Beint í efni

Litbrigði galdranna og Furðuljósið

Litbrigði galdranna og Furðuljósið
Höfundur
Terry Pratchett
Útgefandi
Tónleikur
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Litbrigði galdranna og Furðuljósið
Höfundur
Terry Pratchett
Útgefandi
Tónleikur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Á síðasta ári birtist frétt um að breski rithöfundurinn Terry Pratchett hefði greinst með Alzheimer-sjúkdóminn. Það var dálítið undarleg tilfinning að hugsa til þess að líklega á þessi meistari fantasíunnar eftir að hverfa inn í einhvern furðulegan heim, en ævintýraleg heimasköpun er það sem Pratchett er einmitt frægur fyrir.

Á síðasta ári birtist einnig fyrsta skáldsaga Terry Pratchett um Diskheiminn í íslenskri þýðingu Jóns Daníelssonar, en það er sagan Litbrigði galdranna (frumútgáfa 1983). Og nú er næsta bók í seríunni komin út, Furðuljósið (1986), í þýðingu Jóns í félagi við Hildi Sif Thorarensen. Pratchett hafði áður skrifað nokkrar fantasíur en Litbrigði galdranna gerði hann frægan, í dag er hann einn söluhæsti rithöfundur Breta, auk þess að vera vinsælastur af bókaþjófum, samkvæmt net-alfræðibókinni Wikipediu.

Nýjasta Diskheims-bók Pratchetts, Making Money (2007), er nokkuð dæmigerð fyrir verk hans en titillinn hefur tvöfalda skírskotun, bæði í það að afla peninga og að bókstaflega búa þá til. Því eitt af einkennum fantasía Pratchetts er leikur hans með tungumálið og ber þar hæst mikilvægi þess að orð og orðatiltæki séu tekin bókstaflega, alla leið og jafnvel lengra. Þessu er einmitt lýst í upphafi Furðuljóssins, en þar segir um myndlíkingar:

Málið er að lýsandi skrif eru sjaldan fullkomlega nákvæm og undir stjórn Ólafs Quimby II sem borgarstjóra í Ankh höfðu verið sett ný lög sem ætlað var að koma í veg fyrir þess háttar ónákvæmni og innleiða ákveðna hreinskilni í fréttaflutningi. ... Quimby var á endanum drepinn af ljóðskáldi einu sem taldi sér misboðið. Sá atburður varð í kjölfar tilraunar sem framkvæmd var á hallarsvæðinu til að sanna mjög umdeilda nákvæmni hins forna orðatiltækis; “Penninn er öflugri en sverðið”. (Bls. 13)

Sem dæmi um þennan bókstafleika er sjálf heimsmyndin, en heimurinn í Diskheimsbókunum er, eins og nafnið gefur til kynna, bókstaflega diskur. Eins og títt er um hefðbundnar fantasíur vísa þessar til einhverskonar tímalausrar goðsögulegrar fortíðar (í öðru stjörnukerfi, eins og Star Wars); en þar er heimssýnin auðvitað sú að jörðin sé flöt. Í ofanálag tekur Pratchett hindúíska goðsögu um að heimurinn sé borinn á baki skjaldböku bókstaflega, því hin flata jörð Diskheimsins er borin um geiminn á baki skjaldböku, en á skel hennar standa fjórir fílar sem bera uppi skífuna.

Samkvæmt búlgarska fantasíufræðingnum Tzvetan Todorov er þessi nálgun á tungumálið einmitt eitt af því sem gerir fantasíu að fantasíu; en segja má að í því felist kenning annars fantasíufræðings, hinnar bresku Rosemary Jackson sem lýsir fantasíunni sem einskonar hliðarlínu raunsæisins. Það að taka tungumálið bókstaflega ætti nefnilega að vera hámark raunsæisins, en í höndum Pratchetts verða þessir orðaleikir að heilu ævintýri í tungumálaborginni, ferðalagi um heim orðsins og einstakri fantasíu upplifun.

Sú upplifun er auðvitað umfram allt fyndin, Pratchett er helsti höfundur fyndinnar fantasíu, en rætur hennar má rekja allt aftur til verka hins rússneska Mikails Búlgakofs. Kvikmyndir og sjónvarpsþættir Monty Python gengisins eru nýlegra og líklega almennt þekktara dæmi. Bækur Pratchetts eru meðal þeirra verka sem höfundur Harry Potter bókanna sækir innblástur til, auk þess sem hægt er að greina ákveðin líkindi með myndasögu Neil Gaiman um Sandmanninn (The Sandman) og ýmsum þáttum í sögum Pratchetts. Og að sjálfsögðu njóta bækur hans engrar bókmenntalegrar virðingar - sem kemur ekki í veg fyrir að þær hafi heilmikið bókmenntalegt gildi.

Þessi beiting tungumálsins gerir það að verkum að ekki er auðhlaupið að því að þýða verk Pratchetts. Þýðingar Jóns og Hildar bera þess nokkur merki að þau hafa átt í átökum við textann og í baráttu sinni við að halda stíleinkennum og ‘bragði’ sagna Pratchetts missa þau á stundum tökin og þýðingin verður undarleg. Í heildina má þó segja að þýðingarnar séu vel heppnaðar og komi heimsmynd Pratchett ágætlega til skila.

Líkt og margir góðir fantasíuhöfundar hafa gert gegnum tíðina notar Pratchett ævintýralegar bækur sínar til að fjalla um samtíma sinn og í síðustu bókum hefur hann markvisst tekið fyrir ýmis áberandi samfélagsleg málefni. Making Money fjallar um efnahagskerfið sem er rekið áfram af verðbréfadrengjum, bókin þar á undan, Thud (2005), vísar til þeirra trúarátaka sem einkennt hafa fyrstu ár aldarinnar, Going Postal (2004) tekur fyrir stöðu póstsins á tímum netvæðingar, Monstrous Regiment (2003) er ádeila á stríð almennt, með sérstöku tilliti til karlmennsku og kvenleika. Dagblöð og fjölmiðlar eru teknir fyrir í The Truth (2000) og í Thief of Time (2001) er tíminn til umfjöllunar. Þar sýnir Pratchett og sannar hið fornkveðna að rithöfundar eru svo miklu betri heimspekingar en heimspekingarnir sjálfir í dásamlega fallegri umfjöllun um tímann sem bókstaflegt fyrirbæri (sem hægt er að stela), teygjanlegan og breytilegan. Eftirminnilegasta dæmið úr þeirri bók er lýsingin á því hvernig tíminn hleðst upp á elliheimilum, en þar líður hann miklu hægar og því er alltaf að finna aukabirgðir af tíma á heimilum gamals fólks. Allir þekkja þá tilfinningu að tíminn líður á ólíkan hátt bæði í rými og, afsakið, tíma, og er elliheimilið líklegast besta dæmið um afbökun hans.

Fyrir utan þessi afmörkuðu málefni eru jafnréttismál og mismunun stöðugt til umfjöllunar í verkum Pratchett, og er þar átt við jafnrétti kynja jafnt sem kynþátta. Allt hljómar þetta mjög alvarlegt og málefnanlegt hjá höfundi sem er þekktur fyrir allt annað en alvarleika.

Að búa til peninga

Making Money er þrítugasta og fyrsta bókin í aðallínu Diskheims-seríunnar, en innan þess heims eru bæði aukalínur (fyrir yngri lesendur) og ýmiskonar verk sem fjalla um heiminn. Sagan hefst á því að spánnýjum forstjóra Póstsins leiðist. Hann er í eðli sínu svindlari sem óvart lenti á réttri braut og tókst að efla póstþjónustu og gera Póstinn að stöndugu fyrirtæki. En þarmeð er áskorunin búin og okkar maður, Moist von Lipwig, dundar sér við að brjótast inn á eigin skrifstofu, bara svona til að kanna hversu örugg hún sé. Einræðisherra stórborgarinnar Ankh Morpork, harðstjórinn Vetinari lávarður, færir sér lífsleiða Moists í nyt og gerir hann að forstjóra Myntsláttunnar (þ.e. Seðlabankans, nema bara án seðla), en þar eru gamlar hefðir í heiðri haldnar - meðal annars þær að hver mynt kostar meira en eigið verðgildi, því framleiðsla hennar (handunninn útskurður og efni) er svo dýr. Pappírspeningar þekkjast ekki, en niðri í kjallara hefur brjálaður vísindamaður (HAHAHAHAHA) hannað dularfulla og magíska vatnstölvu til að reikna út hagkerfið. Aðstoðarmaður hans, Ígor, af ætt Ígora (sem allir eru bókstaflega samansaumaðir að hætti Frankenstein-skrýmslisins) leggur sitt af mörkum með þeirri afleiðingu að í stað þess að mæla fjárstreymi hagkerfisins, þá stýrir vélin því. Verkefni Moists er því nokkuð ógnvænlegt, auk þess sem hann þarf að fást við nýjan óvin, erfingja fyrrum bankastjórans sem skiljanlega er ósáttur við skipan Moists. Einnig koma við sögu gólemið Gladys og fleiri kunnugleg fyrirbæri úr Diskheiminum. Bókin er að hluta til drifin áfram af glæpasöguplotti eins og mörg önnur verk Pratchetts, en þar fyrir utan er því lýst hvernig Moist ‘finnur upp’ pappírspeninga og þarmeð nútíma banka- og verðbréfaviðskipti - sem, eins og nú hefur orðið ákaflega ljóst, ganga einmitt út á að búa til peninga, sem síðan geta horfið jafnskjótt og þeir voru galdraðir fram.

Nútíminn er Pratchett hugleikinn og þá sérstaklega hugmyndin um nýjungar og breytingar. Í Litbrigðum galdranna ryðst nútíminn inn í hið staðnaða samfélag Ankh-Morpork borgar í formi ferðalangsins Tvíblóma sem kemur frá Agateu veldinu. Hann er með gleraugu og kemur fram með ýmsar nýjungar eins og til dæmis myndavél, ferðatösku sem ferðast sjálf og hugmyndina um tryggingar, en hún á eftir að reynast afdrifarík fyrir borgina. Ekki er þó allt sem sýnist, auðvitað ekki. Myndavélin virkar ekki eins og venjulegur vélbúnaður (frekar en vatnstölvan í Making Money), hún er í raun og veru alls ekki vél. Í stuttu máli sagt býr lítill púki eða dvergálfur inni í myndavélinni (og síðar í öðrum vélvirkjum, allt frá armbandsúrum til kvikmyndavéla) sem sér um að mála myndir af því sem myndavélinni er beint gegn. Þessir púkar eru afar vandvirkir og snjallir en að sama skapi snakillir (séu gerðar óraunsæar kröfur til þeirra).

Í þessari hugmynd felast fjölmargar tilvísanir í allt frá velþekktum hugmyndum um ‘animisma’ eða andatrú til minna þekktrar nítjándu-aldar vísinda-kenningar skoska eðlisfræðingsins James Clerk Maxwell um lítinn púka sem sorteraði gaseindir, en hann „var hugsaður til að ganga gegn grundvallarlögmálum eðlisfræðinnar” svo vitnað sé í Vísindavefinn.

Annað dæmi um samfellu hins gamla og nýja er hugmyndin um ‘gildi’ og skipulagða glæpi, sem er eitt af höfuðeinkennum Ankh-Morpork borgar. Gildin rekja auðvitað rætur sínar til fyrstu borgríkjanna, en skipulagðir glæpir eru öllu nýrri. Og skipulagðir glæpir eru teknir bókstaflega af harðstjóranum Vetinari, sem álítur það mun skynsamlegri leið til að viðhalda lögum og reglu að halda glæpum innan góðs skipulags. Þannig eru til gildi launmorðingja, þjófa og vændiskvenna (en hið síðastnefnda gengur undir nafninu ‘Gildi saumakvenna’) ekki síður en gildi iðnaðarmanna. Glæpagildin tryggja ekki aðeins að glæpir fari eftir settum reglum heldur halda þau glæpum í skefjun (glæpamaður sem er ekki meðlimur í gildinu er ofsóttur af innvígðum ekki síður en lögreglunni) auk þess að skila peningum í ríkiskassann, því gildin þurfa að borga skatt.

Furðuljósið lýsir svo áframhaldandi ævintýrum Tvíblóma, sem í fyrstu bókinni ræður galdramanninn Rincewind sem leiðsögumann, en hæfileikar Rincewinds felast fyrst og fremst í því að vera fljótur að leggja á flótta, með tilheyrandi hugleysi og átakafælni, auk þess auðvitað að vera gagnslaus sem galdramaður. Að auki kemur villimaðurinn Cohen við sögu, en hann er goðsögn í lifanda lífi og viðfangsefni fjölda hetjusöngva og þarmeð orðinn háaldraður, sem kemur ekki í veg fyrir að hann bjargi ungri stúlku frá því að vera fórnað af drúíðum. Og svo kemur Dauðinn við sögu, en hann er ein ástsælasta persóna Diskheims-bókanna.

Ef konur eru líka menn, eru menn þá líka konur?

Jafnréttisumræðan er svo annað dæmi um innreið nútímans, en í heimi þarsem yfirnáttúrulegar verur eru stór hluti sögupersóna er jafnréttisumræðan augljóslega nokkuð teygjanleg. Tröll og dvergar eru mest áberandi í fyrstu bókunum, eins og vera ber í góðum fantasíum, en álfar hafa ekkert sérstaklega átt upp á pallborðið hjá Pratchett. Í staðinn eru bækur hans fullar af verum úr hrollvekjum, svo sem varúlfum, vampýrum, zombíum og frankensteinískum fyrirbærum, auk goðsögulegra vera eins og gólemið, en allt frá sögunni Feet of Clay (1996) hafa gólem komið heilmikið við sögu í Diskheims-sögum.

Í bókinni Guards! Guards! (1989) kynnumst við nokkrum af aðalpersónum Diskheimsbókanna, en meðal þeirra er Lögregluforinginn Sam Vimes og dvergurinn Carrot (sem er reyndar mjög hávaxinn karlmaður, en af því hann er alinn upp meðal dverga þá er hann dvergur). Sagan gengur út á baráttu við dreka, en í þessum heimi eru þeir að sjálfsögðu algengir, bara frekar litlir, ófleygir og eiga til að fara óvarlega með eld (hættulegir ropar og svona). Í leiðinni er sögð saga af uppbyggingu lögregluliðs borgarinnar, en það er skiljanlega dálítið ráðvillt á tímum löglegra, skipulagðra glæpa. Og það er í þessu lögregluliði sem jafnréttisbaráttan blómstrar; dvergar og tröll eru ráðin til starfa, en nærvera þeirra tryggir að ekki sé komið af óvirðingu fram við þessa tvo samfélagshópa. Þetta skapar vandamál með orð, því ekki er hægt að segja að dvergur manni afgreiðsluborðið - hann dvergar það að sjálfsögðu. Fleiri og fleiri fulltrúar minnihlutahópa bætast svo í hópinn eftir því sem líður á seríuna, þar á meðal kvenkynsverur ýmsar en jafnréttisbarátta þeirra gengur meðal annars útá að fá að vera kvenlegar. Kvenkyns dvergar, til dæmis, eru alveg eins og karlarnir, með skegg og allt, en ein dvergakonan rís gegn þessu og setur upp varalit og fer í pils, íhaldssömum félögum sínum til mikillar skelfingar.

Hér er Pratchett að spila með hefðbundin kynhlutverk hefðbundinna fortíðar-fantasía, en þau birtast meðal annars í mismunun norna og galdrakarla, þarsem hinir síðarnefndu eru álitnir (eða álíta sig) afar merkilega og lærða menn, sem halda úti galdraskóla, en hann er bannaður konum (hér sækir Pratchett í brunn Ursulu Le Guin, líkt og Joanna Rowling gerði síðar). Nornirnar þykja hinsvegar ómerkilegar, þær dunda sér við sínar kellingabækur og sinna almennri þjónustu við almúgann, aðallega úti á landi. Auðvitað bregður Pratchett svo upp þveröfugri mynd af hæfileikum þessara tveggja hópa, jafnframt því að halda blákalt fram hinum viðtekna sannleika. Þess má geta að nornaheimur Pratchetts hefur öðlast sína eigin hliðarlínu í unglingabókunum um Tiffany Aching, sem er ung norn í þjálfun.

Þessi femínisma-lína er svo tekin fyrir á sérlega skondinn hátt í Making Money þegar gólem-þjónn Moists ákveður að vera kvenkyns og svo rekur femíníska sjálfsmyndunin sig gegnum þróun kvenímyndarinnar, allt frá því að gólemið byrjar á því að vilja vera kvenlegt og sætt yfir í að gerast mikill femínisti og skamma Moist fyrir óviðeigandi athugasemdir og augnaráð. Í því sem virðist ákaflega einfaldur brandari (leir-vera sem hefur rétt nægilega mikið líkamslag til að geta talist mennsk ákveður að gerast kvenkyns) er í raun verið að takast á við grunnatriði femínískrar hugsunar, sem Simone de Beauvoir orðaði svo á sínum tíma: „þú fæðist ekki kona, þú verður kona”, og vísaði þar til félagsmótunar kvenkynsins jafnt sem kynhlutverksins.

Reyndar hefur þessi frasi Beauvoir verið þýddur á annan hátt en hér að ofan, sem: „maður fæðist ekki kona, maður verður kona”, en sú þýðing kveikir kitlandi gleði meðal þeirra (femínista) sem hafa alist upp við bókstaflegt tungumál Pratchetts, því í þessari setningu er yfirlýst að allir menn verði á endanum konur. Slík kitlandi gleði er auðvitað helsta einkenni sagna Pratchett, einkenni sem nýtur sín enganvegin í endursögn. Til að njóta hennar verða lesendur að kynna sér bækurnar sjálfar, þær búa yfir þeim einstaka eiginleika að létta ævinlega lund lesandans, en það er ekki aðeins gæfa Pratchetts sjálfs, heldur gæfa allra góðra bókmennta.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2008