Beint í efni

Loðmar

Loðmar
Höfundar
Auður Ösp Guðmundsdóttir,
 Embla Vigfúsdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er ótrúlega margt sem býr í einfaldri sögu þeirra Auðar Aspar Guðmundsdóttur og Emblu Vigfúsdóttur, Loðmar. Sagan fjallar í raun ekki um neitt annað en það að Loðmar rankar við sér á opnu eitt og ákveður að sjá hvað býr á næstu síðu. Þannig rekur hann sig alla leið til síðustu opnunnar (sem samt er ekki sú aftasta), númer ellefu, og byrjar loksins þar að búa til bók í félagi við Knuðlján sem hann hitti á opnu átta.

Ef einhver er ringlaður eftir þessa lýsingu skal ég byrja aftur. Hægar.

Loðmar er barnabók sem er allt í senn bókverk, saga um tilurð bókar (eða bók um tilurð sögu) og bók um tungumál og myndmál. Bókin er samstarfsverkefni tveggja höfunda, en að auki sjá Katla Rós Völudóttir og Ragnar Már Nikulásson um grafíska uppsetningu og umbrot. Bókin er frekar breiðleit, en grönn og inniheldur alls ellefu opnur, en svo bætast við „Bókbúatal” og „Óhefðbundnar orðskýringar”, sem taka fimm opnur að auki. Inni á milli eru svo nokkrar auðar opnur, svo ég verð að játa að ég tapaði dáldið heildartölunni (það er stóra systir sem er stærðfræðingurinn).

Sagan sem fer fram á opnunum ellefu er nokkuð dramatísk, en aðalsöguhetjan er Loðmar. Loðmar er fremur rindilslegur og lítilfjörlegur þar sem hann situr á opnu eitt, „einsamall, aleinn frá því hann var prentaður ... ... þar til þú komst til sögunnar.” Þannig er lesandi strax dreginn inn í söguna, það er hann sem hvetur Loðmar til ævintýraleitar, „Ef þú þorir á opnu tvö, vil ég sannarlega koma með!” Á næstu þremur opnum hittir Loðmar svo þrjá ólíka bókbúa, en á þeirri fimmtu byrjar hasarinn því þar finnur Loðmar svarta klessu sem nefnir sig Gímald. „Yfir hana eru teiknaðir rimlar svo hún getur sig hvergi hrært.” En Loðmar er blautur eftir viðkomu á opnu fjögur og þurrkar því óvart út rimlana svo Gímaldið gengur laust og eltir Loðmar alla leið yfir á opnu átta, en þar hittir hann Knuðlján sem segir: „Hvernig datt þér í hug að losa Gímaldið? Þú veist ekki hversu lengi við bókbúar vorum að fjötra það svo það æti ekki söguna upp til agna! Þá hafði hlussan þegar hámað í sig hluta bókarinnar!” Loðmar afsakar sig eftir bestu getu og á næstu opnu kemur í ljós að hann er í raun bjargvættur líka, því í gegnum síðurnar hefur allt lauslegt loðað við hann. Þar á meðal er strokleður og á næstu opnu tekur Knuðlján við að stroka Gímaldið út. Eftir standa lausir bókstafir: „En hvað getum við gert við alla þessa munaðarlausu stafi?” spyr Loðmar greyið, sem þrátt fyrir ævintýragirnina í byrjun virðist enn dálítið utan við sig. Knuðlján er hinsvegar maður aðgerðanna og segir: „Ég skal raða þeim upp því ég veit hvernig maður skrifar æsispennandi ævintýri.” Og á næstu opnu, sem jafnframt er sú síðasta byrjar Knuðlján sumsé á sögunni.

Allt er þetta dáldið gasalega skemmtilegt. Fyrir bókaverju (og bókabéus yfirleitt) þá er klessan Gímald kunnugleg ógn og fyrir bókmenntafræðinginn er skemmtilegt að skoða bókina sem dæmi um míní-póstmódernisma, einskonar póstmódernisma í hnotskurn. Fyrir stundakennslukonu í Listaháskólanum (tvö þeirra sem að bókinni koma eru fyrrum nemendur) og myndasögufrík þá er bókin sérdeilis skemmtilegt hönnunarævintýri þar sem orð og myndir tala saman á frjóan og lifandi hátt, en myndmálið segir söguna bæði í myndum og máli (sbr. teiknuðu rimlarnir og strokleðrið).

Orðskýringarnar eru svo skemmtileg viðbót og kannski ekki síst ánægjuleg fyrir að þar er ekki talað niður til lesenda, heldur er markmiðið frekar að skoða tungumálið sem lifandi veru, ekki Gímald erfiðra orða, heldur leik með bókstafi og orð.

Já, í heildina séð var þetta skemmtilegt ævintýri og alveg þess virði að ræsa Loðmar út og fara með honum nokkra hringi um heim bókarinnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010