Beint í efni

Morðin í Skálholti

Morðin í Skálholti
Höfundur
Stella Blómkvist
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Stella Blómkvist hefur í nógu að snúast í nýjustu bók sinni, Morðin í Skálholti. Fyrir utan að lenda sjálf í slysi (þar sem hún óvart finnur mannshandlegg í jökli) er hún að finna týnda konu og leysa tvöfalt morð í Skálholti, nánar tiltekið hinni umdeildu Þorláksbúð. Og svo er hún að verja vin sinn fréttamanninn gegn kerfisköllum. Og sitthvað fleira.

Stella er og verður einn af leyndardómum íslenskar bókmenntasögu en hún er merkileg fyrir aðrar sakir. Frá upphafi hafa bækurnar einkennst af léttúðugri tóntegund, sem á rætur sínar að rekja til harðsoðna reyfarans í bland við svartan húmor og háðsádeilu. Þetta er stíll sem tekur sig ekki of alvarlega, en það hefur síðan valdið því að bókunum hefur ekki verið tekið af fullri alvöru, enda bera þær þess vissulega merki að vera ætlaðar sem skemmtiefni. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þær fjalli um grafalvarleg mál (í grunnin eru öll morð auðvitað grafalvarleg), en segja má að þegar kemur að samfélagsgagnrýni þá láti Stella ekki sitt eftir liggja. (Sem fyrr finnst mér það athygli vert að samfélagsádeila, og þá sérstaklega umfjöllun um mikilvæg þjóðfélagsmál eins og spillingu stjórnmálamanna og kynbundið ofbeldi, skuli næstum eingöngu koma í hlut íslensku glæpasögunnar.)

Það vill auðveldlega gleymast að Stella Blómkvist steig fram á ritvöllinn á sama tíma og Arnaldur Indriðason, sem í dag er einn mest lesni íslenski höfundurinn, heima og heiman. Fyrsta bók Stellu, Morðið í Stjórnarráðinu kom út árið 1997, sama ár og Synir duftsins eftir Arnald. Þá strax er áherslan á gagnrýni á spillt stjórnvöld, eitthvað sem heldur áfram að vera þema í verkum Stellu. Þó hún sé lögfræðingur, og þannig fulltrúi hinna borgaralegu stétta, þá er hún róttæk í stöðugri baráttu sinni gegn valdníðslu og karlrembu. Og þó hún sé kapítalísk inn að beini þegar kemur að því að safna í ‚stellusjóðinn‘, þá berst hún fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín, iðulega kvenna, ekki síst erlendra kvenna og innflytjenda. Stella er því skemmtilega mótsagnakennd og það er sjálfsagt eitt af því sem gerir bækurnar svona ánægjulegar aflestrar.

Sagan hefst á því að auðugur Skoti biður Stellu að hafa uppi á systurdóttur sinni sem hvarf sporlaust, með mótorhjóli og farangri, norður í landi. Tæplega áratugur er liðinn og slóðin orðin köld, en Stella er glögg á það sem öðrum yfirsést. Næst biður fréttahaukurinn Máki hana um aðstoð, en hann er að skrifa eldfimar greinar um njósnir á tímum kalda stríðsins og fullyrðir að íslenskir ráðamenn hafi njósnað fyrir Ameríkana. Honum er hótað lögsókn og Stella er hans sverð og skjöldur. Mitt í þessu samþykkir hún að fara upp á Snæfellsjökul til að láta kvikmynda sig, en endar ofan í djúpri sprungu, ómeidd að mestu en skekin. Ekki síst fyrir það að þegar hún er að skoða umhverfi sitt sér hún mannshönd í ísnum. Það er svo ekki fyrr en liðið er á rannsókn þessara mála að brunamálið lendir á hennar borði, en sá látni er faðir kvikmyndaleikstjórans og Stella er fengin til að verja mann hennar, sem ásakaður er um morðið.

Það eru því ýmis tengsl á milli mála, eins og gerist og gengur í örsamfélagi á borð við hið íslenska. Þetta gerir flækjustigið að sjálfsögðu hærra, auk þess sem ástamál Stellu eiga sinn þátt í að auka á ruglinginn.

Allt er þetta snöfurlega gert, og bráðskemmtilegt aflestrar. Þó tónninn sé ekki alveg eins léttúðugur og í fyrstu bókunum, þá fer þessi aukni þungi Stellu vel og hún nær að halda öllum boltum á lofti, og lesandanum við efnið.

úlfhildur dagsdóttir, september 2015