Beint í efni

Ljóðorkulind

Ljóðorkulind
Höfundur
Sigurður Pálsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Það er óhætt að segja að án Sigurðar Pálssonar væri Íslenskur bókmenntaheimur mun fátæklegri. Auk þess að vera afkastamikið skáld – Ljóðorkulind, nýjasta ljóðabók Sigurðar og aðalumræðuefni þessa pistils er 15. ljóðabókin sem hann gefur út (ef talið er rétt – þetta er ansi langur listi sem birtur er aftast í bókinni) – hefur hann látið að sér kveða á nánast öllum sviðum bókmennta, skrifað skáldsögur, leikrit, óperutexta og endurminningar. Þá hefur hann í gegnum þýðingar sínar kynnt íslenskum lesendum fyrir frönskum höfundum á borð við Jacques Prévert og Albert Camus. Nýjustu afrek Sigurðar eru leikritið Utan gátta sem sett var upp í þjóðleikhúsinu 2008 og leikstýrt af eiginkonu skáldsins, leikstjóranum Kristínu Jóhannesdóttur. Verkið þótti stórgott og hirti langflestar Grímurnar á uppskeruhátíð leikhúsanna það árið. Þá hafa sjálfsævisögur Sigurðar notið mikilla vinsælda og fengið lof gagnrýnenda. Minnisbók um námsárin í París hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 2007 og Bernskubók um uppvaxtarárin í Norður-Þingeyjarsýslu kom út í fyrra. Af þessu má sjá að Sigurður Pálsson er maður margra forma. Skáldskapur hans er fjölbreyttur og skarast oft á milli greina – ljóðin hans sum minna á leikrit á meðan endurminningarnar er ljóðrænar og setja hversdagslega atburði daglegs lífs í djúphugult samhengi. Textar Sigurðar hafa fjölbreytt blæbrigði og spanna allt litróf skáldskapar; fagurfræðilegt og hugmyndaríkt sjónarhorn á umhverfið, galsa og húmor, hljóm og merkingu, hugleiðingar um ljóð og skrif, gagnrýni, pólitík og fegurð.

Þessa þræði má finna í Ljóðorkulind sem er sú þriðja af svokölluðum ljóðorkubókum. Hinar fyrri eru Ljóðorkusvið frá 2006 og Ljóðorkuþörf frá árinu 2009. Titilinn Ljóðorkulind má lesa sem vísun í skáldskap bókarinnar: Sigurður Pálsson er orkumikill yrkir sem mjög greinilega blossar af ljóðorku, og lindin vísar í uppsprettu skáldskaparins, hvaðan ljóðin koma og ekki síst hvaðan þörfin til að yrkja kemur. Og eins og titilljóðið sem jafnframt er fyrsta ljóð bókarinnar ber vitni um er afskaplega erfitt að temja þessa orku því hún vellur fram eins og úr vatnsuppsprettu og þegar skáldið á þess síst von:

Hlýðir aldrei fyrirskipunum Sprettur fram skyndilega Sprettur upp Sprettur beint út úr klettinum mosagrónum klettinum Sprettur upp fyrirvaralaust í miðri setningu á miðju salargólfi miðri götu

Ljóðorkulind skiptist í fimm hluta. Hver um sig hefst á utanaðkomandi tilvitnun sem rammar inn þema hvers hluta fyrir sig. Tilvitnun fyrsta hlutans gefur þá hugmynd að þegar kemur að uppsprettu skáldskapar megi leita langt yfir skammt; að hana sé í raun að finna hvar sem er í umhverfinu. Skáldskapurinn er þó ekki sjálfsprottinn heldur verður til í ákveðinni sýn, viðhorfi og ekki síst í matreiðslu skáldsins á umhverfi sínu:

Þegar þú ert þessi tvö börn á vegasaltinu annað heitir Hljómur hitt er kallað Merking Þá ertu skáld

Í þessum hluta er ljóðunum „Páll á Húsafelli“ og „Ágústínus“ stillt á móti hvort öðru á einni opnu. Bæði ljóðin birta myndir af raunverulegum eða sögulegum persónum. Fyrra ljóðið er óður til listamannsins sem skapar list úr sínu nánasta umhverfi á mjög beinskeyttan hátt: „Listamaðurinn bankar á dyr/fjallsins/Hlustar á hjartað/hjartað í fjallinu slá“. Páll þessi á Húsafelli safnar steinum og býr til hljóðfæri sem leika á má tónlist. Seinna ljóðið fjallar um Ágústínus kirkjufaðir sem skrifaði fyrstu sjálfsævisöguna um hvernig hann fann guð, m.a. í gegnum lestur sinn á Biblíunni: „„Tak og les“/Samt var enginn sjáanlegur/Eftir þetta las hann/í björtu myrkri/og talandi þögn“. Ljóðið er óður til lesturs og skapandi lesturs sem leiðir af sér enn frekari sköpun. Samankomin undirstrika þessi tvö ljóð mikilvægi þess að kunna að lesa umhverfi sitt og er þá átt við lestur í sinni víðtækustu merkingu; að nema/skoða umhverfi sitt í þeim tilgangi að reyna að skilja það. Þau enn fremur varpa ljósi á stöðu lesandans sem les Ljóðorkulind og minna hann á að vera virkur og skapandi í lestrinum, að vera óhræddur við að túlka ljóðin út frá sínum eigin tilvísanaheimi. Þetta minnir á orð skáldsins á öðrum stað á þessari síðu:

[V]ið erum móttakendur og sendendur skilaboða og notum til þess óendanlega fjölbreytilegt kerfi tungumálsins, svokallaðan texta; að skrifa er að móta, byggja upp, raða saman texta, að lesa er að lesa merkingu út úr þessum texta [...] Texti sem er á hinum enda línunnar, texti sem byggir á því eðli tungumálsin að geta miðlað samofinni hugsun ólíkra merkinga, myndað hugrenningatengsl, vísað í fleira en eitt skynsvið á sama tíma, notfært sér merkingarblæbrigði, minnt á fleiri en eitt raunveruleikasvið í einu; dæmigerðastur þess háttar texta er það sem við köllum ljóð.

„Óður um tré og skóga“ nefnist annar hluti verksins, og er einstaklega vel heppnaður, fallegur og margræður kafli sem lesa mætti sem einn heildstæðan ljóðabálk. Ef fyrri kaflinn býr lesandann undir lesturinn með hugleiðingum um ljóðlist og lestur, má virkja þær hugleiðingar hér. Bálkurinn hefur bókmenntasögulegar tilvísanir og skírskotar í verk frönsku symbólistanna, að því leyti að hér er vísað til skógarins sem uppsprettu fyrir ljóðrænt líkingamál og uppeldisstofnun fyrir skilningavitin. Forsenda ljóðlistarinnar, myndlíkingar sem settar eru saman til þess að skapa nýja skynjun hjá viðtakandanum, kemur þar af leiðandi frá skóginum;

Skógarbotninn í Ásbyrgi er uppeldisstofnun ... skilningarvitin þurfa stað til að æfa sig leika sér þjálfast ... Án skógarins skiljum við ekki tímann hvorki tíma hvers og eins né sameiginlegan tíma allra

Óðurinn hefur einnig vistvænar skírskotanir og tilvísanir í umhverfisvernd. Hér verður til að mynda lexía ólífutrésins, sem er óralengi að vaxa en ber þó að lokum mikinn ávöxt, að skilaboðum sem bæði má lesa sem umhverfisvæn og hagsýn: „því ólífutréð er að störfum/öldum saman/Kennir okkur að vöxtur tekur tíma/vextir taka tíma.“

Þriðji hluti verksins, „Spor í snjó“ minna lesandann á samspil minnis og frásagnar, hvernig minningarnar hverfa eins og spor í snjó og hvernig frásögn getur reynt að sporna við því. Ljóðin blanda saman hversdagslegum og súrrealískum myndum, draumkenndum senum og ljóðum í tíma; í dagrenningu, að hádegi, síðdegis og í skjóli nætur. Ljóðin í fjórða kafla, „Sjónarspil“ hafa mjög skýra samfélagslega skírskotun og eru pólitísk. Það er kannski þess vegna sem mér fannst þau ákaflega hressandi. Ljóðmælandi bregður upp mynd af byltingu sem þegar fram líða stundir reynist vera framkvæmd án hugsjónar og lesandi veltur fyrir sér hvaða drauga í samnefndu ljóði sé svo erfitt að kveða niður. Í ljóðinu „Átvagl“ er umhverfisvæna boðskapnum úr óðinum um trén snúið á haus og vísað írónískt til jarðarinnar sem „hnöttótts átvagls.“ Í þessum hluta þótti mér eftirminnilegast ljóðið um demantana sem mótmæla ójöfnuði og óréttlæti, e.t.v. því það minnti mig á ansi eftirminnilega ljósmyndaseríu um ferðalag demantsins úr námum Afríku, þar sem menn vinna við ómanneskjulegar aðstæður og yfir í hálsmenn og eyrnalokka ríkra frúa í kokkteilboðum í fínni hverfum New York borgar. Fimmti og síðasti kafli bókarinnar, „Eylönd“ fjallar um eyðistaði náttúrunnar og hvetur lesandann og aðra eyjaskeggja til að hugsa á forsendum afbyggingar og rísóma eins og ljóðið „Eyjaklasar“ ber vitni:

Víst erum við eylönd Ekkert nema eylönd Hrokafull meginlöndin horfin í sjávarþokuna Hvar eru höfuðstöðvarnar? Hvergi! Hvar er miðja hvar er jaðar? Hvergi! .... Nú er kominn tími eylandanna og eylönd eru aldrei ein þau mynda eyjaklasa standa saman kunna að breytast án þess að afneita sjálfu sér.

Ljóðin í þessum hluta lýsa stöðum eins og eylöndum, öræfum, úthöfum og heiðum sem eiga það sameiginlegt að standa utan við landsvæði sem hafa skýr landamæri, miðju og jaðar. Hér má draga tengsl á milli ytra umhverfis og þess innra, og ferðalagið um þessar „höfuðstöðvalausu eyðislóðir“ má lesa sem boð til að ferðast frjáls um ljóðin í Ljóðorkulind og túlka þau eins og manni sýnist því þau hafa hvorki miðju né jaðar og merkingin færist stöðugt undan. Og þannig endurnýjast þau án þess að afneita sjálfu sér – það er sjálfu ljóðaforminu.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2012