Beint í efni

Níu nætur

Níu nætur
Höfundur
Bernardo Carvalho
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þegar ég spurði frænku mína, lestrarhestinn, hvað henni hefði fundist um nýjustu Neon-bókina fékk ég svarið: hún var dálítið furðuleg. Í auglýsingum frá Bjarti var bókinni líkt við aðra Neon-bók, Stríðsmenn Salamis, áhugaverða bók sem að mínu mati rann út í sandinn í síðasta hlutanum. Því nálgaðist ég Níu nætur með nokkurri varúð, en þó hughreyst eftir þessa athugasemd frænku: mér fannst að eitthvað sem jafnvíðlesinni manneskju og henni þætti furðulegt hlyti að vera áhugavert. Og það var það, bókin er vissulega nokkuð furðuleg, en á skemmtilegan og forvitnilegan hátt.

Í stuttu máli segir sagan frá leit brasilísks rithöfundar að sögunni bakvið sjálfsmorð bandarísks mannfræðings, en sá hafði fargað sér árið 1939. Leitin fer hinsvegar fram í okkar samtíma, eða í kringum síðustu aldamót. Ástæðan fyrir leitinni er sú að nafn mannfræðingsins Buell Quain, hringir óljósum bjöllum hjá rithöfundinum, en við fregnum ekki fyrr en undir lok bókarinnar hversvegna þessar óljósu bjöllur skipta hann svo miklu máli. Og þannig er bókin í raun öll, hún er svo þéttunnin og vinnur sig svo markvisst og smart að endinum að það er erfitt að fjalla eitthvað um efni hennar án þess að gefa of mikið upp - og það vil ég ekki gera, því ég vil ekki spilla ánægju þeirra sem eiga söguna ólesna.

Rithöfundurinn fer þá leið að feta í fótspor mannfræðingsins og heimsækir indíánaættbálkinn sem Quain var að rannsaka sína síðustu daga. Um leið sækir hann í gögn um þetta tímabil og þannig myndast heillandi flétta tveggja orðræðna frá tveimur tímum, annarsvegar frá fyrri hluta tuttugustu aldar, tíma þegar landkönnuðir ferðuðust um Suður-Ameríku og kynntust undrum hennar, og hinsvegar frá lokum aldarinnar, þegar rithöfundurinn reynir að takast á við breytta - en þó ekki svo breytta - tíma. Allt kallar þetta uppí hugann rit og ferðir og goðsagnir um hina fræknu landkönnuði, en bækur um slíka las ég linnulaust sem barn og drakk í mig ‘þekkingu’ um Suður- og Mið-Ameríku og Afríku (af einhverjum ástæðum var minna þýtt af bókum um Asíu). Carvalho vísar á nettan hátt til slíkra skrifa vestrænna karla um ‘furðuveraldir’ (ein bókin hét einmitt Í furðuveröld (1957) í íslenskri þýðingu, eftir P.H. Fawcett, og lýsir ferðum hans um frumskóga Brasilíu), og þannig speglast sá heimur í sögunni af leit hans.

Inn í þetta fléttast svo, eins og lenskan er í þessum sjálfsævisögulegu skáldsögum, eða skáldskaparlegu sjálfsævisögum (ekki svo að skilja að sjálfsævisögur séu nokkurn tíma nokkuð annað en skáldskapur, en þessi tegund bóka flíkar skáldskapnum meira ef svo má segja), endurminningar rithöfundarins sjálfs og þá sérstaklega sögur af föður hans sem var mikill ævintýramaður og dró börnin með sér í ýmis ævintýri. Þema komplexaðra samskipta feðra og sona er afar vandmeðfarið, einfaldlega af því það er orðið svo hrikalega þvælt, en hér birtist þetta í nýju og fersku ljósi þessarar undarlegu leitar. Þar hefur stíll bókarinnar einnig áhrif en á köflum, og þá sérstaklega í þessum endurminningaköflum, er hún hreinlega ‘illa’ skrifuð, það er að segja, skrifuð á einhvern undarlega klaufalegan hátt sem er einskonar millistig milli hugarflæði módernismans, þarsem flökt er frá einni hugmynd til annarar, og ómarkvissrar nemendaritgerðar. Hér á greinilega að kalla fram tilfinningu óljósra og óskipulagðra endurminninga og heppnast afskaplega vel.

Og allt er þetta einhvernveginn svo ánægjulega furðulegt.

Úlfhildur Dagsdóttir, mars 2006