Beint í efni

Myrkfælni

Myrkfælni
Höfundur
Þorsteinn Mar
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hrollvekjan á sér ekki mikla hefð í íslenskum nútímabókmenntum og er það verr. Nóg er af hryllingi í sagnaarfinum, en einhvernveginn virðist þetta frábæra efni ekki hafa náð fótfestu í nútímanum, með einstaka undantekningum. Þar ber að helst nefna skáldsögu Jökuls Valssonar, Börnin í Húmdölum, hrollvekjandi þætti í verkum Stefáns Mána, Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Gyrðis Elíassonar og Sjóns og nú síðast verðlaunabók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig. Eitthvað er einnig til af smásögum (meðal annars í safninu Íslenskar hrollvekjur) og hrollvekjandi þætti er að finna í smásögum skáldkvenna á borð við Ástu Sigurðardóttur, Gerði Kristnýju og Svövu Jakobsdóttur. Myndasögur Hugleiks Dagssonar (og leikrit, Baðstofan) sækja nokkuð til hrollvekjunnar, og sjálfsagt mætti týna fleira til án þess þó að ná nokkurntíma uppí heila hillu. Aðeins tvö þessara verka geta þó beint talist til hrollvekju, í afmarkaðri skilgreiningu bókmenntagreinarinnar, en það eru skáldsögur Jökuls og Yrsu.

Það var því með nokkuð mikilli forvitni sem ég opnaði smásagnasafn Þorsteins Mar, Myrkfælni, en það er kynnt sem safn hrollvekja. Í heildina séð varð ég ekki fyrir vonbrigðum þó seint verði kannski sagt að safnið marki vatnaskil fyrir bókmenntagreinina. Höfundur leitar mikið í þjóðsagnaarfinn bæði hvað varðar efni og stíl og eru sumar sagnanna einskonar útfærslur á draugasögum, með tilbrigðum. Dæmi um þetta er fyrsta sagan, „Milli þils og veggjar”, en þar segir frá ungum manni sem ræður sig sem aðstoðarmann kaupmanns og finnur fljótt að einhver draugalýsulog leika um húsið. Sagan „Einar” sækir í arf sagna af galdramönnum og „Húsið” sömuleiðis. Sumar sagnanna fjalla um óvænt og óheppileg tengsl milli heima, en eitt einkenni hrollvekjunnar er að taka myrkfælni og fóbíur ýmsar sem almennt teljast geðrænar og gera þær að hrollköldum veruleika. „Myrkfælni” og „Mýsnar í kjallaranum” eru dæmi um sögur af þessu tagi.

Annar sterkur áhrifavaldur er bandaríski rithöfundurinn H.P. Lovecraft en hann er reyndar enn einn af helstu áhrifavöldum hrollvekjunnar í það heila talið. Lovecraft var sjálfur undir miklum áhrifum frá öðrum bandarískum höfundi, Edgar Allan Poe, en hann er einn af brautryðjendum hrollvekjunnar í nútímaformi auk þess að vera meistari smásögunnar. Báðir þessir höfundar helguðu sig að mestu smásögunni en hún hefur löngum fóstrað hrollvekjuna. Það er eitthvað sem gerir það að verkum að hrollvekjan og smásagan falla vel saman, þó vissulega eigi hryllingur einnig vel heima í öðrum formum. Það er því vel við hæfi að Þorsteinn skuli velja sér smásagnaformið, enda er það skyldast þjóðsögunni, sem er, eins og áður sagði, afar nærtæk í sögunum. Þáttur drauga og annarra þjóðsagnavætta er nokkur og blandast á stundum öðrum áhrifum, eins og þegar Marbendillinn fellur fimlega saman við goðsagnaheim Lovecrafts.

Stíllinn er sömuleiðis undir sterkum áhrifum þjóðsögunnar og gerir sig á stundum vel en getur líka virkað ankannalega þegar kemur að nútímalegri sögum. Þær falla svolítið saman við þjóðsagnasögurnar og því verður safnið óþarflega eintóna, miðað við hvað sögurnar eru ólíkar. Yfirleitt hefði þurft að slípa stílinn nokkuð og lesa betur yfir. Þetta truflar svolítið en í það heila tekið ekki að alvarlegu ráði, enda tekst Þorsteini hvað eftir annað að skapa verulega hrollvekjandi stemningu.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2011.