Beint í efni

Morðið í Drekkingarhyl

Morðið í Drekkingarhyl
Höfundur
Stella Blómkvist
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Hver er hún? Hver er höfundurinn, Stella Blómkvist? Kona, eða karl sem þykist vera kona? Skáldsagnapersónan er ljós en höfundurinn ekki. Það er freistandi að taka þátt í ágiskunarleiknum; hver er höfundurinn? Sá sem þetta ritar giskar á að hann sé karlmaður á sextugsaldri, af 68-kynslóðinni eða þar um bil – Þegar fram kemur að faðir skáldsagnapersónunnar, Stellu, ber nafnið Karl rennir mann grun í að höfundurinn hafi í æsku lesið bækurnar um leynilögregludrenginn Karl Blómkvist eftir Astrid Lindgren. Það passar við þá kynslóð sem fædd er á árunum 1950-1955. Nokkur nöfn koma í hugann en engin verða nefnd að sinni.

Stella er ágætlega heppnuð persóna frá hendi höfundar, enda lífseig. Hún hegðar sér gjarnan sem karlmaður væri, hún rífur kjaft, klæðist gjarnan leðri, sefur hjá báðum kynjum, virðist þó frekar kjósa konur, teflir stundum nokkuð djarft og er jafnvel að athafna sig á gráu svæði sem lögmenn trúlega varast alla jafna.

Í þessari nýju bók tekur Stella að sér að verja mann sem grunaður er um að hafa myrt dóttur sína. Hann er múslimi frá Kúrdistan og er leitt getum að því að um svokallað heiðursmorð sé að ræða. Margt kemur í ljós við rannsókn málsins eins og vera ber og ekki allt fagurt. Stella fer sínar eigin leiðir í rannsókninni og kemst að ýmsu misjöfnu um menn sem vissulega eru grunsamlegir frá fyrstu blaðsíðum og aðra sem ættu að passa sig á að hafa allt sitt á hreinu og vekja ekki grunsemdir hjá lögmanninum ráðagóða.

Að flestu leyti er bókin ánægjulegur lestur. Morðið í Drekkingarhyl er vel heppnuð glæpasaga og líklega ein besta bókin um Stellu. Hver sem hinn raunverulegi höfundur er, þá er hann ágætlega skrifandi. Viðfangsefnið er vel valið, því gerð ágæt skil og spennuþátturinn betur heppnaður en í mörgum öðrum íslenskum glæpasögum. Stælarnir í stílnum eru hins vegar dálítið leiðigjarnir til lengdar. Að “tala” um silfurlitaðan Benz sem silfurfák, karlmenn sem fola, löggur sem prúðupilta og þetta sífellda “sagði mamma” verður smám saman pirrandi og skemmir fyrir. Allra leiðinlegast er að Jack Daniels búrbón skuli kallað Nonni Daniels eða bara Nonni (!!!). Auðvitað eru þetta fáránlega orðfæri dálítið ætlað til þess að hrekkja og pirra, sýna að Stella sé töff stelpa og svoleiðis auk þess að tengja skáldskap þennan rækilega við “pulp”reyfara fyrri tíma. Þetta er vissulega gamaldags og um leið er höfundurinn að segja við lesandann: Fyrir alla muni, ekki taka þessi skrif alvarlega.

En umfjöllunarefnið er alvarlegt eftir sem áður. Bók sem er þetta vel skrifuð að öðru leyti, með snúnu plotti og mestan part skemmtileg líkist vegna þessa annars flokks reyfara fremur en fyrsta flokks glæpasögu.

„Sem er synd.“

Sagði mamma.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2005