Beint í efni

Ógn úr öðrum heimi

Ógn úr öðrum heimi
Höfundur
Kristín Björg Sigurvinsdóttir
Útgefandi
Björt
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Fimm ungmenni með óvenjulega krafta takast á við ill öfl í lokakaflanum í Dulstafa-þríleik Kristínar Bjargar Sigurvinsdóttur. Heimurinn allur er í hættu og ungmennanna bíður verkefni sem virðist óyfirstíganlegt. Orrustan um Renóru er beint framhald af Bronshörpunni sem kom út í fyrra en fyrsta bókin í seríunni, Dóttir hafsins, er einskonar forspil að seinni bókunum tveimur.

Í Dóttur hafsins kynntumst við Elísu, nokkuð venjulegri unglingsstelpu sem býr í litlu þorpi á Vestfjörðum. Elísa er frekar óörugg með sig, hún hefur gengið í gegnum sáran missi, er mjög kvíðin og hefur litla trú á sjálfri sér. Á leið hennar heim úr skólanum einn daginn verða undarlegir atburðir til þess að hún er stödd á bryggjunni í þorpinu sínu þegar risastór alda grípur hana og skolar henni á haf út. Ungur marmaður finnur hana og umbreytir henni í markonu, en þegar hún rankar við sér í hafinu er hún hreistruð og með sundfit. Marmaðurinn leiðir hana til neðansjávarborgar marþjóðarinnar, þar sem kemur í ljós að Elísa er langt frá því að vera einhver venjuleg stelpa. Hún getur allt í einu ráðið yfir vatni og stjórnað því með hugarorku. Marfólkið telur að hún hafi verið kölluð í hafið til að uppfylla spádóm um dóttur hafsins sem muni koma til að vernda þjóðina gegn óvinum hennar. Þegar marfólkið hefur fullvissað sig um að Elísa sé í raun sú sem spádómurinn segir fyrir um er hún sett í stífa þjálfun til að læra að beisla þennan nýfundna kraft. Eftir að hafa hjálpað marþjóðinni í átökum við þeirra helstu óvini í hafinu og sýnt ótrúlegan styrk snýr hún aftur heim til sín, en hún hefur sannað ekki aðeins fyrir marþjóðinni heldur einnig fyrir sjálfri sér að hún getur miklu meira en hún heldur.

Í Bronshörpunni, sem gerist rúmu ári seinna, kemur raunverulegt hlutverk dóttur hafsins í ljós. Elísa er stödd heima í þorpinu sínu þegar hún fær dularfulla hjálparbeiðni og kemst að því að kallið kemur úr öðrum heimi. Hún finnur hlið sem leiðir hana yfir í þennan óþekkta heim og til landsins Renóru, sem er gjörólíkt því sem Elísa á að venjast. Í Renóru bíða hennar fjögur önnur ungmenni sem eru þangað komin af sömu ástæðu og hún, öll hafa þau fengið óljóst ákall um hjálp. Elísa áttar sig fljótt á því að hún á ýmislegt sameiginlegt með hinum í hópnum. Þrjú þeirra geta á svipaðan hátt og Elísa stjórnað náttúruafli, þau eru Dimik, sonur jarðar, Óría dóttir lofts og Aren sonur elds, en sá fjórði, Atóm, getur beislað rafmagn. Þau hafa líka öll gengið í gegnum miklar og erfiðar raunir til að fá kraftinn yfir náttúruöflunum og læra að nota hann, líkt og Elísa gerði í Dóttur hafsins.

Ungmennin fimm hafa verið kölluð til Renóru til að takast á við hættu sem steðjar að landinu. Gyðjan Draxana telur systkini sín, tvær gyðjur og einn guð, hafa svikið sig og leitar nú hefnda. Hún ætlar að leggja undir sig allt landið og íbúa þess, hvað sem það kostar. Elísa og félagar hennar þurfa bæði að ná fullkomnum tökum á kröftunum sínum og læra ýmsa bardagatækni til að eiga einhvern möguleika á að sigrast á gyðjunni. Á meðan á þjálfun þeirra stendur myndast sterk bönd milli þeirra, bæði vinátta og samhugur en á milli Elísu og eins af strákunum, Arens, vakna tilfinningar sem ná út fyrir vináttu. Þau eru bæði feimin og hikandi, en samband þeirra þróast samhliða æfingunum. Þjálfun fimmenninganna er komin ágætlega á veg þegar Draxönu tekst að lokka þau í gildru og fá þau til að reyna að ráðast gegn sér óundirbúin. Þau sleppa með skrekkinn en átta sig á því að verkefnið sem bíður þeirra er mun stærra en þau gerðu sér grein fyrir.

Í Orrustunni um Renóru stendur hópurinn frammi fyrir lokauppgjörinu, stríði við Draxönu og her hennar. Til þess að eiga einhverja möguleika þurfa þau að safna saman þremur verndargripum sem urðu til þegar Draxana réðist gegn systkinum sínum fyrir margt löngu og dró allan mátt úr þeim. Eitthvað af guðlegum kröftum þeirra fluttust þá yfir í gripina, sem eru taldir geta skipt sköpum í baráttunni. Gripina þarf svo að fara með langt í norður, í helli þar sem er talið að andar systkinanna haldi til, og vonast til að fá leiðbeiningar um það hvernig er hægt að ráða niðurlögum Draxönu. Ungmennin fimm leggja upp í ferðalag um landið þvert og endilangt til að finna gripina, sem eru dreifðir á þrjár borgir landsins. Ekki er hlaupið að því að nálgast þá þar sem þeir eru vel varðir af íbúum borganna, en með samvinnu og útsjónarsemi tekst það á endanum. Þegar fimmenningarnir halda svo norður er tíminn orðinn naumur, Draxana hefur safnað saman illum her sem nálgast óðfluga byggð. Hellirinn sem þau þurfa að finna er á norðurhjara veraldarinnar í þessum hliðarheimi en þrátt fyrir ýmsar hindranir á veginum tekst þeim að finna hann. Þau ná sambandi við guðina en ráðin sem þau fá eru bæði óljós og ógnvekjandi. Framundan er styrjöld í Renóru og allt veltur á því að Elísa og vinir hennar nái ekki aðeins að sameina sundraða íbúa landsins, heldur einnig að finna einhverja leið til að stilla saman krafta sína í eitt skipti fyrir öll.

Sagan er marglaga og er annars vegar frásögn af landinu Renóru, sögu þess og menningu, guðunum fjórum og átökunum milli þeirra, og hins vegar sagan af Elísu og félögum hennar sem öll læra að horfast í augu við sjálf sig og yfirvinna ótta og sjálfsefa. Heimur Renóru er sem fyrr segir hliðarheimur við okkar heim og frábrugðin honum að flestu leyti. Tækni er frekar takmörkuð og óhefðbundin og umhverfið um margt ólíkt því sem við þekkjum, með frumskógum og fjallgörðum fullum af skrímslum, furðuverum og undarlegum gróðri. Aðeins útvaldir geta opnað hlið milli heimanna en hver sem er getur komist á milli ef hlið er opið. Baráttan við Draxönu verður því enn mikilvægari í huga Elísu þegar hún áttar sig á því að ef þeim mistekst gæti Draxana þess vegna komist með herdeildir sínar yfir í heim Elísu og reynt að leggja hann undir sig líka. Í Renóru ríkir mikil sundrung, þar sem borgirnar þrjár aðhyllast hver sinn guðdóminn og einangra sig algerlega frá hinum. Fordómar og tortryggni einkenna umræðuna í hverri borg en í lýsingum á borgunum þremur og rígnum sem ríkir á milli þeirra má sjá einkenni dæmisögu eða allegóríu. Fólkið í hverri borg um sig er sannfært um að allir í hinum borgunum séu alveg ómögulegir en skoðanir þeirra byggja á vanþekkingu sem stafar af sjálfskipaðri einangrun þeirra frá hinum. Ef á að takast að sigrast á hinu illa verða þau hins vegar að leggja fordóma og hræðslu við hið óþekkta til hliðar og vinna saman, þannig að þau geti nýtt og sameinað styrkleika sína og á endanum búið til betra samfélag.

Sagan er að mestu sögð frá sjónarhorni Elísu og lýsir hennar upplifunum af því sem gerist, en einstaka sinnum fær lesandinn innsýn í hugarheim einhvers af hinum ungmennunum. Þau eiga það öll sameiginlegt, auk yfirnáttúrulegu kraftanna, að vera frá Íslandi og meira að segja frá sömu slóðum og Elísa á Vestfjörðum. Þau koma hins vegar ekki öll frá sama tíma, en á meðan Elísa er frá nútímanum eru Dimik og Óría frá árinu 1921 og Aren og Atóm frá árinu 2121. Þessi bakgrunnur, sem er bæði mjög svipaður en á sama tíma líka mjög ólíkur, leiðir oft af sér skemmtilegar uppákomur og samræður milli þeirra þar sem Dimik og Óría þekkja til dæmis ekki tækni sem er ekki búið að finna upp í þeirra tíð, en þekkja aftur á móti ýmislegt annað sem er löngu gleymt í tíma Arens og Atóms. Elísa og vinir hennar gegna ólíkum hlutverkum í hópnum, Atóm er leiðtoginn enda elstur og yfirvegaðastur af þeim, Dimik og Óría eru yngst og svolítið óstýrilát, Aren er alvarlegur og dulur en mikill bardagakappi og Elísa tekur að sér að vera hálfgerður sálusorgari hópsins. Hún og Aren ná saman frekar fljótt og þrátt fyrir að ástin sem blómstrar á milli þeirra virðist dauðadæmd, meðal annars vegna þess að þau eru frá ólíkum tímum sem þau þurfa að snúa aftur til, finna þau leiðir til að vera saman og hjálpa hvort öðru í gegnum ýmsa erfiðleika sem steðja að þeim. Ástin milli þeirra er afskaplega hugljúf og svolítið sár og lesandinn fær ekki að vita fyrr en alveg á síðustu stundu hvernig mun fara fyrir þeim. Ungmennin fimm eru öll nokkuð sannfærandi og vel gerð, þau eru ólík og breysk, þrátt fyrir að vera hetjur með ofurkrafta. Ekkert þeirra er fullkomið og þau gera mistök vegna hégóma og stolts og glíma við drauga úr fortíðinni sem vefjast fyrir þeim í átökunum við Draxönu. Þau fullorðnast eftir því sem sögunni vindur fram, á misjöfnum hraða og með ólíkum hætti, en öll standa þau uppi reyndari og þroskaðri eftir að átökunum er lokið.

Orrustan um Renóru er afar spennandi og stendur algerlega undir væntingum sem lokakafli í Dulstafa-þríleiknum. Sagan er grípandi og áhugaverð, persónur vekja samkennd með lesandanum sem óskar þess innilega að allt gangi upp hjá þeim. Elísa og félagar hennar læra að takast á við ýmsar tilfinningar og þurfa að greiða úr sálarflækjum sem koma upp á yfirborðið þegar þau æfa sig fyrir átökin við Draxönu og her hennar. Þau eru misjafnlega vel undirbúin í upphafi, en með því að hjálpast að og styðja hvert annað ná þau lengra en þau gátu ímyndað sér. Svipaður en ólíkur bakgrunnur þeirra gefur lesandanum skemmtilegan vinkil á persónurnar og hefði kannski mátt gera meira úr muninum á sögulegum bakgrunni þeirra til að létta alvarlegt andrúmsloft inn á milli. Á heildina litið er Orrustan um Renóru frábær fantasía þar sem persónur sigrast ekki bara á illum öflum heldur á sínum innri takmörkunum og eftir stendur betri heimur sem byggir á samkennd í stað sundrungar.
 

María Bjarkadóttir, desember 2023