Beint í efni

Ófriður

Ófriður
Höfundar
Marta Hlín Magnadóttir,
 Birgitta Elín Hassell
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fátt er hollara hrelldri sál en dálítill hryllingur. Fyrir utan hvað hrollvekjan er skemmtilegt fyrirbæri þá er hún fullkomin leið til að fá að upplifa allskonar ýktar tilfinningar og átök – úr hæfilegri fjarlægð. Undanfarið hafa hrollvekjur verið í uppsveiflu á ný, sem birtist meðal annars í endurnýjuðum áhuga á zombíum og vampýrum.

Í fyrra hóf göngu sína athyglisverður íslenskur bókaflokkur sem ber nafnið Rökkurhæðir. Höfundar eru tveir, Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir og bækurnar eru orðnar fjórar. Ófriður er sú nýjasta, en fyrstu bækurnar tvær voru Rústirnar og Óttulundur. Föstudaginn 13. apríl á þessu ári var þriðja bókin gefin út, Kristófer. Titlarnir og útgáfudagsetningin ættu að gefa góðar vísbendingar um hvers eðlis verkin eru, en þetta eru hrollvekjur, ætlaðar unglingum (ca. 11-15). Hryllingurinn er hæfilega blandaður fantasíu, en höfundarnir hafa búið til heilan heim, sem þó er ekki hreinræktaður ævintýraheimur, heldur frekar einskonar hliðarveruleiki, skyldur hinum íslenska.

Bókaflokkurinn er nefndur eftir hverfinu Rökkurhæðir, sem var einu sinni þorp en er nú úthverfi í borginni Sunnuvík. Í hverfinu er dálítið undarleg stemning, því á hæðum yfir því eru rústir háhýsa sem eiga sér einhverja dularfulla sögu. Krakkarnir í hverfinu vita lítið um þá sögu því þeir fullorðnu vilja sem minnst um þetta tala, og banna krökkunum að auki að vera þar. Þrátt fyrir að vera úthverfi borgar, virðast Rökkurhæðir vera nokkuð einangraður staður með sína sérstöku siði og menningu, sem meðal annars felst í frekar myrkum staðarnöfnum: Óttulundur er til dæmis götunafn.

Heimasköpun af þessu tagi er þekkt innan hrollvekjunnar þar sem höfundar skapa ógnvænlegum atburðum sínum viðeigandi umgjörð. Þekktasta dæmið er líklega Arkham-borg sem bandaríski höfundurinn H. P. Lovecraft skrifaði um á sínum tíma (fyrri hluta tuttugustu aldar), en þar er margt óhreint á kreiki.

Í bókunum kynnumst við þessu hverfi betur og betur og áttum okkur á umfangi þess, en þrátt fyrir að bækurnar geti allar staðið óstuddar, þá liggur þráður í gegnum þær sem snýr að hinum dularfullu rústum á hæðinni.  Sögupersónurnar tengjast líka innbyrðis, enda eru þær allar í sama skóla, til dæmis hittum við hér Vigdísi sem var aðalsöguhetjan í Óttulundi.

Sagan hefst á því að Matthías (sem er goth gaur) er nýfluttur til Rökkurhæða og byrjaður í tíunda bekk. Hann er ekki sérlega félagslyndur og finnst vinalegar viðtökur nýju samnemenda sinna ekkert sniðugar. Þó er hann neyddur til að taka þátt í hópverkefni sem hann finnur sig í, þvert ofan í væntingar. Fyrir tilviljun bjargar hann lítilli stúlku sem er hálfgrafin í snjó og kynnist svo systur hennar, Ingibjörgu, sem er önnur aðalsöguhetja bókarinnar. Hún er líka að vinna að þessu hópverkefni, sem er sameiginlegt níunda og tíunda bekk skólans. Þau tvö uppgötva svo að eitthvað einkennilegt er að gerast í hverfinu, en svo virðist sem einhverskonar ófriður hafi heltekið börn og unglinga. Þetta brýst út í stöðugum áflogum en hefur einnig haft verri afleiðingar.

Sögurnar eru greinilega sprottnar upp úr íslenskum veruleika og að auki vísa höfundarnir á ýmsan hátt til unglingamenningar og áhugamála unglinga, málið er hæfilega skotið slettum en aldrei tilgerðarlegt eða þvingað. Stíllinn er liðugur og sögurnar vel upp byggðar, og eins og áður segir, nokkuð grimmar – hér er ekki verið að vatna hryllinginn út. Þó er líka nóg af húmor í bland við óhugnaðinn sem er sérlega vel gerður, alveg mátuleg blanda af undirtónum og beinum lýsingum. Það er freistandi að taka dæmi en ég er hrædd um að það myndi skemma of mikið!

Bækurnar eru allar stuttar og settar upp á aðgengilegan hátt sem gera þær hentugar jafnt lestrarhestum sem þeim sem ekki eru eins vanir og í heildina séð er frágangur, útlit og umgjörð öll til fyrirmyndar.

Íslenskar hrollvekjur hafa ekki verið fyrirferðarmiklar í íslenskum bókmenntum, utan auðvitað þjóðsögurnar, en eitthvað virðist þó vera að glæðast í þeim efnum. Í fyrra kom út Hálendið eftir Steinar Braga og smásögur eftir Þorstein Mar, en hann sendi frá sér skáldsögu fyrr á þessu ári. Yrsa Sigurðardóttir hefur verið að færa sig nær hrollvekjunni í glæpasögum sínum og margar bækur Stefáns Mána eru sömuleiðis á mörkum spennusögu og hrollvekju. Ekki má heldur gleyma Börnunum í Húmdölum eftir Jökul Valsson, sem kom út árið 2004. Þó að sú bók hafi verið ætluð eldri lesendum þá er margt sem minnir skemmtilega á Rökkurhæðir; Húmdalir Jökuls eru sömuleiðis einskonar sérheimur, uppspunninn, en samt skyldur okkar veruleika, og börn eru einnig í aðalhlutverkum. Á undanförnum árum hafa þýddar fantasíur, sumar með hrollvekjandi ívafi, notið nokkurra vinsælda hjá yngri lesendum (og reyndar eldri líka!). Það er auðvitað hið besta mál, en jafnframt er mikilvægt að fram komi verk sem gerast í umhverfi sem er kunnuglegt fyrir lesendur.  Það er því virkilega ánægjulegt að fá í hendurnar vel skrifaðar og hæfilega myrkar íslenskar hrollvekjur fyrir þennan aldurshóp.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2012