Beint í efni

Max og Mórits: Strákasaga í sjö strikum

Max og Mórits: Strákasaga í sjö strikum
Höfundur
Wilhelm Busch
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í nýútkominni myndasögu sinni, Alice in Sunderland, minnir höfundurinn Brian Talbot á það að einu sinni voru gefnar út barnasögur sem voru ekkert að hafa fyrir því að fegra hlutina eða útþynna þá. Þetta er auðvitað umræða sem hefur komið upp í kringum bækurnar um Harry Potter annarsvegar og Disney-útgáfur ýmissa ævintýra hinsvegar. Hvernig eru sögur matreiddar ofaní börn? Hvenær er verið að vernda barnið og hvenær að ofvernda það? Og hvenær hreinlega að blekkja það og svíkja það um sterkar upplifanir og góðar bókmenntir?

Ég var nú orðin hæfilega öldruð þegar ég las Max og Mórits í fyrsta sinn (hún kom upphaflega út árið 1981) en ég man enn hvað ég fékk mikið kikk út úr því hvað sagan var andstyggileg. Það var eitthvað svo afskaplega hressandi við þetta, næstum pönkað.

Flestir þekkja sögu Busch nokkuð vel, þó ekki væri nema af afspurn og svo öllum þeim fjölda hrekkjalóma sem fylgt hafa í kjölfarið. Það er þó ekkert sem nær tóntegund þessa litla myndlýsta söguljóðs sem segir frá hrekkjalómunum Max og Mórits. Þeir byrja á því að slátra hænsnum Betu gömlu á einkar frumlegan hátt og stela þeim svo frá henni þegar hún ætlar að gæða sér á grilluðum kjúklingi. Næst fær skraddarinn á baukinn, þvínæst kennarinn og svo Finnur frændi. Í sjötta striki er það bakarinn sem líður fyrir uppfyndingasemi pörupiltanna og í því sjöunda ráðast þeir að bóndanum - nema bóndinn er séður (þetta er fyrir daga framsóknar) og andstyggilegheitin lyftast í nýjar hæðir, því hann fer með strákana til malarans sem malar þá í korn, sem síðan er samviskusamlega étið af öndum. Svo fiðurféð sigrar að lokum!

Wilhelm Busch var bæði rithöfundur og teiknari og hann myndlýsir söguna sjálfur. Myndirnar hafa ekki síður öðlast frægð, en sagan af Max og Mórits er almennt talin vera ein af fyrirrennurum myndasögunnar eins og Kristján ræðir í formála sínum. Busch var fæddur árið 1832 en sagan kom upphaflega út 1865. Á þessum tíma var skopmyndin afar vinsæll miðill í Evrópu, meðal annars fyrir áhrif listamanna eins og William Hogarths (f. 1694). Því hefur verið haldið fram að rætur ekki aðeins myndasögunnar, heldur afþreyingarmenningar almennt liggi í slíkum verkum, sem fóru að vera áberandi á átjándu öld og urðu enn vinsælli á þeirri nítjándu. Útbreyðsla ýmiskonar myndlýstra bleðlinga og síðar skopmyndir í dagblöðum voru lykilatriði, því stór hluti neytenda var illa eða ólæs alþýða, og þannig náði þetta efni að höfða til ólíkra stétta. Mynda-sögur þessa tíma eru líka áhugavert dæmi um það hvernig myndasagan brúar stöðugt bilið milli barna og fullorðinna, en þó Max og Mórits virðist í fyrstu sjálfgefin barnabók, þarsem hún fjallar um tvo unga hrekkjalóma, þá varð strax ljóst að sagan og myndirnar höfðuðu ekki síður til fullorðinna og gera enn. Þetta kemur enn betur í ljós þegar teikningar Busch eru skoðaðar í samanburði við tvo sérstæða teiknara og höfunda samtímans, þá Edward Gorey og Tim Burton. Það er einhver andblær yfir myndum Busch sem minnir á stíl þessara tveggja, en hann einkennist einmitt af blöndu af hinu krúttlega og hinu krókbogna. Max og Mórits ganga því aftur á ýmsan hátt og eiga alltaf jafn mikið erindi sem gleðigjafi fyrir augu og eyru.

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2007