Beint í efni

Málarinn

Málarinn
Höfundur
Ólafur Gunnarsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Árið 1945 fær ungur drengur gefins málverk frá meistara Kjarval. Þannig hefst saga Davíðs í Málaranum eftir Ólaf Gunnarsson. Davíð er listmálari sem hefur selt sig markaðsöflunum til að öðlast efnahagslegt sjálfstæði. Hann á einbýlishús, fallega konu og fínan bíl en það situr þó í honum að líklega hefur hefur hann fórnað því sem mestu máli skipti fyrir fjárhagslegt öryggi. Hann þráir viðurkenningu listaelítunnar og menningarforkólfanna þótt hann um leið fyrirlíti þessi fyrirbæri. Annar stór þáttur í vanlíðan Davíðs er lát sonar hans á unga aldri. Sá atburður er líka fleygur í sambandi þeirra hjóna sem aldrei hefur tekist að fjarlægja. 

Og alls staðar er þessi Kjarval nálægur, persónugervingur góðrar myndlistar, viðurkenndrar myndlistar, og miklu meira en það. Ásamt Scheving og nokkrum til viðbótar. Þeir sem ekki eru vel að sér í myndlistarheimi landsins og er nokk sama um hann, eiga þó auðvelt að fylgja höfundi eftir á þeim slóðum. Af því að þessa þekktu málara kannast flestir við. Lesandinn fær svo nokkuð greinargóðar lýsingar á uppdiktuðum verkum Davíðs og listmálarans Illuga Arinbjörnssonar sem slegið hefur í gegn. Davíð getur ekki annað en dáðst að þessum verkum þótt honum sé það þvert um geð. Illugi reynist Davíð verulega illa, skrifar um hann níðgrein og þykist hátt yfir hann hafinn.

Þegar Davíð ákveður að mála verk sem er stærra í sniðum frá listrænu sjónarmiði en hann hefur hingað til fengist við, endar hann með því að mála „falsað“ Kjarvalsmálverk. Er hann kannski kominn það langt frá „alvöru“ myndlist að hann hefur enga sjálfsmynd lengur sem listamaður og er honum um megn, þótt tæknileg kunnátta sé fyrir hendi, að búa til eitthvað sem telst frumlegt sköpunarverk?

Allar ákvarðanir Davíðs reynast rangar. Alveg frá fyrstu tíð. Hann missir son sinn í slysi sem kann að vera röngum ákvörðunum hans að kenna. Hann ákveður að mála til að selja, til að afla peninga svo að hann þurfi ekki að vera tengdaföður sínum háður. Sá fyrirlítur hins vegar Davíð fyrir að vera listamaður en það er ekki alveg ljóst hvers vegna. Sumir eru bara svona, líta niður á þá sem ekki vinna það sem þeir telja heiðarlega vinnu, t.d. hefðbundin iðnaðar- eða verkamannastörf.

Lesandinn finnur til með aðalpersónunni og vonar sífellt að það fari að rætast úr fyrir honum en spyr sig um leið hvers vegna hann þurfti endilega að gera þetta en ekki hitt. Davíð er hvatvís og allt hans atferli ræðst af óábyrgum skyndiákvörðunum sem koma honum í koll fyrir rest. Hann er svikinn af öllum, meira að segja eiginkonunni, og allt gengur honum í mót. Þannig virðist ranglæti á ranglæti ofan leggjast á hann. Eða hvað? Eftir lestur bókarinnar læðist að manni sá grunur að höfundi hafi kannski tekist að gera lesandann svo meðvirkan geggjuðum huga Davíðs að veruleikaskyn beggja sé að mestu horfið.

Sagan ber öll merki afþreyingarskáldsögu. Stíllinn er dálítið yfirdrifinn á köflum enda viðbrögð persónanna oft nokkuð ofsafengin. Æsileg og dramatísk  frásögnin grípur mann föstum tökum og flett er í ofvæni. Hvað gerist næst? Nú hlýtur að fara að ganga betur hjá Davíð? En höfundurinn hefur annað í huga. Þessi farsæli endir sem beðið er eftir lætur á sér standa. Lífið er ekki alltaf dans á rósum, það er erfitt og hverfult og stundum fer bara illa fyrir fólki.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2012