Beint í efni

Loforðið

Loforðið
Höfundur
Hrund Þórsdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Dagbókarformið er mjög eðalborið í sögu skáldsögunnar og tengist sérstaklega skrifum kvenna. Dagbókin er einn af fyrirrennurum skáldsögunnar eins og við þekkjum hana í dag, en hún var að stórum hluta mótuð af konum, bæði sem höfundum og lesendum. Vegna þess hvað konum var tamt að færa hugleiðingar sínar og minningar í dagbækur áttu þær greiðan aðgang að því nýja formi sem skáldsagan var á átjándu öld, og þessi tenging milli dagbókaskrifa kvenna og skáldsögunnar hefur haldist allt fram til dagsins í dag, því enn koma fram bækur sem vísa til dagbóka í titli sínum eða efnistökum.

Dagbókin getur einnig verið samtal, ein af fleiri röddum innan texta, þarsem dagbókin er lesin af einhverri annarri persónu, sem þannig lifir sig inní og uppgötvar ýmislegt um þá eða þann sem dagbókina skrifar. Þessa leið fer Hrund Þórsdóttir í fyrstu barnabók sinni, Loforðið, sem segir frá tveimur tólf ára vinkonum, Ástu og Eyvöru. Sjónarhornið er þó aðallega hjá Ástu því Eyvör deyr snemma í bókinni, en ánafnar Ástu dagbókinni sinni og þannig lýsir sagan vináttu þeirra í bland við sorg Ástu og veikindi Eyvarar.

Þetta viðfangsefni gæti auðveldlega orðið væmið en á einhvern hátt tekst þessum óreynda höfundi að halda góðu jafnvægi innan textans, og á dagbókin þátt í því, Eyvör er fyndin og glaðlynd og húmorinn skín í gegn, og skapar mikilvægt mótvægi við þá kafla sem lýsa einsemd Ástu. Í leiðinni eru dregnar upp myndir af fjölskyldum beggja stelpnanna, mamma Ástu er skilin og pabbi hennar hefur lítið samband, meðan fjölskylda Eyvarar er dæmigerð kjarnafjölskylda sem þarf að upplifa missi eins fjölskyldumeðlimsins.

Þessi hugmynd um að halda tengslum við látinn ástvin gegnum skrif, dagbók eða bréf, er þó það sem uppúr stendur í sögunni og minnti mig dálítið á það hvernig söguhetja þríleiks Sigrúnar Eldjárn, sem hófst með Týndu augunum (2003), skrifar látinni móður sinni bréf þar sem hún segir frá daglegu lífi þeirra systkina. Skrif af þessu tagi skapa andrúmsloft nálægðar sem annars gæti verið erfitt að fá fram án þess að renna út í hreina tilfinningasemi.

Hér tekst því að skapa vel heppnaða bók um vináttu og sorg og líf venjulegra krakka.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007