Beint í efni

Óður til tunglsins og tregans

Óður til tunglsins og tregans
Höfundur
Karl Ólafur Hallbjörnsson
Útgefandi
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Tunglóður er fyrsta ljóðabók Karls Ólafs Hallbjörnssonar en í kynningartexta er verkið sagt vera „óðs manns óður – óður til tunglsins, óður til hverfulla tunglhvarfa tilfinninganna og óður til hversdagslegu fegurðarinnar sem dvelur í náttúrunni og tungumálinu.“ Karl Ólafur er heimspekimenntaður en undirritaður þekkti þó aðallega til Karls af gáskafullum skrifum hans á Twitter. Tunglóður er þó alls engin Twitterbók heldur er um að ræða einkar yfirvegað og lágstemmt verk sem ferðast víða í skírskotunum sínum.

Kjarnyrt og fáguð ljóð

Tvíræðni verksins birtist strax í titli þess, Tunglóður, sem lesa má bæði sem nafnorð og lýsingarorð; annars vegar óður til tunglsins og hins vegar það að vera tungl-óður, „óðs manns óður“ eins og höfundur lýsir því.

Ljóð Karl Ólafs eru kjarnyrt og fáguð og mikið er um náttúrumyndir í bókinni sem notaðar eru sem tákngerving fyrir tilfinningalíf ljóðmælanda. Þetta er auðvitað vel þekkt aðferð í skáldskap allt frá fornöld en Karl Ólafur gerir þetta mjög smekklega eins og til dæmis í ljóðinu „Drangajökull“ þar sem fasaskipti jökulsins verður táknmynd fyrir staðnaða ást:

hún grípur jökulinn
eins og ekkert sé

hann bráðnar
drýpur milli fingranna

djúpt lón
myndast

milli okkar

Tunglóður skiptist í þrjá hluta sem hver um sig vísa í ólík kvartilaskipti tunglsins; „Nýtt tungl“, „Mánasigð“ og „Fullt tungl“. Tunglið hefur auðvitað verið klassískt yrkisefni skálda allt frá tímum Saffóar og það er ekki laust við að maður finni anda þeirrar goðsagnakenndu lesbísku skáldkonu svífa yfir vötnum bókarinnar. Má þar helst nefna ljóðið „Endymion í Vattardal“ sem skrifað er út frá sjónarhorni mannsins Endymions sem í grískri goðafræði var elskhugi mánagyðjunnar Selenu: „lofðu mér draum / um einmana nótt / umvafinn stjörnum / strjáðri himnasæng“. Umrætt ljóð er einnig skemmtilega uppsett eins og mánasigð á minnkandi tungli svo jafnvel mætti kalla það konkret-ljóð, en kaflinn sem ljóðið tilheyrir heitir einmitt „Mánasigð“. Í huga undirritaðs skapaði þetta ljóð hugrenningatengsl við þekkt ljóðbrot Saffóar, hið svokallaða „Miðnæturljóð“, sem Helgi Hálfdánarson þýddi svo:

Sjöstjarnan horfin, og hniginn
er máninn í miðnætur-húmið;
langþráða stundin er löngu
liðin, – ég vaki þó ein.


Klassískur en nútímalegur kveðskapur

Það er greinilegt að Karl Ólafur er með hugann við fornöldina en í bókinni má finna vísanir bæði í gríska og Norræna goðafræði eins og sjá má í fyrrnefndu ljóði og einnig í ljóðinu „Jörmungandreið“. Þar skeytir höfundur saman tveimur fornum hugtökum til að mynda titilinn, annars vegar nafni Miðgarðsormsins Jörmungands, og hins vegar nafnorðinu gandreið, sem merkir reið á fararskjóta sem magnaður er göldrum: „ormur gleypir eigin hala / hlykkir höfðinu aftur / sporðrennir sjálfum sér“. Það er einhver klassískur blær í kveðskap Karls Ólafs en það er þó ekki þar með sagt að ljóð hans séu gamaldags, því Karli tekst einnig að vera nútímalegur og persónulegur. Að því leyti minna sum ljóðin á Snorra Hjartarson sem hafði það einstaka lag að yrkja nútímakveðskap í hrynjandi sem minnti á háttbundinn kveðskap. Sem dæmi um þetta hjá Karli Ólafi má nefna ljóðið „Þögn í öskju“ sem hefst svo:

aðeins sá sem einskis leitar
finnur heimsins hjartaslátt

þegjandin yrkir orðalaus
á týndri babels tungu

sussubí og korriró

Hrynjandin í fyrstu tveimur ljóðlínunum bendir til þess að hér eigi að koma endarím en þriðja og fjórða ljóðlínan brjóta upp þær væntingar og staðsetja ljóðið kyrfilega í nútímanum.

Klassísk ljóðsaga um ástarsorg

En þótt ljóð Karls Ólafs séu á köflum dýrt kveðin og með fjölmörgum lærðum tilvísunum, þá hristir hann einnig skemmtilega upp í stemningunni og gerist á köflum hálfmelódramatískur, enda er bókin á annan bóginn óður til tunglsins og á hinn bóginn klassísk ljóðsaga um ástarsorg. Þetta sést til að mynda í ljóðinu „Ást er…“ sem er tileinkað Kim Casali, höfundar hinna þekktu teiknimyndasagna Love is… sem birtust í dagblöðum víða um veröld frá með og áttunda áratugi síðustu aldar. Ljóðið er eins konar upptalningaljóð sem hefst á álíka krúttlegan hátt og myndasögur Kim Casali:

að hella sjóðandi heitu kaffi í fallegan múmínbolla
þótt þér líki ekki einu sinni við kaffi

En eins og gerist gjarnan í tilhugalífinu þá súrnar gamanið brátt og ástin breytist í örvæntingu:

þótt það brenni þig á fingrunum og handarbakinu
þótt bollinn sé í maski á skítugum línóleumdúknum

Hinn harmi slegni ljóðmælandi kryfur sig til mergjar og sviðsetur sína eigin ástarsorg með því að líkja þjáningu sinni við þjáningu Krists á krossinum:

þótt blæði strítt úr djúpu síðusárinu
þótt hann hafi yfirgefið þig
þótt þú þurfir að deyja á þessari hæð
 

Það sem hefði getað orðið

Tunglóður er hjartnæm bók um þá sammannlegu tilfinningu sem fylgir því að syrgja það þegar ástin fer ekki eins og maður vonaðist til. Bókin er því ekki aðeins óður til tunglsins, heldur einnig til tregans og sorgarinnar. Ljóðskáld eru að vanda mispersónuleg í skrifum sínum og ganga mis nærri sjálfum sér, það getur því reynst vandasamt að lesa ljóðabækur sem sjálfsævisögulegar nema fyrir því liggi sterkur grunur. Ég ætla ekki að dæma um það hversu persónuleg bók Tunglóður er, til þess þekki ég skáldið ekki nógu vel, en þó verður að segjast að Karli Ólafi tekst vel til að yrkja um ástarsorg á hátt sem er í senn sammannlegur en þó sértækur. Við nánari lestur myndast þræðir á milli ljóða sem gefa til kynna einhvers konar baksögu. Í ljóðinu „Draumstol“ hrekkur ljóðmælandi upp „með andfælum og tárvota vanga“ af ljúfsárum draumi um það sem hefði getað orðið:

bara við þrjú í vestfirska logninu
blá um munninn með tínur í berjamó

syngjandi um köngulær og brunnklukkur
í leit að ævintýralegum fjársjóði

taubleyjur og pínulitlar afmælisveislur
agnarsmáir fingur krepptir um súkkulaðiköku

Í öðru ljóði síðar í bókinni reynir ljóðmælandi að kveðja söknuðinn og sorgina en áttar sig á því að hann getur ekki kvatt það sem hann fékk aldrei að upplifa:

hvernig get ég kvatt
þegar ég fékk aldrei
að heilsa

þér sem varst aldrei
þér sem varðst aldrei

Í síðasta ljóði annars hluta Tunglóðar, „Jarðvist“, örlar þó á einhvers konar sáttum hjá ljóðmælanda er hann lofar því að hann og manneskjan sem hann syrgir, hugsanlega manneskjan sem fékk aldrei að verða, muni hittast aftur „í blíðu faðmlagi / jarðarinnar“. Þriðji og síðasti hluti bókarinnar, „Fullt tungl“, er öllu óræðari og mætti túlka hann sem eins konar lofsöng til tunglsins og tilverunnar. Ég verð að viðurkenna að ég tengdi minnst við þann hluta þótt finna megi þar fallegar og sterkar myndir:

jarðneskjan tekur undir
kyrjar öll í lífsins ómakór
lómar hlæja fullir launungar
grá þokuslæða kyssir silfraðan mosa
 

Vönduð og falleg bók

Tunglóður er vönduð og falleg ljóðabók og sterk frumraun. Karl Ólafur hefur næmt auga fyrir smáatriðum og nær að koma skáldskapi sínum til skila í kjarnyrtu myndmáli. Auk þess er hann greinilega víðlesinn í bókmenntasögunni, ef miða má við fjölmargar tilvísanir hans. Undirritaður saknaði þess þó að sjá „persónulegu“ hlið ljóðmælandans brjótast fram í síðasta hluta bókarinnar og þótti hann ekki jafn grípandi og fyrri tveir hlutarnir. Þá verður að fara nokkrum orðum um bókakápu og hönnun Tunglóðar sem er gerð af Önnu Pálínu Baldursdóttur og er einstaklega vönduð í alla staði. Bókin er bundin inn í dimmblátt léréft, tölusett og árituð, með gylltri káputeikningu og káputexta svo um er að ræða einkar eigulegan grip.
 

Þorvaldur S. Helgason, júní 2023


Heimild :

Saffó, „Einmana“, Helgi Hálfdanarson þýddi, úr Erlend ljóð frá liðnum tímum, Mál og menning, Reykjavík, 1982, bls. 265. Sjá Bragi, óðfræðivefur, sótt 23.5.2023: https://bragi.arnastofnun.is/visur.php?VID=24538