Beint í efni

Nóvember 1976

Nóvember 1976
Höfundur
Haukur Ingvarsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Sjónvarpið myndar ramma utanum sögu Hauks Ingvarssonar, Nóvember 1976, en hún gerist einmitt í nóvember árið 1976. Þá er sjónvarpið orðið að nokkuð þekktri stærð í íslensku samfélagi, sjálfssagður hluti hins borgaralega lífs, þó enn sé nokkur titringur vegna kanasjónvarpsins auk þess sem nýungin litasjónvarp er að ryðja sér til rúms. Í upphafi hvers hluta birtist sjónvarpsdagskrá dagsins í ofurlítið rúnnuðum ramma, eins og til að minna á gömlu rúnnuðu skjáina.

Sjónvarpið er reyndar einnig fyrir miðju sögunnar, en hún hefst á því að sjónvarp heimilisins deyr þegar húsmóðirin kveikir á því eitt kvöldið. Eiginmaðurinn kennir henni um örlög tækisins: „Þú drapst sjónvarpið, kona, þannig er það nú bara. Það verður ekki horft á dagskrána í kvöld“ (10). Og með því hefst dálítið stofudrama um þessa fjölskyldu og nágranna hennar. Í ljós kemur að samskipti innan fjölskyldunnar eru erfið, eiginkonan er kúguð en þráir betra líf, eiginmaðurinn er frekja og ruddi og leggur hendur á konuna, sonurinn, sem er orðinn tvítugur, er óttaleg lydda, ofdekraður af móðurinni. Heimili nágrannanna tveggja geyma líka sín leyndarmál, nágrannakonan sem býr ofar í húsinu er fráskilin því hún getur ekki átt börn og á sér yngri elskhuga en virðist mögulega þrá hefðbundið borgarlegt líf og nágranninn sem býr neðar í húsinu stundar vafasöm viðskipti á vellinum en hefur það þó að aðalstarfi að þýða ástarsögur.

Í kjölfar dauða sjónvarpsins flýr konan á náðir nágrannakonunnar, meðan sonurinn hörfar fram á gang og verður þar vitni að starfssemi smyglarans. Þannig kemur sjónvarpið af stað atburðarás sem endar svo aftur með sjónvarpssenu.

Sonurinn kemst líklega næst því að vera aðalpersóna verksins, en síðasti hlutinn fjallar um smyglferð hans á völlinn með nágrannanum sem hefur dramatískar afleiðingar, auk þess að vera uppspretta nokkuð kostulegt misskilnings.

Höfundurinn, Haukur Ingvarsson er sjálfur þekktastur sem útvarpsmaður, þó reyndar hafi hann einnig sést í sjónvarpi. Nóvember 1976 er fyrsta skáldsaga hans, en áður hefur hann sent frá sér ljóðabók og bók um síðustu skáldsögur Halldór Laxness. Kannski eru það þessi tengsl við RÚV sem gera hann sérlega næman fyrir áhrifum fjölmiðla, en sjónvarpsramminn – og miðjan – er drifkraftur verksins það sem gerir lesturinn áhugaverðan og skemmtilegan. Persónurnar fannst mér hinsvegar óþarflega lausar við lit og nokkuð staðlaðar – en kannski er það rökréttur hluti af þeirri stemningu stofudramans sem sviðsett er á síðum bókarinnar.

Nóvember 1976 er því ekki beint mikið átakarit, þó vissulega geymi hún heilmikla átakasögu, bæði hvað varðar fjölskyldudramað og svo átökin um sjónvarpið, innan heimilisins og almennt séð í samfélaginu á þessum tíma. Sagan er vel skrifuð, en á stundum skapar hinn fumlausi stíll verkinu of pena umgjörð og dregur úr krafti þess. Inni á milli eru svo verulega athyglisverðar senur, bæði þær sem virðast kyrrlátar eins og umfjöllunin um ástarsöguþýðingar nágrannans og þær sem búa yfir myrkri eins og senan snemma í bókinni með föstu bílana í snjónum.

Sjónvarpið er hiklaust það sem gerir söguna, en aðkoma þess er á allan hátt áhugavekjandi  og skapar eftirminnilegt andrúmsloft auk þess að gefa verkinu hæfilega framandlegan blæ mitt í öllum kunnugleikanum. Nóvember 1976 er því gott dæmi um hvernig skáldverk getur, alveg eins og sjónvarp, opnað glugga inn í heilan hugmyndaheim, sögu og menningarsögu.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2011