Beint í efni

Ljónadrengurinn

Ljónadrengurinn
Höfundur
Zizou Corder
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég er með Harry Potter á heilanum, en ef svo er ætti mér að fyrirgefast, því það eru svo margir aðrir með Harry Potter á heilanum. En skyndilega finn ég áhuga á barna og unglingabókum gjósa upp og hlakka til hverrar nýrrar ævintýrabókar fyrir þá aldurshópa. Í bókabúðum æði ég beint að sérstökum hillum sem eru merktar 'í anda Harry Potter' eða álíka og moka bókum þaðan niður í innkaupakörfuna mína. Margar hafa valdið vonbrigðum, til dæmis fannst mér Molly Moon ekki standa undir væntingum, en aðrar hafa verið sannir gleðigjafar, eins og bækur Philip Pullmann og hrakfallabálkur Lemony Snicket. Svo er líka áhugavert að sjá hvernig eldri bækur eru markaðsettar upp á nýtt, en bálkur Ursulu Le Guin um galdramanninn og galdraskólann, Earthsea sagan, hefur verið endurmarkaðssett fyrir unglinga (reyndar var fyrsta bókin Galdramaðurinn, einmitt þýdd og gefin út sem barnabók hér fyrir allmörgum árum, ég lærði hana næstum utan að), auk þess sem fimmta bindið í þessum flokki, The Other Wind, birtist árið 2001 (endurútgefið af barnabókaforlagi 2003).

Rithöfundur eins og Terry Pratchett, og sögur hans um Diskheiminn, hefur alltaf höfðað til unglinga, en að auki hefur hann gefið út nokkrar sögur sem eru fyrir yngri lesendur, nú nýlegast The Amazing Maurice and his Educated Rodents og The Wee Free Men, en af öðrum má nefna Truckers og Diggers sem þýddar hafa verið á íslensku sem Flóttinn og Undir berum himni. Og síðast en ekki síst ber að telja sögu myndasöguhöfundarins Neil Gaiman, Coraline, sem er hrein unun að lesa, og að mínu mati albesta bókin af þeim sem hafa vakið athygli í kjölfar vinsælda potterins. Það er náttúrulega sérlega viðeigandi að Le Guin og Pratchett hafi aukið á vinsældir sínar í þessari bylgju, því Rowling á þeim mikið að þakka, en fyrir utan Hringadróttinsögu tel ég að bækur þeirra séu helsti áhrifavaldur á sögurnar af Harry Potter og skiptir þar miklu galdraskólinn sem minnir um margt á skóla Le Guin, þó vissulega sé hennar mun myrkari.

En allt um það, nýjasta tilhlökkunarefnið mitt var Ljónadrengurinn eftir Zizou Corder (sem er höfundanafn mæðgna, rithöfundarins Louisa Young og tíu ára dóttur hennar Isabel Adomakoh Young), en hún var auglýst sem svo spennandi að meira að segja sjálfur Steven Spielberg væri búinn að kaupa kvikmyndaréttinn. (Kannski hættulegt, er ekki hætta á að einhverjir bíði bara eftir myndinni eins og ég hef heyrt fleygt með potterinn?) Og mér til ánægju get ég lýst því yfir að bókin stóð undir væntingum. Sagan segir frá Charlie, sem kemur heim einn góðan veðurdag og uppgötvar að foreldrar hans eru horfnir. Kettirnir segja honum að þeir hafi farið burt með ókunnugu fólki og Charlie ákveður strax að leggja af stað og finna þá og hefst þá mikið ævintýri.

Nú er líklega best að staldra aðeins við og útskýra hitt og annað um Charlie og hversvegna hann skilur ketti. Foreldrar hans eru vísindamenn, móðirin ensk en faðirinn afrískur, og eitt sinn á ferð með föðurnum blandaðist blóð Charlie, sem þá var smábarn, við blóð hlébarðaunga og eftir það talaði strákurinn kattamál. Á ferð sinni til Parísar – en þar segja kettirnir að foreldrar hans séu í haldi – lendir hann óvart um borð í gífurlega stóru gufuskipi sem hýsir sirkus. Hann er strax ráðinn í vinnu og fer fljótlega að sinna ljónunum enda kemur honum afskaplega vel saman við þau! Hér snertir Corder ábyggilega streng í brjóstum margra barna, því hvaða barn hefur ekki dreymt um að geta talað við stóru fallegu dýrin í dýragarðinum og hjúfra sig að mjúkum feldi þeirra. Sirkus er kjörinn til að að ljá sögum af þessu tagi ævintýrablæ, og gerir það svikalaust hér, sérstaklega var lýsingin á sýningunni mögnuð og alveg frábært að lesa lýsingu sem endurskapar hraða og atburðagnótt fullt eins fimlega og loftfimleikafólkið sveiflar sér um rólur.

Sagan er sviðsett í framtíð, sem samt minnir meira á hliðarveruleika, en í þessari framtíð hefur bílum og öðrum tækjum sem ganga fyrir bensíni verið útrýmt, því mengunin var orðin slík að börn fæddust með ólæknandi ofnæmi og asma. Gufan og sólaraflið er því virkjað í staðinn og virðist bara virka ágætlega, allavega eru allir með farsíma og komast leiðar sinnar og sonna. Þessi hluti minnir dálítið á trílógíu Pullman, sem hófst með Gullna áttavitanum, en þar er einmitt lýst heimi sem er næstum eins og okkar, en ekki alveg: hliðarveruleiki. Núnú, að lokum verð ég að benda á að sagan endar alls ekki og við hljótum að gera ráð fyrir að von sé á fleiri bindum, enda mun þetta einmitt vera fyrsta bókin í þríleik skrifuðum af þeim mæðgum og nú get ég strax byrjað að hlakka til hinna.

Kannski finnst mér ég þurfa að réttlæta áhuga minn á barnabókum, en allavega langar mig til að segja aðeins frá grein sem birtist í dagblaðinu Observer, 22. júní 2002, eftir Victoríu Coren og nefndist "Önnur bernska? Ég er enn að njóta þeirrar fyrstu" og fjallar, eins og ætti ekki að koma á óvart, um Harry Potter æðið. Þar játar Victoría að vera algert Potter fan (þrátt fyrir að hún finni sig knúna til að segja afgreiðslumanninum í bókabúðinni að hún hafi líka lesið Ulysses) og tengir þetta söknuði eftir bernskunni, ekki unglingsárunum takið eftir, heldur bernskunni: því að vera sex ára og leika sér, fara í dýragarðinn, klæða sig uppá, borða sælgæti og fela sig í skápum. Hún bendir á að ein leiðin til að viðhalda þessu ástandi sé sú að eignast börn, og leika sér við þau, helst fram á fullorðinsár þeirra, en bendir á að auðvitað séu fullorðinsárin einskonar bernska, því þá getirðu svosum gert það sem þér sýnist. En unglingsárin, þau finnst henni óspennandi og reyndar óþolandi. Og hún endar grein sína á því að benda á að þrátt fyrir að það sé allt gott um það að segja að Rowling hafi afrekað að gera börn spennt fyrir bókum á ný, þá sé það að mati Victoríu mun meira afrek og ánægja að hafa gert fullorðna spennta fyrir æskunni á ný.

Grein Victoríu er frábærlega skrifuð og það er engin spurning að hún talar fyrir munn þeirra fjölda fullorðinna sem hafa hvolft sér yfir Potter og leita svo hamingjusamlega að álíka efni. Ég get allavega fyllilega tekið undir orð hennar, en verð að fá að bæta því við að það sem mér finnst best við Harry Potter æðið er ekki bara allar þykku bækurnar, heldur öll ævintýrin, galdrar, ljón, gufuskip og annarlegir heimar; þessi möguleiki á allt öðrum veruleika sem býður upp á allt aðra leið til að lifa lífinu: nei þetta er ekki flótti, þetta er lífsnauðsyn.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003

 

Eftirskrift

Ég var ekki fyrr búin að setja puntk fyrir aftan umfjöllunina um Ljónadrenginn að frekari skrif um barnabókahrifningu rak á fjörur mínar. Í desemberhefti Vogue 2003 er beinlínis talað um þetta afturhvarf til bernskunnar eða þessa enduruppgötvun bernskunnar, sem tískufyrirbæri og kallað 'kidult' sem útleggjast má sem 'barnorðinn' (frekar en fullbarn). Svo mér fannst ég vera afskaplega 'inn' þegar ég brá mér á myndina um litla fiskinn Nemó og bæði grét og hló. Og fyrst ég er byrjuð að skrifa eftirskriftir þá rak ég augun í að ég hafði gerst sek um að nefna ekki hlut þýðandans (og er reyndar síbrotamannaeskja að þessu leyti, því ég hef heldur ekki nefnt hlut þýðandanna á verkum Alice Sebold og Daniel Mason), en hér hef ég tækifæri til að bæta úr og lýsa því yfir að sagan um ljónadrenginn er afskaplega vel þýdd, lipur og lifandi og ber frásagnargáfu þýðandans, Guðrúnar Evu Mínervudóttur, fallegt vitni.

Úlfhildur Dagsdóttir, 1. desember 2003