Beint í efni

Moli litli flugustrákur

Moli litli flugustrákur
Höfundur
Ragnar Lár
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þær voru ófáar gleðistundirnar sem ég átti með Mola flugustrák. Áhugi minn á skordýrum var alltaf mikill og ég yfirfærði ævintýri Mola og félaga hiklaust yfir á þann smádýraheim sem var í kringum mig, sá flugustráka allsstaðar og óttaðist um afdrif þeirra. Eitthvað hefur þetta nú samt skolast til því áhuginn á kóngulóm var ekki minni en á flugum og mér tókst greinilega aldrei að tengja illmennið Köngul við þessa margfættu og flínku vini.

Nú hafa fyrstu tvær bækurnar um Mola flugustrák verið endurútgefnar, og von er á hinum fimm, auk þess sem áttunda bókin er væntanleg, en hún var aldrei gefin út á sínum tíma. Bækurnar komu upphaflega út á árunum 1968 - 1975. Þessi litlu hefti láta lítið yfir sér en í þeim er margskonar fengur, ekki aðeins fyrir það hvað sögurnar og teikningarnar eru skemmtilegar heldur einnig til að rifja upp mikilvægi Ragnars Lár í sögu skopteikninga og myndasagna. En fyrir utan að hafa verið þekktur skopteiknari, meðal annars hjá Speglinum, þá er Ragnar Lár einn af brautryðjendum íslenskra myndasagna. Ennfremur mun hann hafa verið brautryðjandi fyrir hreyfimyndir. Mikið væri nú gaman ef eitthvað af því efni öllu væri safnað saman til endurútgáfu, því hér eru á ferðinni merkar menningarminjar sem hafa að mestu fallið í gleymskunnar dá.

Moli litli ber merki myndasöguáhuga skapara síns, en sagan minnir á myndasögur að því leyti að allar myndirnar birtast í römmum fyrir ofan texta á síðunum, ein á hverri síðu. Þetta form er svipað barnabókum frá fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, til dæmis Dísu ljósálfi sem nú nýtur endurnýjaðra vinsælda, en höfundur hennar, hinn hollenski Gerrit Theodor Rotman, er einmitt talinn meðal brautryðjenda hollenskra myndasagna. Að því leyti má segja að útlit Mola sé svolítið „gamaldags”, því myndabækur fyrir börn á þeim tíma voru farnar að líta allt öðru vísi út, meira var lagt í heildarhönnun bókarinnar og myndirnar breiddu úr sér á síðunum (sjá um sögu myndabóka á garmur.is). En, eins og áður segir, þá tilheyrir Moli að einhverju leyti myndasöguarfleifðinni og það er merkilegt að sjá hvað þetta einfalda en klassíska form eldist vel.

Sögurnar sjálfar eru hádramatískar, en í fyrstu bókinni er lesandinn kynntur fyrir Mola og heimili hans og helstu ástríðu, sem eru sykurmolar. Myndirnar skapa strax spennu, eins og þegar Moli stendur í sykurkari Gunnu gömlu, þá horfum við upp til hans, líkt og frá sjónarhorni barnsins sem horfir upp á borðið. Aftur upplifum við smæð Mola þar sem hann stendur á hespunni við lokaðan gluggann og svo þegar hann stígur sigri hrósandi út úr skráargatinu. Allt er þetta tilvalið til að heilla hugann og skapa ævintýri úr hversdeginum. Svo koma hinar aðalpersónurnar til sögunnar, Köngull kónguló, sem minnir mjög á Drakúla og Jói járnsmiður sem er kolbikasvartur og sver. Sagan af bátsferðinni í bók 2 er líka ógleymanleg og sjálfsagt hafa ýmsir skimað eftir bréfbátum á tjörninni eftir þann lestur.

Það er ákveðin nægjusemi í þessum sögum sem síðan endurspeglast í einföldu útliti þeirra, en það er látið halda sér í endurútgáfunni. Bækurnar um Mola eru gott dæmi um hvernig ævintýrin þurfa ekki endilega að vera búin í skrautlegt form til að kveikja í lesendum sínum.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010.

p.s. Nánar má fræðast um Mola litla á síðunni: http://www.moliflugustrakur.is/.