Beint í efni

Öðruvísi fjölskylda

Öðruvísi fjölskylda
Höfundur
Guðrún Helgadóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Árið 2002 sendi Guðrún frá sér söguna Öðruvísi dagar, sem er saga um hina níu ára Karen Karlottu og fjölskyldu hennar og nú er komið sjálfstætt framhald um þessa sjálfstæðu og íhugulu stelpu. Hún er bara örlítið eldri í nýju bókinni en finnst hún hafa þroskast og breyst töluvert, enda mátti hún reyna ýmislegt í fyrri sögunni og kynntist hlutum sem flest níu ára börn lesa bara um í bókum eða sjá í sjónvarpi. Þar var það dularfulla gamla konan í húsinu við sjóinn, Elísabet, sem lék aðalhlutverkið í lífi Kæju, en hún reynist vera gyðingur sem misst hefur fjölskyldu sína og ástvini í helförinni í Þýskalandi, en sjálf lifað af ásamt móður sinni og sest að á Íslandi. Þessi gamla kona, sem verður vinkona Karenar Karlottu, breytir lífssýn hennar og viðhorfum til eigin fjölskyldu, og saman takast þær líka á við hræðilegt mál þegar Kæja finnur lítið barn sem borið hefur verið út.

Það ætti að vera nokkuð ljóst af þessu að Guðrún ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, í báðum bókunum eru stór mál til umfjöllunar; stríð, ofsóknir gegn gyðingum og öðrum hópum, t.d. ber ástandið í Palestínu víða á góma í báðum bókunum, börn sem ekki eru velkomin í heiminn og brostnar fjölskyldur. Í seinni bókinni er haldið áfram með sömu umfjöllunarefni, en nú er fjölskylda Kæju sjálfrar í brennidepli. Pabbi hennar er „ástandsbarn“, faðirinn er breskur hermaður sem hvarf áður en pabbi Kæju fæddist og Karlotta amma hennar elur soninn upp ein af miklum dugnaði. En öllum þessum árum síðar, þegar pabbi Kæju er hátt á sextugsaldri, birtist afinn upp úr þurru og eins og nærri má geta verður mikið uppistand í fjölskyldunni. Auk þessa tekur svo Karlotta amma ungan mann upp á sína arma sem hefur lent utanvega í tilverunni, svo það er af nægum vandamálum að taka. En þrátt fyrir öll þessi stóru og alvarlegu umfjöllunarefni, og að þessi upptalning sé farin að hljóma eins og búið sé að hrúga saman ótal vandamálum, eru þetta á engan hátt „vandamálabækur“, Guðrún tekur á efninu af þeirri kímni og hlýju sem alltaf hefur einkennt skrif hennar og frásögnin er bæði þétt og lifandi og skemmtileg.

Karen Karlotta er sögumaður, hún segir sjálf sögu sína í fyrstu persónu og það eru vangaveltur hennar og upplifun hennar á atburðunum sem halda frásögninni saman. Aðrar raddir komast einnig að í gegnum systkini hennar, foreldra, vinkonuna Baddí, Elísabetu gömlu og aðrar persónur og þannig komast mismunandi sjónarhorn að í textanum. Eins og ég nefndi í upphafi hefur Kæja þroskast nokkuð frá fyrri bókinni, hún er jákvæðari og umburðarlyndari gagnvart þeim sem eru öðruvísi, ekki síst sinni eigin fjölskyldu. Það er ekki síst þetta umburðarlyndi og margbreytileiki lífsins sem eru til umfjöllunar í seinni bókinni, mismunandi aðstæður fólks, persónuleikar og hvernig fólk bregst við erfiðum aðstæðum og vinnur úr lífi sínu. Spurningar eins og hvort hægt sé að fyrirgefa allt eru áberandi, enda stofna þær vinkonurnar Kæja og Baddí fyrirgefningarfélagið. Guðrún predikar ekki yfir lesandanum, hún lætur spurningar og íhuganir Kæju ráða ferðinni og það er síðan lesandans að íhuga hugsanleg svör með henni og áfram á eigin spítur að lestrinum loknum. Endirinn er opinn og gefur fyrirheit um framhald, og mann langar að fá að vita hvernig mál þróast hjá Kæju og fjölskyldu hennar. Mættum við fá meira að heyra.

Kristín Viðarsdóttir, nóvember 2004