Beint í efni

Morðið í Rockville

Morðið í Rockville
Höfundur
Stella Blómkvist
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Morðið í Rockville er 6. bókin um lögfræðinginn Stellu Blómkvist sem rekur ekki mál sín fyrir dómi, frekar en Þóra í sögum Yrsu Sigurðardóttur, heldur starfar sjálfstætt að rannsókn mála sem virðast vefjast fyrir lögreglunni. Áður en lengra er haldið verð ég að játa að þetta er fyrsta bókin sem ég les um Stellu og því get ég ekki dæmt um það hvernig hún er í samanburði við hinar í seríunni og ég veit því heldur ekki hvort að persóna Stellu hefur alltaf verið eins eða hvort hún hefur mótast og breyst í gegnum sögurnar.

Í þessari sögu fær Stella það hlutverk að rannsaka morð á amerískum kaupsýslumanni sem áður hafði gengt herskyldu á Íslandi. Skjólstæðingur Stellu er handtekinn, grunaður um verknaðinn og hlutverk hennar er að sanna sakleysi hans. Inn í söguna blandast svo önnur mál sem Stella vinnur að, s.s mál konu sem hefur verið misþyrmt af eiginmanni sínum og mál sóknarprestsins á Seltjarnarnesi sem safnaðarformaðurinn er að reyna að bola úr embætti. Mál prestsins í sögunni minnir reyndar óþarflega mikið á mál sem upp kom í sókninni í Garðabæ fyrir ekki löngu síðan, ekki að sömu atburðir séu notaðir en umgjörðin er svipuð. Ýmislegt bendir til að tengsl séu á milli þessara þriggja mála sem hafa ratað inn á borð til Stellu en höfundi tekst hins vegar ekki að vinna úr þessum tengslum á sannfærandi hátt. Mál prestsins, sem er stór hluti sögunnar, gufar einhvern veginn upp í endinn, sama má reyndar segja um mál eiginkonunnar sem gift er ofbeldismanni, syni seðlabankastjóra sem virðist vera með puttana í fleiru en gott þykir. Ekkert kemur hins vegar fram sem skýrir afskipti bankastjórans af máli fórnarlambsins sem Stella er að rannsaka morðið á.

Þrátt fyrir þetta á sagan góða spretti og morðsagan sjálf er spennandi. Frásögnin er í anda amerískra spennusagnasagna þar sem ofurtöffarar og einfarar leysa málin, oft í óþökk lögreglunnar. Höfundar eins og Sue Grafton og Sara Paretsky koma strax uppí hugann, þó að fyrirmyndar að Stellu sé kannski frekar að leita í karlkyns persónum eins og spæjarans Elvis Cole í sögum eftir Robert Crais og hins fræga Spencers, aðalsöguhetju Robert Parkers. Hins vegar á höfundur Stellu langt í land hvað varðar persónusköpun og úrvinnslu mála til að hægt sé að líkja honum við þessa erlendu kollega. Saga Stellu er þó vel skrifuð og ef undan eru skilin tilgerðarleg uppnefni á lögreglunni og þreytandi endurtekning á ást Stellu á viskíinu og bílnum (– einhverra hluta vegna minnti þetta mig á orðfæri töffaranna á sveitaböllunum um miðjan áttunda áratuginn) er hún skemmtileg aflestrar. Eftir stendur samt sú tilfinning að höfundurinn geti skrifað svo miklu betri glæpasögu en þessa.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2006