Beint í efni

Minni líkur meiri von

Minni líkur meiri von
Höfundur
Marjolijn Hof
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Hvernig er að vera bara venjuleg stelpa en eiga pabba sem vinnur hættulegt starf, pabba sem maður þarf stöðugt að vera að hafa áhyggjur af? Hvernig á venjuleg stelpa að skilja hvað vakir fyrir manni sem vill vinna á hættulegum stöðum og hvernig tekst maður á við það þegar eitthvað kemur fyrir?

Marjolijn Hof er þekktur hollenskur barnabókahöfundur en fyrir bókina Minni líkur meiri von hefur hún hlotið virt barnabókaverðlaun í Hollandi. Bókin hefur verið kvikmynduð þar í landi og hefur myndin líkt og bókin vakið mikla lukku. Nú er hún komin út í íslenskri þýðingu Jónu Dóru Óskarsdóttur.

Umfjöllunarefni bókarinnar virkar í fyrstu nokkuð framandi og aðstæður aðalpersónunnar kannski ekki beint hversdagslegar eða venjulegar. Þegar líður á verður hins vegar ljóst að margir geta sett sig í spor aðalpersónunnar í það minnsta að einhverju leyti. Bókin fjallar um stelpuna Bíbí sem á pabba sem er læknir. Pabbi hennar er þó enginn venjulegur læknir heldur kýs hann að starfa í stríðshrjáðum löndum og á hættulegum slóðum því bæði er hann haldinn óseðjandi ævintýraþrá og löngun til að hjálpa þeim sem þurfa á honum að halda. Hann fer reglulega í vinnuferðir á staði sem Bíbí veit lítið um og það veldur henni að sjálfsögðu miklum áhyggjum. Hún hefur heyrt um villuráfandi byssukúlur og þótt hún viti ekki alveg hvað þær eru veit hún að þær eru stórhættulegar. Þrátt fyrir að pabbi hennar reyni að segja henni að hafa ekki áhyggjur er hún ekki sannfærð.

Í upphafi sögu er pabbi Bíbíar einmitt á leið í ferð til lands þar sem hættuástand ríkir til að hjálpa fólki sem býr við bág kjör og hefur takmarkaðan aðgang að læknum. Mamma Bíbíar reynir að útskýra fyrir henni að litlar líkur séu á því að eitthvað komi fyrir pabba en þótt mamma hafi viljað vel flækir hún eiginlega bara málin. Því ef litlar líkur eru á að eitthvað komi fyrir pabba hlýtur að vera hægt að minnka líkurnar með einhverjum leiðum eða jafnvel auka þær? Ef maður þekkir bara einn sem á pabba sem er dáinn en engan sem á bæði dáinn hund og dáinn pabba hljóta að vera minni líkur á því að eiga dáinn pabba ef maður á dáinn hund? Hvað þá ef maður á dáinn hund og dána mús. Það er alla vega deginum ljósara fyrir Bíbí að það er hægt að hafa áhrif á þessar líkur og þá flækist líf hennar fyrst fyrir alvöru því nú ríður á að gera eitthvað til að hjálpa pabba. Pabbi Bíbíar týnist nefnilega í þessu fjarlæga, stríðshrjáða landi og ekkert spyrst til hans í marga daga. Allt líf Bíbíar fer úr skorðum og hún sér að hún verður að gera það sem hún getur til að minnka líkurnar á að hann sé dáinn.

Þar sem sagan er sögð alfarið í fyrstu persónu frá sjónarhorni Bíbíar fylgjumst við með henni takast á við þessar fréttir og óvissuna sem fylgir. Við sjáum umheiminn með augum Bíbíar og fáum að kynnast hennar sjónarhorni á það sem er að gerast, hvernig fullorðna fólkið hagar sér, hvernig krakkarnir í skólanum eru og hvernig lífið heldur áfram þótt eitthvað hræðilegt gerist. Það þarf að fara út með hundinn þó pabbi sé týndur og borða og gera ýmislegt sem er svo skrítið að þurfi að gera þótt maður hafi um mikilvægari hluti að hugsa.

Þrátt fyrir að hér sé verið að fjalla um erfiða atburði í lífi Bíbíar, illviðráðanlegar tilfinningar, óvissu og hræðslu er frásögnin aldrei niðurdrepandi eða þung. Hún er hins vegar alvarleg og er bæði grátbrosleg og einlæg og hugsunum og tilfinningum Bíbíar er lýst á hátt sem er fullur innsæis og skilnings. Þetta er bók sem tekur á að lesa en það á hátt sem gerir lestrarupplifunina svo mikið innihaldsríkari.

María Bjarkadóttir, desember 2011.