Beint í efni

Músin sem gelti á alheiminn

Músin sem gelti á alheiminn
Höfundur
Russell Edson
Útgefandi
Bókasmiðjan
Staður
Selfoss
Ár
2014
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í prósaljóðinu „Auða bókin“, í Músin sem gelti á alheiminn, segir eiginmaðurinn við konu sína: „Bókin er auð.“ Konan svarar: „Skondið atvik henti mig á leið til líðandi stundar. Ég var að hrista bókina til að losna við prentvillurnar og allt í einu duttu öll orðin og greinarmerkin úr henni“ (20). Einhvernveginn á þann veg er nálgun höfundarins Russells Edsons á alheiminn, en þó sérstaklega veruleikann og bókmenntirnar; hann hristir allt í burt og byrjar svo með auða bók þar sem hann býr til nýjan alheim.

Um þessar mundir (lesist: alltaf) er ég mjög að velta fyrir mér mörkum af hverskyns tagi, en þó aðallega mörkum milli listforma. Í augnablikinu er það myndasagan sem ég hef sérstakan áhuga á: hvað er myndasaga og hvað þarf til að búa til myndasögu? Getur hvaða röð mynda sem er til dæmis verið myndasaga? Þarf myndasagan að vera saga? Hvaða lögmál gilda um myndasögur? Hvaða skilgreiningar? Myndasagan hefur í gegnum sína löngu og flóknu ævi birst í allskonar formum og fyrirbærum og fer reglulega hamförum. Hún er því ekki eitthvað eitt, ekki frekar en skáldsagan, myndlistin eða ljóðið.

Ljóðið er annað fyrirbæri sem vefst fyrir skilgreiningum, þvælist bókstaflega um fætur þeirra og ruglar í rími. Tökum prósaljóð sem dæmi; hver er nákvæmlega munurinn á prósaljóði og örsögu? Örsaga er örstutt smásaga, en er prósaljóð það ekki líka? Það er því vel við hæfi að Russell Edson skuli velja sér prósaljóð sem vettvang fyrir það athæfi sitt að hrista upp í orðum, því þau eru einmitt fyrirbæri sem stendur (völtum fótum) á mörkum bókmenntagreina. Að auki á hann ættir að rekja til myndasögunnar, en í formála þýðanda, Óskars Árna Óskarssonar, kemur fram að faðir Russells, Gus Edson, er einn höfunda dagblaðamyndasagna um Andy Gump, sem segir af hinni ofurvenjulegu Gump fjölskyldu og hversdagslegum uppákomum í tilveru þeirra.

Þeir sem fjalla um sögu myndasögunnar benda á að á sínum blómatíma, fyrri hluta tuttugustu aldar, voru myndasögur ekki eins hversdagslegar og þær eru í dag. Á þeim tíma einkenndist daglegt umhverfi og afþreying ekki af þessu mikla myndræna áreiti og myndasögurnar, sem voru iðulega í lit í annars svart/hvítri veröld, buðu upp á innsýn í aðra heima, virkuðu eiginlega eins og ofskynjanir, samkvæmt myndasöguhöfundinum Grant Morrison (Supergods 2011). Mögulega er það þetta veganesti sem Russell matar prósa sína á, en þeir einkennast af óvæntum uppákomum, sem iðulega er tekið sem sjálfsögðum hlutum:

Ákvörðun foreldranna

Maður klofnar í sundur, annar helmingurinn er gömul kona og hinn helmingurinn gamall maður.

Þetta hljóta að vera foreldrar hans. En hvar er maðurinn? Ef til vill fórnaði hann sér fyrir þau ...

Ég spyr gömlu hjónin hvort þau hafi séð son sinn.
Gamla konan segir: Við ákváðum að eignast engin börn.
(18)

Lógíkin er fullkomlega furðuleg, maðurinn skiptist í foreldra sína sem síðan má út tilvist hans með því að hafa, fyrir löngu, þau eru jú fullorðin, ákveðið að eignast ekki börn. Hér birtist okkur rökheimur draumsins, en sá heimur er einnig nærtækur prósum Edsons, eins og fram kemur í formála. Þar er höfundurinn kenndur við nýsúrrealisma, en fyrstu ljóð hans birtust árið 1951, þegar súrrealismahreyfingin er endurvakin eftir síðari heimsstyrjöld. Margir súrrealistar flúðu stríðið til Bandaríkjanna og höfðu mikil áhrif á listir og menningu þar. Reyndar hefur einnig verið bent á að súrrealismi (og dada) hafði þegar gert sig heimakomið í Bandaríkjunum strax á fyrstu árum aldarinnar, í raun áður en þessar hreyfingar urðu til í Evrópu. Og hvernig? Auðvitað í myndasögum, þekktustu dæmin eru Little Nemo in Slumberland eftir Winsor McCay og Krazy Kat eftir George Herriman.

Sem dæmi um prósa sem tengja má öllu þessu, myndasögum, draumum og súrrealisma er „Kofinn í skóginum“, en þar byggir maður sér kofa í skógi, en misferst að mæla verkið nægilega vel út, kofinn er of lítill: „Hann áttaði sig á þessu þegar hann kom einungis hendinni inn um dyrnar.“ Ótrauður reynir hann samt að láta hendina ferðast um kofann: „Hann veltir því fyrir sér hvernig hann eigi að elda kvöldmat. Hann kæmi hugsanlega fingrunum inn um eldhúsgluggann en jafnvel þó það tækist er eldavélin of lítil til að elda nógan mat; pottarnir eru á stærð við fingurbjargir og öltappa.“ Að auki neyðist hann til að sofa úti: „Hann hringar sig um kofann og hlustar á skordýrin syngja með því að núa saman vængjunum ...“ (32). Síðasta línan hljómar ævintýraleg – hvernig geta skordýr sungið með vængjunum? – en er í raun það eina sem er ofurvenjulegt, einmitt svona syngja krybbur.

Í öðrum prósa, „Þessa heims“, hittum við fyrir gamlan mann með með vængi: „Þú sérð þá við rétt birtuskilyrði. [...] Vængirnir eru svo viðkvæmir, svo þunnir og gegnsæir að þetta virðast ekki vera vængir sem hæfa gömlum manni. Maður hefði búist við grófum trékenndum fjöðrum“ (51). Hið ótrúlega er gert sjálfsagt og svo er stundum snúið upp á það á ný eins og í „Ótrúlegri tilviljun“ þegar hver ótrúlega tilviljunin fylgir annarri. Svona hefst þetta alltsaman:

Hann opnar dyrnar á bílnum og stígur inn í konunglegan sal með glæstum ljósakrónum og rauðum dregli á gólfinu.
Þar hneigir sig maður í hnébuxum og spyr: Má ég taka við höfðinu þínu, herra?
(28)

Og þannig heldur þetta áfram, myndin sem teiknast upp minnir mig strax á senur úr sögum McCay, en tilfinningin er einnig kunnugleg úr draumum, sem einmitt einkennast af snöggum sviðskiptum.

Tveir prósar fjalla um leikbrúður, sem er vel við hæfi fyrir þann sérstaka heim sem Edson smíðar. Í „Hugmyndaþjófinum“ kemur spegill við sögu, „Leigubíllinn“ sem ljóðmælandi hringir á „kvöld eitt í myrkrinu“ reynist innihalda gulan bílstjóra sem er „klasi af kanarífuglum mótaður eins og maður“ (68) og maður kann ekki að sofa í „Svefn“. Þannig eru tínd til kunnugleg tákn annarra heima, svefninn, nóttin, brúðuleikhús og spegill. Aðrar sögur eru allslausar við slíka vegvísa og gersamlega úti á túni, eins og „Hjölbörurnar“ en þar vantar hjólbörur þó nóg sé til af kúm:

Þegar þau voru farin að örvænta um framtíðina bundu þau hjól um framfæturna á einni kúnni; tveir kraftakarlar lyftu afturlöppunum og óku henni um bæjarhlaðið.

Hinar kýrnar, sem aldrei höfðu séð hjólbörur, litu við og horfðu á. Svo litu þær undan og dreifðust eins og ský um engin ...
(23)

Þannig skríða undrin og furðurnar fram ein af annarri í þessu litla kveri. Þýðingar Óskars Árna eru grípandi og án þess að hafa samanburð við frumtexta þá tel ég ljóst að þær koma efninu vel til skila, enda er margt í heimi Edsons sem minnir á smáprósa, örsögur og prósaljóð Óskars sjálfs.

Eiginlega fæ ég á tilfinninguna að þeir hafi sameinast í því að senda út öll þessi samanhristu orð, líkt og hjónin í „Auðu bókinni“, en þar spyr eiginmaðurinn konu sína hvað hún hafi gert við öll orðin sem duttu úr bókinni. „Ég bjó til böggul og skrifaði ímyndað póstfang utan á hann, sagði hún.“ Eftir nokkrar umræður um hvort orð og auðar síður geti komið af stað slúðri og gróusögum kemur konan með hugmynd: „Kannski ættum við að senda okkur sjálf á eitthvert ímyndað heimilisfang“. Maðurinn spyr hvort það sé „af þvi að orð eru sífellt að detta út úr munninum á okkur, orð sem hæglega gætu komið af stað sögusögnum og meinfýsnu slúðri?“ Konan er ekki á því: „Það er vegna þess að einhvern veginn erum við alltaf að detta út úr okkur sjálfum, eins og stakir skuggar; hristum okkur eins og við getum losnað við allar prentvillurnar í lífi okkar“. Þetta fellst maðurinn á: „Jæja, ef það á ekki eftir að særa raunveruleikann, þá gefur það honum sannarlega kærkomna hvíld“ (20-21).

Músin sem gelti á alheiminn er sannarlega kærkomin hvíld frá raunveruleikanum og ekki veitir af. Það jafnast á við dvöl á heilsuhæli að lesa þessar undirfurðulegu sögur af mismældum húsum, glórulausum kvikmyndum og vængjuðum gamalmennum. Og um hugann fara óvæntar svipmyndir og glefsur úr gleymdum draumum.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2014