Beint í efni

Mæling heimsins og Skáktyrkinn

Mæling heimsins og Skáktyrkinn
Höfundur
Daniel Kehlmann
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Mæling heimsins og Skáktyrkinn
Höfundur
Robert Löhr
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Nútíminn, nýi heimurinn, tækni, framfarir, rannsóknir, mælingar, könnunarleiðangrar, blekkingar og sérkennilegar persónur eru umfjöllunarefni Þjóðverjanna Daniels Kehlmann í Mælingu heimsins (Bjartur, 2007) og Roberts Löhr í Skáktyrkjanum (Mál og menning, 2007).

Á pallborði um sögulegar skáldsögur á Bókmenntahátíð í liðnum mánuði ræddu þeir tveir ásamt Tracy Chevalier, meðal annars um tengsl sögunnar og skáldskapar og voru langtífrá sammála um hvernig höfundum sögulegra skáldsagna bæri að nálgast þessi mörk.

Aðspurð um meðferð sögulegra heimilda sagðist Tracy Chevalier (höfundur Stúlku með perlueyrnalokk og margra fleiri verka) aldrei myndu láta sögulega persónu aðhafast eitthvað sem heimildir væru sammála um að hún hefði alls ekki gert. Robert Löhr sagðist ekki hafa hikað við að uppdikta hina og þessa viðburðina – m.a.s. morð – en lét fylgja eftirmála með Skáktyrkjanum þar sem hið sanna í málinu væri áréttað. Daniel Kehlmann sagðist hafa beinlínis lagt upp með í Mælingu heimsins að hafa ekki áhyggjur af þannig smámunum, slíkt skipti engu máli í skáldverki og þótt einhverjir hefðu stungið uppá við hann að hann skrifaði eftirmála með verkinu hefði hann látið slíkt lönd og leið.

Þessi hressilegi óhátíðleiki gagnvart heimildunum og fortíðinni er eitt helsta einkennið á verki Kehlmanns. Þar kynnumst við tveimur sögulegum persónum, vísindamönnunum Alexander von Humboldt og Carl Friedrich Gauss og basli þeirra við fræðin og samtímann. Þeir eru ákaflega ólíkir menn – sá fyrrnefndi ferðast um heiminn í allt að því örvæntingarfullri þörf fyrir að mæla allt og kanna. Hinn gerði sínar merkustu uppgötvanir bráðungur og eyðir svo ævinni í að reyna að koma ár sinni fyrir borð, hafa í sig og á og reyna að stunda einhvers konar vísindi. Báðir eru nokkuð sérsinna og gengur brösuglega með samskipti við sína nánustu. Með því að tefla þeim tveimur saman, sem þó tengjast harla lítið, tekst Kehlmann að skapa ákaflega skemmtilega dýnamík því úr verður spenna milli ólíkra viðhorfa vísindamannanna; ólíkra viðhorfa sem einmitt krystallast á þessu tímabili í þeirri vísinda- og tæknibyltingu sem þá var í hámarki. Allt virðist mögulegt, nýir heimar að kanna, ný fjöll að klífa, vísindalegar uppgötvanir gætu umbreytt lífi fólks – en þrátt fyrir þetta breytist hversdagslíf fólks hægt og stríð og pólitískar hörmungar ýmiss konar hafa þar mun meiri áhrif.

Höfundar sögulegra skáldsagna hafa oftar en ekki tilhneigingu til þess að þurfa að segja lesendum sínum eins mikið um það tímabil sem um ræðir og þeir mögulega geta. Umhverfi og aðstæðum er líst í smáatriðum, einatt með það að markmiði að bera saman við samtímann; þ.e.a.s. „sjáiði bara hvað heimurinn hefur breyst“ – eða „sjáiði bara hvað ekkert breytist þó tímarnir séu ólíkir“. Kehlmann dvelur lítið við smáatriðin, en er þeim mun duglegri við að leika sér með samspil fortíðar og samtíma. Gauss er til að mynda óþolinmóður gagnvart sínum samtíma, honum finnst fólkið í kringum sig ótrúlega lengi að hugsa og skilur ekki að ýmsar uppgötvanir hafi ekki þegar verið gerðar. Hann fær heiftarlega tannpínu og hugsar sem svo að framtíðinni verði að sjálfsögðu til læknar sem sérhæfi sig í þessu og sér fyrir sér leiðir til að nota deyfingu – hins vegar er hann ekki alltaf jafn forspár því hann gerir líka ráð fyrir því að í framtíðinni verði búið að finna upp skallameðöl. Í fyrrnefndu pallborði á Bókmenntahátíð nefndi Kehlmann að oft þegar fólk sæi fyrir sér ferðalög aftur í tímann, bæði í bókmenntum og kvikmyndum, þá væri iðulega gert ráð fyrir að fólk í fortíðinni yrði steinhissa á öllum tæknibyltingunum sem orðið hefðu. Kehlmann benti á að slíkt væri ótrúverðugt, sérstaklega þegar ættu í hlut vísindamenn sem hefðu gríðarlega þekkingu á ýmsum fyrirbærum og gætu vel séð fyrir sér hvernig tæknin myndi þróast. Afstaðan til fortíðarinnar í Mælingu heimsins er því kannski frjálslegri og opnari en í mörgum öðrum sögulegum skáldsögum og niðurstaðan er fjörugt ferðalag til liðins tíma.

Í Skáktyrkja Roberts Löhr segir frá Wolfgang von Kempelen sem setur saman mikla skákvél sem hann ferðast um með og sýnir og lætur tefla við fólk. Þetta eru þó allt saman svik og prettir því inni í vélinni dylst dvergur sem stjórnar öllu saman. Skáktyrkinn er að ýmsu leyti hefðbundnara verk en Mæling heimsins. Hún sver sig í ætt við þær sögulegu skáldsögu þar sem mikil natni er lögð í að endurskapa umhverfi liðins tíma. Það er hér vel gert og þótt von Kempelen sé vissulega söguleg persóna, þá er það fólkið í kringum hann (sem er uppdiktað) sem er frekar í aðalhlutverki. Það eru fólk af jaðrinum, gyðingurinn Jakob og dvergurinn Tibor, sem einmitt sögulega skáldsagan nær oft að gæða lífi og nýta sem skemmtilega linsu á fortíðina. Þar nægir að nefna Brotahöfuð og Kyrr kjör Þórarins Eldjárns sem dæmi.

Upphaf nútímasamfélags, upphaf iðnvæðingar, tími tækni- og vísindauppgötvana er vinsælt efni sögulegra skáldsagna eins og báðar þessar bækur eru dæmi um. Í Skáktyrkjanum er það ekki síst mannleg vídd þessara tækninýjunga sem er í forgrunni. Í kapphlaupinu um að finna upp flottar tækninýjungar til að fanga athygli Maríu Teresíu keisaraynju í Vínarborg virðist notagildi og framfarahugsun ekki skipta nokkru máli, heldur eru það ‘galdrar’ tækninnar sem sóst er eftir; þ.e.a.s. tæknin sem er dularfull og óskiljanleg. Það er einmitt þessi tenging tækninnar við hið yfirnáttúrulega sem könnuð er hér, eins og snilldarkafla þar sem nýta á lækningamátt segulsins en endar í einhverju samblandi af múgæsingi og orgíu. Þessar hugmyndir um ótakmarkaða möguleika tækninnar sem er um leið ofar skilningi fólks kalla að sjálfsögðu á blekkingu og útfærsla Löhr á þessum atburðum verður í senn sannfærandi og heillandi.

Það hefur verið vandað til verka við útgáfu þessara tveggja verka, þýðingar Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur (Mæling heimsins) og Guðmundar Viðars Karlssonar (Skáktyrkinn) eru báðar til fyrirmyndar sem og allur frágangur verkanna.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, október 2007