Beint í efni

Með mínum grænu augum

Með mínum grænu augum
Höfundur
Sverrir Norland
Útgefandi
Nykur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ljóðabók Sverris Norland, Með mínum grænu augum, var B.A. verkefni hans í ritlist við Háskóla Íslands, en nám í þeirri grein hefur verið að eflast á undanförnum árum. Námskeið í ritlist hafa alltaf notið mikilla vinsælda, en þau hafa lengst af takmarkast við íslenskudeild, en undanfarin ár hafa ritlist einnig verið kennd við Listaháskóla Íslands. Ritlistin er nú sjálfstæð grein innan íslensku- og menningardeildar H.Í. og er hægt að útskrifast úr því námi með B.A. gráðu, eins og bók Sverris Norland er dæmi um.

Þrátt fyrir að ritlistarnám sé bæði vinsælt og njóti virðingar víða um heim virðast enn þrífast nokkrir fordómar gegn því að slíkt nám - eða nám yfirleitt - sé hollt fyrir rithöfunda (það sama á við um listnám, sem þrátt fyrir að eiga sér aldalanga hefð, virðist enn flækt í komplexa rómantíkurinnar um hina ‘sjálfsprottnu’ list). Það er því ánægjulegt að fá í hendurnar grip sem afsannar slíka fordóma, bók hins unga höfundar ber engin merki þess að námið hafi valdið honum skaða.

Bókin skiptist í fjóra kafla, sem væntanlega endurspegla að einhverju leyti kröfur námsins, en einn kafli inniheldur þýðingar (sem segja heilmikið um fyrirmyndir höfundarins) og annar nefnist „Ekkert rímar nema það sé satt” en þar er meðal annars að finna samnefnt ljóð sem sýnir tegundir braghátta. Ljóðin skiptast svo gróflega niður í þrjár tegundir, prósakennd ljóð með nokkru frásagnaryfirbragði, hefðbundnari nútímaljóð, sum örstutt en önnur lengri. Þriðja tegundin er nefnd myndasöguljóð, en þau eru einskonar konkret ljóð með myndum.

Þar nær tilraunastarfssemin einna lengst en sum minntu mig á bráðskemmtilega ljóðaleiki í bók Ingólfs Gíslasonar, Sekúndu nær dauðanum – vá, tíminn líður! (2007) Orðin ferðast vítt og breitt um síðuna og þó þau séu kannski ekkert sérstaklega sterk þá eru myndirnar skemmtilegar.

Bragfræðilegu ljóðin markast svolítið af því að þar ræður hátturinn en honum fylgir orðið svo mikill farangur að það er ekki auðvelt að fanga persónulega stemningu. Sverrir sýnir að hann veit vel af þessu vandamáli, en í ástarvísu segir ljóðmælandinn „já!” og getur ekki annað, „bundinn af öllu þessu rími.”

Hið frjálsa form nútímaljóðsins hefur í gegnum tíðina rúmað hverskyns viðfangsefni og vangaveltur, allt frá einföldum hugleiðum til heimspekilegra og hnattrænna yfirlýsinga. Það er laust og liðugt, en kannski einmitt vegna þess dálítið vandmeðfarið. Sum þessara ljóða eru dálítið máttlaus, en þó glampar á heillandi augnablik, eins og í ljóðinu „afturhvarf” þegar regnboginn minnir ljóðmælanda á ömmu hans og hann finnur lyktina af pönnukökum. Aðra skemmtilega mynd er að finna í ‘kreppuljóðinu’ „gagnárás”, en þar hefur ljóðmælandi „safnað saman bréfum, sem / bankarnir senda mér næstum daglega”. Söfnunin hefur staðið í þrjú ár og hann bíður eftir því að einhver verði sendur „að / tuska mig til”. Þá hefur ljóðmælandi upphugsað gagnárás: „ég er búinn / að raða reikningunum upp / í virki.” Þetta ljóð er líka dæmi um það hvernig hið unga skáld slær dálítið um sig, en mörg ljóðanna einkennast af eilítið töffaralegri tóntegund sem stundum jaðrar við að vera gorgeir. Myndin af regnbogaömmunni er dæmi um kyrrlátari stemningu og sömuleiðis ljóðið „ofsjónir”, en það súmmar einnig vel upp styrkleika formsins:

í þessari veröld
búa töfrarnir sannarlega í hinu
einfalda:

til dæmis 
í blinda manninum sem
gekk rétt í þessu út úr bíósalnum með mér

Það er þó í frásögulegu ljóðunum og prósaljóðunum sem höfundi tekst best upp. Bókin hefst á prósaljóðinu „sorprit”, en þar stundar ljóðmælandi það að henda bókum þegar hann hefur lesið þær, því hann vill ekki lesa þær aftur. „Mér til undrunar barst handskrifuð umsögn um bókina inn um bréfalúguna viku síðar. Umsögnin var skrifuð af ruslakarlinum, sem hét Óskar.” Ljóðmælandi hendir fleiri bókum og fær fleiri umsagnir, en svo hætta þær að koma og „ég tel fullvíst að byrjaður sé nýr ruslakarl sem hafi engan áhuga á bókmenntum.” Þessi skemmtilegi hneykslunartónn í lokin, með áhersluna á orðið ‘engan’, er ánægjulega margradda, bæði er hér að finna íróníu og sjálfsírónu og svo dálitla hugleiðingu um fordóma og stéttaskiptingu.

Ljóðið „aukinn ljóðalestur í Reykjavík” er ekki prósaljóð en þó býr í því frásögn, dálítið í takt við stemninguna í „sorpritum”. Ljóðið lýsir því hvernig Reykvíkingar af ýmsu tagi taka sig til og byrja að lesa ljóð. Fólk yfirgefur vinnu sína, „búðarstúlka á Laugavegi / stökk yfir afgreiðsluborðið” og „sjómenn á Norðurstjörnunni RE-365 / fleygðu sér fyrir borð og syntu í átt að Landsbókasafninu”, og samfélagið lamast: „þannig leið sumarið”. Í september ber svo við „að kona á miðjum aldri” hefur lesið öll þau ljóð sem hún hefur komist yfir og heldur „til / vinnu sinnar”. Svo gera aðrir, „bráðlega komst allt í nýtt horf.”

Enn á ný glampar hér á margvíslega íróníu í bland við virkilega einlæga og fallega tóna: allt kemst í nýtt horf þegar fólk hefur lesið ljóð. En svo er hér líka fyndin hugmynd um ljóðið sem fíkn, og umfram allt nægilega öflugt til að taka yfir heiminn og sigra hann.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010