Beint í efni

Málavextir

Málavextir
Höfundur
Kate Atkinson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Málavextir er fyrsta bókin um einkaspæjarann Jackson Brodie. Hún kom út í Englandi 2004. Síðan hefur höfundurinn sent frá sér tvær bækur í viðbót um Brodie: One Good Turn (2006) og When Will There Be Good News (2008). Áður hafði Kate Atkinson sent frá sér þrjár eða fjórar skáldsögur og smásagnasafn.

Þótt Brodie sé einkaspæjari og fyrrverandi lögreglufulltrúi og vissulega fjalli bókin um sakamál þá er klárlega ýmislegt annað sem hangir á spýtunni hjá Atkinson en að skrifa enn eina hefðbundna glæpasöguna. Eins og enski titillinn, Case Histories, ber með sér eru þarna nokkur mál sem tvinnast saman að því leyti að Brodie kemur að þeim öllum með einhverjum hætti. Það er þó mismikið hve mikið hann hefur að gera með þau. Í einu tilviki og því sem hæst ber í sögunni rannsakar hann mál fjögurra ára gamallar stúlku sem hvarf fyrir 30 árum. Í öðru máli er um að ræða dráp á ungri stúlku og líka all langt síðan það gerðist. Þriðja málið hefur einnig að gera með manneskju sem hefur horfið. Þessi þrjú mál byggja upp spennu og eftirvæntingu að vissu marki. Það er þó svo margt annað áhugavert og skemmtilegt sem sagt er frá að maður getur alveg látið liggja á milli hluta hverjar niðurstöðurnar verða hjá Brodie. Það er svo mikil sprúðlandi frásagnargleði í gangi og alls kyns smáatriði sem tínd eru til og vekja áhuga að maður gleymir því að þarna séu líka gátur. Farið er fram og til baka í tíma og lesandinn fær að kynnast helling af misjafnlega geggjuðum karakterum. Sorg aðstandenda vegna brotthvarfs ástvina gleymist heldur ekki.

Bók þessi er tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár. Fljótlega eftir að lestur er hafinn er ekki hægt annað en taka eftir því hversu leikandi létt þýðingin er og full af fjöri og skemmtilegum lausnum: „Alla malla, hvað dagarnir hendast áfram, ha? (Alla malla? Hver sagði eiginlega svona nokkuð? Aðrir en Júlía)”. Þótt ákkúrat þetta segi kannski lítið um kunnáttu þýðandans þá sat það fast í huga þessa lesara. Margir kannast við „alla malla" en hve langt er síðan maður heyrði einhvern taka svo til orða? Elísa Björg Þorsteinsdóttir fer hreinlega á kostum í þýðingu sinni.

Sagan gerist í London og nágrenni og lesandinn finnur vel fyrir bresku samfélagi og umhverfi og ekki síst þessum afar bresku persónum sem spretta sprelllifandi fram á síðum bókarinnar og jafnvel þær sem rétt koma smástund við sögu vekja athygli. Helst að Jackson sé fremur litlaus í samanburðinum. En eins og oft er í sögum þá er hans hlutverk helst að fylgjast með öðrum. Þótt hann sé ekki sögumaðurinn þá hefur hann tilhneygingu til að verða jafn óljós og sögumenn geta gjarnan orðið.

Eins og áður er komið inn á eru málalyktir kannski ekki höfuðatriði bókarinnar, fremur eru það málavextirnir sem skipta máli. Allt á sér þó sínar skýringar. Það var svo gaman að lesa þessa bók að ég var farinn að óska þess að hún væri endalaus. Eins og sagt var um franskbrauðið forðum, tæki maður af því endann var hægt að borða það endalaust. Ef síðasta kafla bókarinnar væri sleppt yrði hún kannski að sögunni endalausu. Því er þó ekki að heilsa og nú er bara að bíða þess að fleiri bækur verði þýddar eða, ef maður getur ekki beðið, athuga hvað er til í bókabúðum og bókasöfnum af Atkinson.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2009