Beint í efni

Listin, ástin og vísindin á umbrotatímum

Listin, ástin og vísindin á umbrotatímum
Höfundur
Dagur Hjartarson
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Hugtakið ljóðsaga kom ítrekað upp í kollinn þegar ég las nýjustu skáldsögu Dags Hjartarsonar, Ljósagangur. Ég hef tekið eftir þessu hugtaki í bókmenntaumæðu undanfarið og velti fyrir mér hvort hér sé komið nýtt form eða ef til vill hugtak sem lýsir formi sem alltaf hefur verið til; ljóð sem segir sögu einnar eða nokkurra sögupersóna. Ljósagangur fellur hins vegar ekki undir þann flokk. Hún er ekki ljóðabók heldur skáldsaga, nánar tiltekið vísindaskáldsaga, eins og fram kemur á titilsíðu verksins. Aftur á móti er hún býsna ljóðræn; textinn á síðunum minnir stundum myndrænt á ljóð sem og einstaka textabrot sem minna frekar á senur í ljóði en í skáldsögu. Þá eru kaflarnir tiltölulega stuttir, sumir það stuttir að þeir minna á dálítið háfleyg og rómantísk prósaljóð. Ef ljóðsagan er ljóð sem nálgast sögu, er verk Dags Hjartarsonar Ljósagangur þá möguleg andstæða þess; skáldsaga sem nálgast það eða daðrar við að vera ljóðabók? Það er ef til vill best að útskýra þetta með dæmi:

Þú varst í stuttri vínrauðri kápu yfir kjólnum, með hneppt frá
                svo
andvarinn hreyfði blómin í kjólnum
og maðurinn sem horfði á blóminn hreyfast
var ég. (38)

Það er því ljóst að hér er á ferðinni mikil meðvitund um formið, jafnvel ákveðinn leikur með það og tilraunir.

Ég hef áður skrifað um það hér á þessum vef hvernig vísindaskáldsagan eigi upp á pallborðið þessi misserin. Svo virðist sem formið sé að vissu leyti í tísku, en greinin er sú helsta sem hefur á síðustu áratugum tekist á við umhverfisvá og náttúruhamfarir. Nú þegar umræðan um loftslagsbreytingar er hávær, og áhrifa þeirra tekið að gæta í umhverfinu, styrkist vegur vísindaskáldsögunnar enn frekar. Og svo er það blessað kóvídíð sem breytti lífi okkar og hvunndegi í aðstæður sem minna á söguheim í vísindaskáldsögu. Ef segja má eitthvað jákvætt um kóvíd má jafnvel velta fyrir sér hvort það hafi ekki gert hinn almenna lesanda opnari og umburðarlyndari gagnvart þessu fantasíuformi sem blandar saman vísindum og skáldskap. Þess má geta að fjallað er um eðlisfræði og kenningar á því sviði í Ljósagangi til þess að varpa ljósi á vísindalega þætti sögunnar og ef til vill til að rugla lesandann dálítið í rýminu.

Aðstæður söguheimsins í Ljósagangi minna stundum á kóvidsamfélagið en hér er það önnur ógn sem steðjar að sögupersónunum; einhvers konar hljóðmengun eða truflun sem sögupersónur verksins vísa til sem „nið aldanna“. Svo virðist sem hann sé helst bundinn við göngubrú í Vatnsmýrinni og er misjafnlega hár; sumir fá höfuðverk og önnur líkamleg ónot vegna niðarins en aðrir virðast ekki finna jafnmikið fyrir honum. Við fylgjum tveimur sögupersónum, ástföngnu pari sem býr í Hlíðahverfinu í Reykjavík, ekki svo langt frá upptökum niðarins. Í upphafi verksins fá lesendur kort af söguheiminum sem sýnir m.a. Hlíðarnar, Öskjuhlíð og Vatnsmýri, en kort af þessu tagi þekkist vel úr heimi fantasíubókmennta eins og sögum Tolkiens og fleiri. Maðurinn í sögunni er listamaður, ljóðskáld og listmálari, en niðurinn virðist hafa góð áhrif á listsköpun hans. Hann er aðalpersóna verksins, sögumaður þess og virðist halda utan um þræði frásagnarinnar. Konan sem hann er ástfangin af er fræðimaður og að skrifa doktorsritgerð um módernisma í íslenskum bókmenntum (innskot/útúrdúr: hversu margar doktorsritgerðir hafa verið skrifaðar um módernisma? Af hverju var hún ekki að skrifa doktorsritgerð um vísindaskáldsöguna eða vistfeminísma?) Niðurinn hefur slæm áhrif á hennar vinnu en hún fer að finna fyrir kvíða, ekki síst þegar leiðbeinandi hennar, prófessor í íslenskum módernisma, hverfur sporlaust en hvarfið virðist tengjast niðinum.

Til að takast á við það umrót, sem niðurinn hefur í för með sér, leitar fólk í bókmenntir og listir en sala ljóðabóka tekur stökk eftir að niðurinn fer að heyrast. Eða eins og sögumaður verksins útskýrir:

Fólk sækir í listir þegar lífið verður yfirþyrmandi. Það sækir í bókmenntir þegar allt virðist vera að gliðna í sundur, það notar stafrófið eins og nál og tvinna: Heimurinn fær gat á haustinn, hver ljóðlína verður saumur. (25-6)

Þetta eru sannarlega aðlaðandi pælingar um mátt lista og bókmennta á umbrotatímum. Að vissu leyti hálfútópískar og ég velti fyrir mér hvort höfundur bregði hér á leik með tvenndarparið útópía og dystópía; þar sem útópísku hugmyndirnar um bókmenntir mynda andstæðu eða togstreitu við dystópískar aðstæður söguheimsins. Hugmyndir um útópíu og dystópíu eru afar mikilvægar í grein vísindaskáldskaparins og þeim hefur oft verið beitt til að fjalla um alræðisríki og uppgang þeirra. Áherslan á bókmenntir og list gefur höfundi einnig færi á að ræða bókaútgáfu og skrif ítrekað í verkinu, en birt eru til dæmis ljóð eftir höfunda sem eru ýmist raunverulegir eða uppdiktaðir. Þá er ítrekað minnst á Gyrði Elíasson sem verður að hálfgerðri skáld-erkitýpu í verkinu, en ýmis stef minna einnig á skáldskap hans, til dæmis skuggaveran sem parið hittir fyrir í myrkrinu í Öskjuhlíðinni eitt kvöldið. Vísanir í ljóð og hugleiðingar um bókaútgáfu gefa verkinu ákveðið metavægi; Ljósagangur er ekki aðeins vísindaskáldsaga heldur einnig sjálfsaga sem styrkir ennfremur kenninguna um formtilraunir sem ég nefndi í upphafi.  

Það er ýmislegt forvitnilegt og heillandi við sögu Dags Hjartarsonar en stundum keyrir háfleygur textinn um þverbak. Ef til vill skrifast það á aðalpersónu verksins og þau kröftugu skáldlegu áhrif sem niðurinn virðist hafa á hann. Á einum stað má velta fyrir sér hvort hann afsaki þessa háfleygu ljóðrænu þegar hann lýsir íbúð afa síns og mununum sem þar var að finna:

Hver munur var eins og laufblað í frumskógi bernsku okkar – því miður verð ég að orða þetta svona, stundum er engin fínleg leið að sannleikanum, hvorki í skáldskap né veruleika, hvorki með orðum né litum. (67)

Ljósagangur er þriðja skáldsaga höfundar en áður hafa komið út Síðasta ástarjátningin (2016) og Við erum ekki morðingjar (2019). Þá hefur hann skrifað nokkrar ljóðabækur og hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundsonar árið 2012. Dagur hefur einnig látið að sér kveða við ljóðaútgáfu en hann er einn af þeim sem stendur að Tungljóðunum svokölluðu. Þá birtast oft eftir hann skarpir pistlar um ýmis samfélagsleg málefni svo það er ljóst að höfundi er umhugað um samfélag sitt og tungumál. Hann er eins og Frakkarnir myndu segja móbiliséraður. Þá minnist ég sérstaklega Dominosljóðana, frá árinu 2018, sem voru fersk, fyndin, en einnig vel ort og mér fannst sniðugt að gefa bróður mínum í jólagjöf. Téður bróðir vann um árabil á Dominos á Amager í Kaupmannahöfn og færði ýmsum eldheitar pizzur, frægum tónlistarmönnum og ekki eins frægum vítisenglum. En það er önnur saga, og ekki eins ljóðræn og sagan um skáldið og niðinn í Ljósagangi.


Vera Knútsdóttir, nóvember 2022