Beint í efni

Morðið í Gróttu

Morðið í Gróttu
Höfundur
Stella Blómkvist
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það ríkir engin kyrrð í heimi Stellu frekar en fyrri daginn, líf ofurlögfræðingsins er stöðugt stuð ef marka má þessa níundu bók höfundar, Morðið í Gróttu. Eins og allir vita er Stella Blómkvist sjálf(ur?) mesti leyndardómurinn, því enn hefur ekki tekist að afhjúpa hið raunverulega nafn höfundar. Samt eru liðin 20 ár síðan fyrsta bókin kom út, en árið 1997 leysti Stella morð í Stjórnarráðinu. Sama ár kom út fyrsta bók Arnaldar Indriðasonar, Synir duftsins, og árið er því oft talið marka upphaf íslensku (nútíma) glæpasögunnar. Sú hefur síðan náð siglingu í félagi við gríðarlegar vinsældir norrænna glæpasagna. Nú hefur Stella náð í skottið á þeirri bylgju, en á þessu ári var frumsýnd sjónvarpsþáttaröð byggð á sögunum.

Athafnasemin er því bæði utan sögunnar og innan. Það er ánægjulegt að Stella sé að fá aukna viðurkenningu, því bækurnar eru skemmtilegar og hvorki höfundurinn né Stella sjálf taka sig of hátíðlega. Hér er húmorinn í fyrirrúmi, í bland við hefð hins ‚harðsoðna‘ reyfara þar sem tálkvendin eru víða – í þessu tilfelli Stella sjálf! – og spillingin allsstaðar. Og það er kannski þar helst sem Stella slær alvarlegan tón, þegar hún afhjúpar linnulausa spillingu stjórnvalda og innan valdaklíka af ýmsu tagi. Því undir öllum töffaraskapnum leynist kona full af réttlætiskennd, kona sem er alltaf tilbúin til að ráðast að klíkuskap karla og berjast fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín (helst þó gegn greiðslu).

Morðið í Gróttu hefst á því að miðill að nafni Dýrleif heimtar að fá að tala við Stellu, hún hefur fengið vitrun um mann sem sé bundinn við bryggju og muni drukkna þegar flæðir að. Lögreglan hlustar ekki og miðillinn vonar að Stella taki sér betur. Það gerir hún ekki, en henni bregður við þegar maður finnst drukknaður við Gróttu, einmitt bundinn á sama hátt og miðillinn lýsti. Sá látni er kvótakóngur sem er þekktur fyrir vafasama viðskiptahætti . Einn af þeim sem hann sveik er tekinn fastur og ræður að sjálfsögðu Stellu sem verjanda.

Fyrir utan morðið í Gróttu er Stella að vinna að tveimur öðrum málum: hún er að aðstoða unga stúlku, Úlfhildi, að fá að hitta föður sinn sem hún vissi ekki hver væri; og gamall glæpon (og óvinur Stellu) ræður hana til að semja við lögregluna fyrir sína hönd, því hann er með upplýsingar sem gætu komið helsta eiturlyfjabarón landsins illa.

Móðir Úlfhildar er nýlátin, en hún hafði vísað dótturinni til Stellu til að fá upplýsingar um faðernið. Pabbinn, Konráð, reynist vera æðstiprestur í sértrúarsöfnuði og af honum fara vafasamar sögur. Hann hafnar dótturinni og ber fyrir sig að slíkt hneyksli myndi eyðileggja safnaðarstarf sitt sem felst meðal annars í því að frelsa fíkla. Hræsni af þessu tagi er eitur í beinum Stellu og skinhelgi er eitt af reglulegum stefjum í skáldsögunum – skinhelgi sem Stella nýtur þess að ráðast á.

Glæponin, Sævar Sækó, er tekin fyrir fíkniefnasmygl, en hann er einn af frelsuðum fíklum Konráðs. Hann reynist að sjálfsögðu tvöfaldur í roðinu og reynir að koma Stellu í vandræði.

Í ljós koma ýmis tengsl milli þessara mála, aðallega þó fjölskyldutengsl og þá sérstaklega úr einni valdamikilli ætt, þeirri sem eiturlyfjabaróninn er af. Það er því mikið í húfi og spillingin leynist að sjálfsögðu víða.

Inn í málið fléttast svo vangaveltur um dóttur Stellu sjálfrar, en hún er án föður og móðirin engan veginn viss um hver hann sé, enda er ástalíf hennar líflegt og hún hneigist bæði til karla og kvenna. Eftir að hafa horft upp á hinar margvíslegu fjölskylduflækjur sem tengjast málunum ákveður Stella því að ganga í að finna út úr faðerninu.

Morðið í Gróttu er skemmtileg lesning eins og allar bækur Stellu. Þó ekki sé alltaf haldið föstum tökum um alla þræði málsins, þá er sagan í það heila vel saman sett og heildarmyndin sterk. Hinn dularfulli höfundur er bæði vel skrifandi og sérlega fær í íslensku og leikinn við að leika sér með klisjur, orðatiltæki og málshætti. Það sem vekur enn á ný athygli er áherslan sem er lögð á spillingu annarsvegar og stöðu kvenna hinsvegar. Þetta er sérlega sterkt í ljósi frétta síðustu ára af íslenskum stjórnmálum og umræðum á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum undir merkjum ‚metoo‘, þar sem konur hafa lýst valdbeitingu af hálfu karla.

Eins og áður er sagt hefur Stella frá upphafi sett mál sín í tengsl við spillingu á æðstu stöðum eins og kemur fram í titlum verkanna, en þau tengjast iðulega embættum af einhverju tagi. Fyrst var Morðið í Stjórnarráðinu (1997), svo Morðið í Sjónvarpinu (2000), en fjölmiðlar leika stórt hlutverk í heimi Stellu, enda á hún sér ‚samsærismann‘ í þekktum fréttabloggara. Á eftir fylgdu Morðið í Hæstarétti (2001), Morðið í Alþingishúsinu (2002) og Morðið í Drekkingarhyl (2005). Í þeirri bók jókst til muna áherslan á stöðu kvenna en staðsetningin er táknræn fyrir kynbundið ofbeldi í gegnum söguna. Næst leysti Stella Morðið í Rockville (2006) og tók sér svo sex ára hlé þar til Morðið á Bessastöðum birtist (2012). Henni fylgdu svo Morðið í Skálholti (2015) og nú Morðið í Gróttu.

Fyrir utan að berjast við embættismenn og yfirvöld á Stella í stöðugri baráttu við karla sem vilja gera lítið úr henni og halda henni niðri á ýmsan hátt, þar á meðal faðir hennar, sem deyr í einni bókinni og Stella syrgir lítið. Þannig búa sögurnar alltaf yfir alvarlegum og málefnalegum undirtónum sem vert er að taka eftir og gefa vægi. Stella beitir húmornum og léttleikanum til að koma á framfæri samfélagsgagnrýni sem hefur iðulega ekki farið hátt í umfjöllunum um verk hennar, en hitta hinsvegar í mark, ekki síst nú þegar umræðan um spillingu og kynbundna valdbeitingu hefur sjaldan verið jafn umfangsmikil.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2017