Beint í efni

Merking

Merking
Höfundur
Fríða Ísberg
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Fríða Ísberg er ein helsta vonarstjarna íslenskra bókmennta um þessar mundir; fyrri verk hennar hafa hlotið lof gagnrýnenda og lesenda, og nafn hennar virðist vera á allra vörum, enda eftirminnilegt nafn sem ber vott um skáldleg tilþrif og minnir eilítið og örlítið á persónu í skáldsögu eftir Braga Ólafs. Síðasta verk Fríðu Ísberg var ljóðabókin Leðurjakkaveður en smásagnasafnið Kláði, sem kom út árið 2018, var tilnefnt til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2020. Safnið hefur að geyma ferskan og hressandi tón, ef til vill vegna þess að íslenskir lesendur eru ekki vanir nákvæmlega því sjónahorni sem þar kemur fram frá ungum og vel skrifandi kvenhöfundi sem þar að auki virðist vera með puttann á púlsinum og bera gott skynbragð á samtíma sinn. Tvær af smásögunum í Kláða eru sérstaklega eftirminnilegar í mínum huga: Sagan um ungu konuna sem er vör um sig þegar hún gengur heim af djamminu úr miðborg Reykjavíkur seint um kvöld er ákveðið innlegg í metoo umræðuna sem virðist vera þrotlaus, og sagan um tengdamömmuna sem er búin að fá nóg af syninum og kærustunni sem búa frítt í kjallaranum. Sagan rammar vel inn þær þrengingar og örvæntingu sem einkennir ungt fólk á fasteignamarkaði á Íslandi í dag og víðar á Vesturlöndum.  

Nýjasta pródúktið, skáldsagan Merking, hefur að geyma breyttan tón og ekki kemur á óvart að höfundur hafi ákveðið að daðra við dystópíuna og skrifa vísindaskáldsögu þar sem sú grein er mjög móðins í hinum alþjóðlega bókmenntaheimi og eiginlega menningarheimi: Vísindaskáldsöguestetíkina má finna í helstu stórmyndum dagsins, en líka í óháðu artsí myndunum, og eins í myndlist og tísku. Ef menn og konur vilja skilja samtíma sinn er eins gott að vera vel með á „sæ fæ“ nótunum til að verða ekki skipreka. Undirrituð mælir með að lesa bækur eins og Sæborgina eftir Úlfhildi Dagsdóttur, Staying with the Trouble eftir Donna Haraway (sem hlýtur að fara að fást í íslenskri þýðingu) og leggjast í seríubækur Ursula K. Le Guin til að fríska aðeins upp á feminíska umhverfisvitund. Vísindaskáldskapur, umhverfisógn og samfélag sem almennt er orðið þreytt á karlrembuyfirvaldi fara vel saman. En svo er það annar handleggur, og eilítið nýrri af nálinni, það hvernig „sæ fæið“ hittir naglann svo rækilega á höfuðið á tímum covid og endurspeglar kóróna-samfélagið sem undirlagt er af boðum og bönnum.

Merking bregður upp mynd af breyttum veruleika á Íslandi. Sögutíminn er óræður en sagan gerist hugsanlega í ekki svo fjarlægari framtíð, kannski eftir 50 ár, og lýsir eftirlitssamfélagi þar sem fólk skiptist í tvær fylkingar; þá sem eru merktir og þá sem eru ómerktir. Þeir merktu hafa gengist undir próf sem þeir ómerktu eru í andstöðu við. Þessar hugmyndir minna óneitanlega á ýmislegt í covid-samfélaginu sem við búum við í dag, til dæmis á skiptinguna á milli bólusettra og óbólusettra, þá sem leggjast gegn bólusetningu og bera fyrir sig alls konar samsæriskenningar. Í Merkingu er eftirlitssamfélagið hins vegar tilkomið vegna geðheilbrigðis; hér þurfa þegnar ekki að gangast undir bólusetningu til að vera fullkomlega gjaldgengir í samfélaginu, heldur þreyta „samkenndarpróf“ sem byggir á „innlifunarmati“ og mælir andlegt heilbrigði. Fyrir vikið verður til einhvers konar sálfræðisamfélag sem flokkar fólk í siðlaust og tja... siðað, og þar sem öllu má bjarga með góðri samtalsmeðferð hjá sálfræðingi og ef til vill lyfjagjöf. Þeir sem neita að merkja sig og eru ekki sammála yfirvöldum neyðast til að lifa útskúfaðir og búa á hálfgerðum ómerktum skuggasvæðum. Lýsingar á eftirlitssamfélaginu, tilburðum yfirvalda, og setningar eins og „Andsamfélagslegri hegðun þarf að svara með samfélagslegri innlifun“ (12) minna á sögur eins og 1984 eftir Orwell eða Brave New World, og það er margt áhugavert í þessum sagnaheimi. Til dæmis umræðan öll um mikilvægi andlegs heilbrigðis, að tala um tilfinningar, sálfræðigreiningar og hugmyndir um samkennd og meðvirkni. Sú umræða er hávær í samtímanum en verður oft einföld og klisjukennd og því áhugavert að lesa sögu þar sem tekist er á um þessar hugmyndir og þær skekktar og skrumskældar.

Það er lokkandi að lesa um Reykjavík í vísindaskáldskaparbúningi, ekki síst um gamla æskuhverfið mitt sem í sögunni gengur undir nafninu Viðeyjarhverfið og er lokað af með glervegg:

Innan skamms birtist tíu metra hái glerveggurinn, hálfsilfraður, hálfgagnsær, sem hringar sig um hverfið eins og ormur á gulli. Við enda strætisins, við Sæbraut, hækkar hann og verður að bogadregnu hliði sem veit að Laugarnesveginum. Þetta er annað hliðið af tveimur, hitt er ofar, á móti Dalbrautinni. (13)

Hér eru dystópísku söguaðstæðurnar bundnar ákveðnu rými sem lesandi þekkir og fyrir vikið verða þær ögn áþreifanlegri, sannfærandi og heillandi í senn. Höfundur hefði gjarnan mátt undirstrika þetta betur, skrifa fleiri álíka lýsingar og koma þeim fyrir á fleiri stöðum í frásögninni, svona sem haldreipi fyrir lesandann og til að halda honum vel inni í söguheiminum. Í upphafi skrifaði ég að höfundur „daðraði“ við dystópíuformið og átti þá við að hún færi varlega í að takast á við vísindaskáldsöguformið. Ég hefði gjarnan viljað sjá hana takast á við það af meiri festu, fara með söguna alla leið inn í sæfæið, því sagan hefði orðið safaríkari fyrir vikið, og hreinlega meira spennandi.

Eitt helsta einkenni Merkingar er margröddun en sagan er byggð upp af röddum ólíkra persóna sem skiptast á að hafa orðið og veita sínu sjónarhorni á söguheiminn. Hugtakið er upphaflega komið frá rússneska bókmenntafræðingnum Mikahíl Bakhtín sem lýsti sögum Dostojevskís sem margradda og hvernig höfundurinn leyfir sögupersónum sínum að útskýra sig sjálfar í stað miðlægrar, altumlykjandi og alsjándi höfundarraddar. Samkvæmt Bakhtín endurspeglar orðræða hverrar persónu stétt hennar og samfélagslega stöðu, og í margradda sögu takast sögupersónurnar á í gegnum tungumál textans. Margradda skáldsagan er vel til þess fallin að birta samfélagslega gagnrýni og takast á við kollektífa atburði þar sem formið býður upp á ákveðna breidd og gefur færi á að ólíkar raddir fái að heyrast og ólík sjónarhorn að takast á.

Að skrifa margradda skáldsögu sem tekst með gagnrýnum hætti á við atburði samtímans er afar metnaðarfullt verkefni og ég fagna því að Fríða Ísberg taki það að sér. Á köflum finnst mér aftur á móti of mikill losarabragur á forminu. Ef til vill á það að vera tilraunakennt en stundum vantaði samræmi í orðræðu sögupersónanna, og að hver og ein þeirra skæri sig betur úr. Við fylgjumst með allnokkrum sögupersónum en þau Vetur, kvenkyns kennari, Tristan ungur útskúfaður maður, og pólitíkusinn Ólafur Tandri (allt frábær og skemmtilega lýsandi nöfn!) eru helstu aðalpersónurnar. Aðrar persónur falla í skuggann, eru hálfgerðar skissur eða svipmyndir, og framan af átti ég erfitt með að muna hver var hvað og tengja almennilega við þær. Ég ætla ekki að falla í þann súra pytt að segja að ég hafi ekki getað samsamað mig ákveðnum persónum - og fallið þar með á samkenndarprófinu -  það er ekki tilgangurinn og of tuggin klisja þegar kemur að umræðu um bókmenntir, en að skilja sögupersónurnar og hvar þær eru staðsettar í söguheiminum, félagslega en líka bara fysískt, er nauðsynlegt til að geta notið lestursins.

Höfundur skrifa afar skemmtilegan texta, er vel ritfær eins og foreldrar mínir segja, og það er unun og hreinasta skemmtun að lesa myndlíkingarnar sem eru mýmargar og minna jafnvel á köflum á  samkvæmisleiki. Hér er höfundur sem auðsýnilega hefur gaman að því að vinna með tungumálið og beita því á skapandi hátt, og kann það mjög vel. Aftur á móti velti ég stundum fyrir mér hvernig myndlíkingarnar fúnkeruðu í sögunni og hver „ætti“ þær? Sögupersónan sem er í forgrunni í viðkomandi kafla eða höfundarröddin sem þrátt fyrir allt er sú miðlæga rödd sem hefur tögl og hagldir á sögunni?
 

Vera Knútsdóttir, desember 2021