Beint í efni

Ný meðgönguljóð

Ný meðgönguljóð
Höfundur
Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir
Útgefandi
Partus
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ljóð
Ný meðgönguljóð
Höfundur
Bergur Ebbi
Útgefandi
Partus
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ljóð
Ný meðgönguljóð
Höfundur
Elín Edda
Útgefandi
Partus
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

„eftir örskamma stund / boða ljóðin brottför / upp til skýjanna“ segir í ljóðinu „För“ eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur. Bók hennar Skýjafar er sú sautjánda í seríu Meðgönguljóða, sem sérhæfir sig í að gefa út ljóðabækur ungra skálda, sum hverra eru að gefa út í fyrsta sinn. Skýjafar er fyrsta bók Jónu Kristjönu sem er nemandi í ritlist við Háskóla Íslands og eins og aðrar Meðgönguljóðabækur er hún stutt, inniheldur alls 13 ljóð. Þau eru ótitluð á síðum bókarinnar, en titlarnir birtast með blaðsíðutölum á innanábroti kversins. 

 

„För“ er vetrarljóð og hefst á því að „veröldin hverfur / bakvið snjóþekju / á gluggum“. Blýantar dansa „á hvítum pappír“, „í takt við vindinn“ og loks hefst himnaferð ljóðanna. Myndin er einföld og skýr, hvítur snjórinn og hvítur pappírinn falla saman og mynda ljóð sem svífa um í loftinu. Samskonar tilfinning fyrir náttúruöflum birtist í „Hlutskipti trjánna“ en þar er lýst samskiptum himins, sjós og lands. „sjórinn getur gert það sem hann vill“ og býður ljóðmælanda góðan dag þar sem hún stendur úti á svölum og veltir fyrir sér „hlutskipti trjánna sem mæna til himins / eins og rótum þeirra hafi skotið niður á röngum stað“. Og þau þrá að aldan komi „æðandi og hrífi þau burt með sér“. Trén teygja sig upp til himins og himinn og haf renna í eitt í öldum hafsins sem æða upp á land.

Í „Safnaranum“ er fjallað um ólíka daga. Sumir eru „tunglhvítar perlur“ og þá geymir ljóðmælandi í lófa sér og „óttast að glata þeim“. Aðrir dagar eru „sundurtætt hræ“ sem liggja „á öskuhaugunum“. Og þeir ásækja ljóðmælanda, sem hefur sætt sig við „að komast ekki undan / kveinstöfum þeirra / á nóttunni“. Aftur birtist hér athyglisverð tilfinning fyrir samfellu hins stóra og hins smáa, auk þess sem hið óhlutbundna er gert áþreifanlegt eða efnislegt. Þegar á heildina er litið eru ljóðin í Skýjafari missterk og á stundum óþarflega ‚hefðbundin‘, en þó mótar fyrir ýmsu skemmtilegu.

 

Vertu heima á þriðjudag er önnur ljóðabók Bergs Ebba sem hefur að auki skrifað leikrit og er einnig þekktur fyrir uppistand og tónlist. Ljóðin í þessu kveri eru alldramatísk, en bókin byrjar á „Lakeview“ þar sem par hittist um miðja nótt og hverfur ofan í vatnið, „dökkt vatnið sem lokaðist yfir þeim eins og filma“. Við vatnið er matstofa og þar er alltaf opið, „Á nóttunni sitja þar menn í þungum jökkum / og fíngerðar stúlkur með klístrug augu og / fyrir utan er vatnið, ískalt og gljáandi svart eins og olía“. Stemningin er draumkennd enda vatnið klassísk táknmynd fyrir undirvitundina. En svart vatnið er líka einskonar annarsheims veruleiki, til dæmis kvikmyndarinnar.

Í ljóðinu „Við sundlaugina“ er líka teiknaður upp heill veruleiki eða veröld í skynjun fjórtán ára stráks, sem er „alger lúði / – til að hafa það á hreinu – “. Einn vordag fær hann einskonar uppljómun, „bragð af himninum“, lykt af fuglum og óm „í steinsteyptum veggjum.“ Hann heyrir ekki hvað þeir segja, þó þeir vilji „ólmir greina frá / öllu sem þeir höfðu séð“, en ákafinn er svo mikill að hann greinir ekki orðin. Þegar drengurinn lítur á úrið sitt hefur það „breyst í vökva / sem draup niður handarbakið“ og þannig er okkur skellt inn í þekkt súrrealískt málverk Salvardors Dalí. Skynunin heldur áfram að fossa yfir drenginn og verður að „blóðríkum köggli“ í brjósti hans. Köggulinn á hann enn og nærir reglulega með tárum. „Að lokum: alltaf þegar ég sé fjórtán ára stráka“, eina á ferð og óörugga, „þá sé ég heila veröld ganga framhjá mér“. Ljóðið er einskonar óður til unglingsáranna með öllum sínum komplexum og uppgötvunum. Það er ýmislegt forvitnilegt í bók Bergs Ebba en ljóðin hefðu mátt við meiri yfirlegu, á stundum eru þau næstum klaufalega orðuð og vantar slagkraft.

 

Elín Edda er höfundur myndasögunnar Gombra (2016) og meðhöfundur Plöntunnar á ganginum (2014) sem hún samdi og teiknaði í samvinnu við systur sína Elísabetu Rún Þorsteinsdóttur. Hamingjan leit við og beit mig er fyrsta ljóðabók hennar og þar skiptast á ljós og myrkur. Það er vindurinn sem kemur með myrkrið í ljóðinu „Vindur“, en þar kemur hann „inn um / gluggann / og finnur mig.“ Vindurinn vill að ljóðmælandi komi út og sjái myrkrið sem hann „berst við á hverri nóttu / á hverjum degi.“ Í næsta ljóði, „Tilbúið myrkur“, hefur einhver búið til myrkur og lagt við hlið ljóðmælanda og sagt tilheyra henni. Myrkrið skreið „í fang mitt og varð að mér“ og hugur hennar verður myrkur. En í myrkrinu getur líka búið hlýja eins og kemur fram í síðasta erindinu: „Einhver hefur búið til / þetta myrkur / og breitt það yfir mig / eins og sæng.“ Myndin er þó tvíræð, líkt og í fyrra ljóðinu; myrkrið er viðfangsefni sem þarf að takast á við. Í myrkrinu búa líka draumar sem sólin drepur í „Morði“. Ljóðmælandi er ekki sátt við þetta og ætlar að læsa draumana inni, því „garðurinn minnir nú þegar / á fjöldagröf.“

Myrkrið getur búið yfir bæði birtu og fegurð eins og kemur fram í „Sólmyrkva“, en ljóðmælanda er sagt að hann líti út „eins og samþjöppuð hamingja.“ En það er varasamt fyrir óvana að líta í þessa miklu birtu hamingjunnar og því dregur ljóðmælandi fyrir „en hamingjan náði að narta í augnbotninn / gegnum rifuna á gluggatjöldunum.“ Og þannig vill það til að „Hamingjan leit við / og beit mig / í dag.“

Vindurinn kemur aftur við sögu í „Heild“, en þar tala vindarnir blíðlega við ljóðmælanda og þótt hún þekki ekki tungumálið þá skilur hún þá „því tal þeirra var svo hversdagslegt.“ Þetta verður til þess að hún sér „mörk veraldarinnar hverfa / og hversdagsleikinn batt okkur saman / í eina heild.“ Hér er gefið til kynna að ljóðmælandi hafi náð að rjúfa sig úr faðmi myrkursins og náð að tengjast deginum og í síðasta ljóðinu, „Heiðríkja“, er heiðskírt í huga hennar og á himni. Hún sér enga skugga „og fjöllin / eru þúfur / sem ég stíg upp á / í einu skrefi.“

Bókin lýsir því átökum myrkurs og ljóss og upplifun innilokunar og víðáttu. Myndmálið skapar áhrifamikinn heim tilfinninga sem færðar eru í form náttúruafla að hætti rómantíkeranna, en án upphafinnar dramatíkur. Í heildina hvílir mikil kyrrð yfir ljóðunum, þau einkennast af íhygli og lúmskur húmor gerir einnig vart við sig.

Skýjafar, Vertu heima á þriðjudag og Hamingjan leit við og beit mig eru ánægjuleg viðbót við ljóðaflóruna. Engin þeirra er gallalaus en bók Elínar Eddu hefur sterkustu heildarmyndina og undirliggjandi ólga skapar þéttleika og spennu í annars kyrrlátum ljóðum.

Sem fyrr er umbrot Meðgönguljóðabókanna við hæfi, en myndir á kápu gerir Hannah Bagshaw. Hún notar einföld form og dempaða liti sem skapa ljóðunum fallega umgjörð.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2016