Beint í efni

Marlene og ég

Marlene og ég
Höfundur
Gunnar M. G.
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Marlene og ég er þriðja ljóðabók Gunnars M. G. en hann er ungt skáld, mannfræðingur að mennt, samkvæmt því sem ég njósnaði á gegnir.is. Bókin er ein af fjórum ljóðabókum sem Uppheimar sendu frá sér á vormánuðum og eru allar forvitnilegar þó ég verði að játa að kápuhönnunin gerði ekki mikið til að hvetja mig til lesturs.

Marlene og ég er prósaljóðabók, einskonar ljóðsaga með fantasíuívafi og sver sig nokkuð í ætt við ljóð Sjóns (og þá sérstaklega bækur á borð við Birgitta (hleruð samtöl) (1979)) og prósaljóðasyrpur Margrétar Lóu, eins og til dæmis „Leyniskjal Alexiu“ (í Náttvirkinu 1986) Tekið skal fram að þetta er ekki sagt ljóðunum til hnjóðs (enda ekki leiðum að líkjast) eða að ég sé að gefa til kynna að hér sé um einhverja eftirhermu að ræða. Einn prósinn virðist gefa til kynna að höfundur sé meðvitaður um margvísleg áhrif, en hann hljóðar svo:

Marlene leitar stundum í orðabók ríkjandi hugmynda en aðeins ef hún er ein og getur því varið sig fyrir eigin hnýsni. Það eru sífellt að bætast við nýir frasar en fleiri og fleiri þeirra skrifa sig inn í tungumál ljósræmunnar. Núorðið er varla hægt að kalla þá frasa; eitt orð af handahófi skeytt við annað til þess að mynda kunnuglegt hljómfall: Það sem ég segi er ekkert nýtt, þú hefur örugglega séð þetta áður.

Marlene er aðalpersóna ljóðanna og henni er fylgt eftir þarsem hún fylgist með umhverfi sínu sem barn, eldist og uppgötvar kynlíf og fer á torgið að hlusta á sagnameistarann sem geymir „undir klæðum sínum” „kínamenn sem smíða fyrir hann ótal flækjur” en það er öllu óljósari hver ‘ég’ er, kannski þessi sögumaður? Allavega er ‘ég’ sögumaður Marlene og hann segir í lokin: „eins og heimurinn er ekki samur þegar Marlene hefur lifað hann.”

Þrátt fyrir að hér bregði fyrir ofurlitlum sjálfbirgingshætti (draga má þá ályktun að heimurinn sé ekki sá sami eftir að ljóð-sagan um Marlene hefur verið sögð) þá stendur bókin ágætlega undir því að hér hafi eitthvað skemmtilegt gerst. Gunnar vinnur vel með mörk fantasíu og ljóðrænu og þó skáldið hætti sér iðulega út að mörkum væmninnar og upphafningarinnar þá spilar það vel úr stokkinum, meðal annars með því að skáletra dramatískustu punktana, sem skapar fleiri merkingarlög í textanum. Þessi leikur með merkingu er líka ræddur:

Marlene hugsaði eitt en sagði annað. Líklegast hugsaði hún þó margt svo eitthvað hlaut að hrjóta af vörum hennar?

Það fer nærri ef ég segði þetta svona hún hugsaði sig á einum stað en upplifir sig á öðrum.

Marlene og ég er nokkuð frábrugðin síðustu bók Gunnars, milli barna, sem kom út hjá Uppheimum árið 2009. Hér er tónninn síður uppskrúfaður og léttleikinn í ljóðunum meiri, þó vissulega sé ennþá nokkur dramatík til staðar.

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2011.