Beint í efni

Nafnabókin

Nafnabókin
Höfundur
Amélie Nothomb
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ég skemmti mér voðalega vel yfir skáldsögu Amélie Nothomb, Undrun og skjálfti, sem kom út fyrir einhverjum árum. Hún var fyndin, skrítin og smart og svo fjallaði hún öðrum þræði um David Bowie. Ný bók eftir sama höfund var því allmikið tilhlökkunarefni, en fagurgræn Nafnabók datt inn um lúguna hjá mér í vikunni. Það verður að játast að ég varð ekki alveg eins hrifin af Nafnabókinni og Undruninni, kannski var fyrsta undrunin og skjálftinn búinn yfir þessum höfundi, kannski eitthvað annað. Þetta þýðir þó ekki að mér hafi ekki hugnast Nafnabókin, mér fannst hún skemmtileg og sniðug, aldeilis fín bók bara.

Sagan segir frá stúlkubarninu Plectrude sem er einskonar prinsessubarn (kannski prinsessur séu þema hjá útgáfunni) fósturmóður sinnar og móðursystur. Móðir stúlkunnar hafði dáið ung, réttara sagt fargað sér ung, eftir að hafa skotið eiginmann sinn, sem hún óttaðist að myndi nefna barnið einhverju löðurmannlegu nafni. Svo Plectrude litla elst upp hjá móðursystur sinni sem dýrkar hana. Stúlkan reynist nokkuð sérlunda, gengur illa í skóla en þeimmunbetur í ballettskóla. En til að geta orðið ballerína þarf hún að vera grönn og þá er átröskunin skammt undan.

Það er alltaf dálítið tilgerðarlegt þegar bókmenntafræðingar byrja að tala um undirtóna og það að lesa milli línanna í bókum, en hér verður ekki hjá því komist, því þessi bók er þannig samansett að við eigum að lesa heilmikla undirtóna í þessari annars sakleysislegu og kómísku sögu. Reyndar er aðalundirtónninn beinlínis dreginn fram; ofurást móður sem reynir að upplifa brostna drauma í gegnum dótturina. Svo mitt í öllum ævintýrabjarmanum sem stafar af stúlkunni, dansmeyjunni, er þessi óhugnaður ástríðunnar, sem minnir jú óneitanlega á æsingslegan dauðdaga foreldranna. Þarna eru byggðir upp dálítið flottir kontrastar í lesturinn, sagan er öll í léttum tóni, dálítið ýkt einsog Undrunin, en samt stungin umvöndunum söguhöfundar. Þessi írónía vegur fimlega salt í gegnum alla söguna, ævintýrið um litlu dansmeyjuna með stóra nafnið og stóru draumana fær að halda sér, en samt vitum við að eitthvað er ekki einsog það á að vera. Að lokum ber þess að geta að sagan endar allundarlega, og ég get ekki fyrir mitt litla líf áttað mig á hvort þessi endir er rökrétt framhald af því sem á undan er farið, eða einskonar sprell höfundar. En hann var skondinn, endirinn, alveg eins og bókin sjálf.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004