Beint í efni

Ljóðtímavagn

Ljóðtímavagn
Höfundur
Sigurður Pálsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ljóðtímavagn er nafnið á tólftu ljóðabók Sigurðar Pálssonar og með henni lýkur hann þríleiknum um ljóðtímann eða ljóðið og tímann. Fyrsta bókin í þeim hópi hét Ljóðtímaskyn, sú næsta Ljóðtímaleit, en þær komu út árin 1999 og 2001. Slíkar þrennur hafa einkennt ljóðaútgáfu Sigurðar frá upphafi, en fyrsta bókin, Ljóð vega salt frá 1975, var fyrsta bókin í þríleik og eru þeir nú orðnir alls fjórir.

Þrátt fyrir að ljóðabækurnar innan hverrar þrennu séu vissulega tengdar þá má líka vel lesa þær sína í hvoru lagi og þær eru um margt ólíkar, um það bera þessar þrjár nýjustu vitni. Þó má vissulega sjá temu sem þræða sig milli bókanna, vangaveltur um tímann eru áberandi í þeim öllum, spegillinn birtist aftur og aftur í ýmsum myndum og svo eru þarna hugleiðingar um ljóðið sjálft og skrif almennt. Það verður að segjast eins og er að þó ég sé mjög hrifin af ljóðum Sigurðar þá finnst mér hann ansi mistækur. Ljóðtímaþrennan er til dæmis mjög misjöfn að gæðum, fyrsta bókin er eftirminnleg um margt, sú næsta fannst mér öllu síðri, þó hún byrjaði með krafti þá fannst mér hún fjara dálítið út. Ég er ekki fjarri því að þessi nýjasta sé sú besta af þeim þremur, þó vissulega geymi hún ljóð sem ég bara næ ekki! Og spyr mig hvert maðurinn sé eiginlega að fara? Stundum líður mér eins og Sigurður sé að gera tilraunir með tjáningu og form sem bara fara hreinlega framhjá mér.

En hvað um það, snúum okkur að því sem skemmtilegt er, en ég hef þá reglu þegar ég fjalla um ljóðabækur að ekki aðeins getur eitt gott ljóð bjargað heilli bók – og það er miklu meira en eitt gott ljóð í bók Sigurðar – heldur beri að leggja höfuðáherslu á góðu ljóðin og láta hin liggja milli hluta.

Bókinni er skipt upp í sex hluta sem eru mis-tematískir og fannst mér miðjan flottust, kaflarnir um ljósmyndir og tré og vinda. Í "Ljósmyndir" er fjallað um ljósmyndir, og tíma að sjálfsögðu, en þar er talað um hvaða áhrif ljósmynd hefur á skóg og hljóðfæraleikara, og "úr því talið berst að skógrækt" heitir næsta ljóð "Skógrækt" og lýsir því að yfirvegun og upptendrun þurfi að fara saman, og að það kenni skógræktin. Báðar þessar pælingar eru dæmi um þann hugleiðingastíl sem einkennir ljóð Sigurðar. Þriðja ljóð kaflans ber titilinn "Ljóðlistin" og þar lýsir ljóðmælandi snjókornum sem hreyfast í fjúki og uppheitum strókum. Hreyfingin er sterkari en ljóðmælandi og hún lætur hann "skrifa allt mögulegt" og tekur af honum völdin: "Núna til dæmis lætur hún mig skrifa: // Það jarðbundnasta af öllum skáldskap er líklega ljóðlistin." Hreyfingin í ljóðinu er frábær, og við ferðumst með snjókornunum um göturnar, inn í huga ljóðmælanda og komumst svo að þessari niðurstöðu – sem stangast á skemmtilegan hátt á við margt af því sem ég skynja í ljóðum Sigurðar, en er jafnframt ákaflega góð lýsing á ljóðum hans. Þannig skiptast á heimspekilegar hugleiðingar og jarðbundin dæmi og Sigurður stefnir þessu saman af fimi, og húmor.

Þessi jarðtenging kemur til dæmis fram í ljóðinu "Hótelsalur" (ég er enn í Ljósmyndahlutanum), en þar situr ljóðmælandi á hóteli sem hann harðneitar að nefna því hann óttast að þá hverfi það eins og aðrir staðir sem nefndir hafa verið í ljóðum, og nú situr hann í hótelsalnum "til alls vís." Hér birtist okkur ákaflega kómísk sýn sem er samt margslungin: vangaveltur um stöðu ljóðsins gagnvart veruleikanum spegla undarlega þrjósku, sem er næstum ógnandi. Ljóðin í Ljósmyndakaflanum eru einskonar prósar, en Sigurður hefur frá upphafi skrifað mikið af prósaljóðum og jafnvel einskonar ljóðleikritum, eða örverkum. Ljóðin í "Tré og vindar" eru hinsvegar 'venjuleg' ljóð. Þar vöktu eftirtekt mína tvö áhrifamikil ljóð um stríð, "Tala látinna" og "Hroki", en í því fyrra er hershöfðingi skammaður fyrir að telja ekki líkin og í því seinna kvartar ljóðmælandi yfir því að þurfa á hlusta á sögur af hetjum og hetjudáðum.

Núnú, ég gæti haldið lengi áfram að rekja mig eftir ljóðum Sigurðar en ætla að láta mér nægja að nefna eitt ljóð enn sem vakti áhuga minn. "Næturljóð" er einn af þessum tæru gleðigjöfum sem Sigurður á svo marga af: þar er farið með lesandann í heilmikið ferðalag um nóttina, en þar ríkir ringulreið og ljósin taka á sig annarlegar myndir, einsog þegar ljós götuljósanna breytist í þeyttan rjóma sem "flæðir inn í kjamsandi myrkrið". Ekkert er á okkar mælivarða "enda varla nokkuð í veröldinni/á mælikvarða mannsins" og allt er drýðlega framandi.

Og eftir hverja slíka nótt
Allir vegir horfnir
Nýtt vegakerfi
Kortin gilda ekki lengur

Já ég er að reyna
að segja ykkur þetta

Í upphafi er komið við hjá ljóðlistinni, þegar "oddur sjálfblekungs" snertir "svart yfirborð bleksins" og speglar svartan lit næturinnar, og tengir okkur við lokalínurnar, þarsem skáldið er að reyna að segja okkur þetta! Það er þessi blanda hins háfleyga og hversdagslega sem Sigurður gerir svo einstaklega vel, eftir að hafa hrifið lesandann í dramatíska ferð án enda, dálítið upphafna og vissulega ruglandi, þá stígur ljóðmælandi fram og áréttar mál sitt og minnir á að hann er að reyna að segja okkur frá. Lesandanum er þannig kippt niður á jörðina og getur litið yfir farinn veg ljóðsins og glaðst. Því þetta er ljóð sem er ekki hægt annað en lesa aftur.

Ég veit ég sagðist ekki ætla að nefna meira en eitt ljóð enn en mér finnst ég ekki geta skilið við án þess að fjalla aðeins um fyrsta og síðasta ljóð bókarinnar. "Að vera – Að verða" opnar tímatemað með tilvitnun í Rabbí Nachman sem sagði: "Það er bannað að vera gamall." Og svo veltir ljóðmælandi þessum orðum fyrir sér og kemst að þeirri niðurstöðu að þó það sé allt í lagi að verða gamall lífrænt séð, þá sé "veran sjálf" "helguð lífsandanum, síungum." "Einmitt þannig: það er bannað að vera gamall..." Tíminn í kroppi eins manns er því margvíslegur og á einhvern hátt kallaði þetta á vangaveltur um ljóðið sjálft, fannt mér allavega. Lokaljóðið heitir hinsvegar "Þrisvar fjórir" og fjallar líka um tímann, mánuðina tólf sem líkt er við postula.

Fjórar höfuðáttir
Þríeining ljóðtímans

...

Mánuðir dagar sekúndur
koma kjagandi eftir veginum
með fangið fullt af gjöfum

Augu sem hlýða kalli
ljóðtímans

Læra að gefa og þiggja
undir fjögur augu

Það þarf ekki mikið hugarflug til að sjá að hér er skáldið að vísa í sínar fjórar þrennur og líta yfir farinn veg. Ljóðið er síungt eins og lífsandinn sjálfur – "já ég er að reyna að segja ykkur það" – og það er gjöf sem lesandinn verður að læra að gefa og þiggja, eða er það kannski skáldið sjálft sem þarf að læra þessa lexíu? Ef svo er hefur Sigurður lært hana vel.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2003