ljóðasöfnum og ekki sett upp í tímaröð heldur skipt í fimm efnishluta. Svo vinsæll er Tanikawa í heimalandi sínu að byrjunarupplag bókar er oft 20 þúsund eintök og stundum fer salan yfir milljón. Sem auðvitað segir ekkert um skáldið en talsvert um ólíka menningarheima. Tanikawa hefur margsinnis verið orðaður við Nóbelsverðlaunin.

Einsemd og einvera er sitt hvað, annað er neikvætt, hitt gjöf, en þó eru þetta tvö orð yfir sama raunhyggjulega ásigkomulagið. Heiti kversins, Listin að vera einn, er gripið úr einu ljóða Tanikawa. Eða sagði ég kver? Þetta er reisulegt hundrað og fimmtíu síðna ljóðasafn, kilja í fallegu broti og vel frá bókverkinu gengið, umbrotið unnið af kostgæfni og loftar hæfilega um ljóðin, sem ekki er alltaf sjálfsagt að lukkist. Kápumyndin er sérlega fallegt japanskt listaverk. Ljóðin eru á einföldu og hversdagslegu máli, þau einkennir ákveðin léttleikandi gnægð, eins og höfundur eigi hægt með að yrkja. Og það á hann líka, Wikipedia segir ljóðabækur hans yfir sextíu talsins, auk ljóðaþýðinga, en formáli ljóðasafnsins segir bækur hans nálgast hundraðið. Ljóðin í þessu safni eru geðrík, loftmikil, spunakennd og næsta ólík því sem fólk kann að búast við af japanskri ljóðlist, lausari í reipunum en hin agaða hefð gefur tilefni til að vænta og vestrænni í sér. Tónninn er spjallkenndur, látlaus og myndhverfingalaus, stundum undirfurðulegur, með áreynslulausu andríki og sterkum ávæningi af abstrakt hugsun. Yrkisefnin eru dauðinn, orðin, ljóðlistin, ástin. Sum ljóðin eru senur í fyrstu persónu frásögn og óvíst að skáldið sjálft tali, þótt svo kunni vel að vera. En þó ljóðin séu léttleikandi eru þau ekki léttvæg eða gefin fyrir auðveld svör. Það er þjáning í þessum textum. Í ljóðaheimi Tanikawa er ástin það eina sem huggun er í, og hún er ekki háskalaus. Sum ljóðin eru í senn grípandi einföld og næsta mælsk, „Ímynduð tölfræði“ heitir eitt með skemmtilegri venslan fjarskyldra fyrirbæra í lýrískri tölfræði:

ÍMYNDUÐ TÖLFRÆÐI

BROTNAR GREINAR: átta milljónir sex hundruð tuttugu og eitt þúsund og þrjár.

SÆRÐ FIÐRILDI: Fimm hundruð og þrettán þúsund tuttugu og eitt.

FÆDDIR SNILLINGAR: Mínus þrír.

SAMANBUNDNIR HÁRBORÐAR: Sextíu og níu þúsund fimm hundruð og fimmtán metrar.

TÁRAFLÓÐ: Fimm hundruð og átta milljónir rúmmetra.

SAKLAUSIR MENN: Núll.

HNERRAR: Óteljandi.

FÖLNAÐIR REGNBOGAR: Jafnmargir og hjónabönd fólks.

ÓNÝTAR PÁKUR: Fjórar.

PLATÓNSKAR ÁSTIR: 8 ½.

ATVIK SEM VALDA EFTIRSJÁ: Óendanlega mörg.

ÉG: Bara einn.

Það kemur kannski ekki alveg á óvart að höfundur þessa ljóðs skuli hafa fengist við að þýða Smáfólkið eftir Charles Schulz á japönsku og gott ef ekki haft af því lifibrauð um hríð.

Formálar eru góð iðja og geta bætt talsverðu við. Í formála Gyrðis fáum við að vita að tónlist er mikilvægur þráður í ljóðlist Tanikawa, Beethoven er að sögn skáldsins það tónskáld sem hefur haft mest áhrif á  hann en kannski er ekki síður að líta á Mozart. Walt Whitman, Richard Brautigan og  Reiner Marie Rilke eru ekki fjarri skáldskap hans og af myndlist er Paul Klee honum hugleikin, enda ljóð helgað honum í safninu. Tanikawa er sonur heimspekings. Heimspeki eða ákveðin tegund frumspeki er klárlega þráður í ljóðunum. Fagurfræði Tanikawa kann að birtast í stöku ljóðum fremur en öðrum, og þá kannski hvað skýrast undir neikvæðum formerkjum, til dæmis í ágætu ljóði til höfuðs skáldsögunni („Til varnar ljóðinu, eða hversvegna skáldsögur eru leiðinlegar“, bls. 69) sem er ekki eins herskátt og ætla mætti. Eða öðru sem nefnist „Vofa skálds“. Þar finnur skáld nokkurt ekki friðinn í framhaldslífinu, það keppir enn við vini sína um frægð og vafasamt er að þessi mynd af skáldi og eftirsókn þess eftir einskisverðum hlutum sé ótvílráð. Skáldið þykist þess fullvisst að það hafi „umfaðmað hjarta hins bláa himins“, skilið ástæður fuglasöngs og öðlast djúpan skilning á þögninni „án þess að hafa misst einn einasta dropa / af blóði eða svita“. Hugsanlega hefur skáldið matað lesendur sína af fyllsta yfirlæti með teskeið og orðið nokkuð ágengt, allavega telur það sig hafa orðið hluta af lífi fólks „líkt og pottar þess og pönnur“. Við hlið skáldsins stendur framliðinn nashyrningur sem vafalaust er ættaður frá leikskáldinu Ionesco eins og getið er um í formála; nashyrningarnir í samnefndu leikriti Ionesco eru holdtekja skrílmennskunnar, hinar ósönnu hetjur, þessar sem fylgja straumnum og ummyndast í samtíð sína, ryðjast áfram og yfir hvað sem fyrir verður en hafa ekki, hafa hreint ekki, hafa barasta hreint allsekki, hugrekki sannrar hetju, þeirrar sem stendur ein og umkomulaus og segir: Þetta er ekki svona heldur hinsegin. Hvernig endar það leikrit aftur? Bíður Berenger ekki ósigur? Þráir mest að breytast í nashyrning eins og allir aðrir? Líklega er það misminni. Ljóðinu lýkur á ávarpi þar sem fólk er beðið að syngja skáldinu og nashyrningnum vögguvísu, sýna þeim umhyggju.

En erindi Tanikawa er ótvírætt, hvort sem er til fjalla eða skýja eða tveggja tuga þúsunda eða miljón lesenda eða fámennis og þá ekki síst til þeirra sem vilja hreint ekki láta bera það erindi upp við sig.

AÐ HAFNA

Fjallið
hafnar ekki
ljóðlist;

og ekki heldur skýin,
vatnið
eða stjörnurnar.

Það er alltaf
fólk
sem hafnar henni.

Af ótta,
af hatri
og með orðaflaumi.
(Bls. 62)

Það eru mörg sterk ljóð í þessu safni þótt sum nái ekki máli eins og gengur. Hugsun og bygging eru í safninu og ákveðin þemu skjóta upp kollinum, útvarp og útvarpstæki, feður, elli, þemu sem mér er ekki ljóst hvort eru leiðarstef í heildarverki Tanikawa eða fremur einkenni valsins. Einna sterkasta ljóðið finnst mér vera „Að búa með köttum“ og það er rétt að ég reyni að kveikja verðskuldaða forvitni með því að láta það óbirt hér við hlið fjölda annarra sterkra.

Óþarfi er að hafa um það of mörg orð, það er þakkarvert að fá í hendur svo hnýsilegt safn í lipurri þýðingu. Það er sannarlega list að vera einn. Og hvað sem öðru líður vil ég biðja fólk sem allra vinsamlegast að fóðra ekki nashyrningana.

Hermann Stefánsson, nóvember 2014