Beint í efni

Okfruman

Okfruman
Höfundur
Brynja Hjálmsdóttir
Útgefandi
Una útgáfuhús
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Óhugnaðurinn tröllríður kannski ekki jólabókaflóðinu þetta árið en í tveimur af þremur bókum sem ég hef lesið birtist hann sem öflugt þema og á það sérstaklega við um ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur sem ber titilinn okfruma. Um er að ræða fyrstu bók höfundar og gefin út af forlaginu Unu útgáfuhúsi sem nýlega hóf starfsemi. Una útgáfuhús er starfrækt af ungum eldhugum sem  hafa það meðal annars að yfirlýstu markmiði „að vera vettvangur fyrir ný skáld til að stíga fram á ritvöllinn í skapandi samstarfi á jafningjagrundvelli“ (https://www.utgafuhus.is/pages/um-okkur). Þessar tvær staðreyndir, annars vegar fyrsta bók höfundar, unga konu, og hins vegar ný útgáfa sem rekin er af ungu fólki, eru mikil gleðiefni og vekja forvitni og eftirvæntingu áður en lestur okfrumunnar hefst.

Bókin er einn langur ljóðabálkur sem myndar heildstæða frásögn og segir frá ævi ónefndrar konu. Við fylgjumst með lífi konunnar allt frá fæðingu, eða öllu heldur getnaði, þegar frumur koma saman og taka að fjölga sér, til uppvaxtarára og fram á fullorðinsaldur. Við kynnumst upplifunum hennar og áföllum, samferðafólki og umhverfi, og þegar líður á seinnihluta bálksins, átökum hennar við þunglyndi og andleg veikindi.

En ýmislegt misfallegt drífur á daga konunnar. Sakleysislegar kvöldsögur breytast í martraðir, við heyrum af rauðu blóði í rúmi og fósturláti, svörtum hundi sem bítur, lygum, dauðsföllum náinna ættingja og jafnvel jafnaldra. Á einum stað segir að „[D]auðinn [komi] barni til manns“ (18) sem gefur til kynna að ljóðabálkinn mætti lesa sem þroskasögu konunnar og hvernig æskunni ljúki oft með áfalli eða annarri harmrænni reynslu. Dauðsföllunum er ennfremur komið sjónrænt til skila með heilli opnu af krossum. Og af einu þeirra leiðir skipting arfs þar sem einn frændinn er frekari en aðrir og tekur allt sem hann telur verðmætt. Konan fermist, fer á fyrsta fylleríð, verður ástfangin eða þráir öllu heldur að verða ástfangin, það þrengir að henni og henni finnst hún vera að kafna, hún byggir sér hús á strönd, mátar of litla skó, sultar rabbabara og ýmislegt annað sem konur gera jafnan. En yfir öllu vofir einhver óskilgreindur drungi og tónn ljóðanna er óhugnanlegur. Í viðtali segist höfundur lengi hafa dregist að hrollvekjum og sem krakki farið til dæmis á vídjóleigur og virt fyrir sér hulstrin utan um myndirnar sem henni var bannað að horfa á (https://www.ruv.is/frett/tofrar-i-barnslegu-hraedsluastandi). En af hverju er hrollvekjan heillandi? Er það einmitt af því að hún er bönnuð og verður fyrir vikið dularfull og spennandi?

Okfruman hefur að geyma áhugaverðan leik með tákn og eitt táknið varpar ákveðnu ljósi á hrollvekjuna og aðdráttarafl hennar. Þegar stúlkan er barn kynnist hún þjóðsögunni um Grámann í Garðshorni sem faðir hennar les fyrir hana fyrir svefninn eitt kvöldið. Síðar um nóttina breytist sagan í martröð og persónan Grámann í ófreskju sem ásækir stúlkuna og fylgir henni fram á fullorðinsár. Nú er upphaflega sagan um Grámann heldur saklaus, en ævintýri daðra oft við það sem er ankannalegt og óhugnalegt, svo oft hríslast hrollur upp bakið á þeim sem lesa eða hlýðir á. Ég held að það séu þessi litlu afkáralegu smátriði þjóðsögunnar eða ævintýrsins sem verða til þess að hún breytist auðveldlega í óhugnanlega martröð, og minnir um leið á hvernig óhugnaður og ótti eru samofin sagnagerð frá örófi alda. Sögur hræða okkur og við viljum að þær geri það, leitumst nánast eftir því. Það er ekkert einfalt eða saklaust við að nota þjóðsagnastef í nútímaskáldskap en Grámann kemur ítrekað við sögu í ljóðabálknum og endurspeglar ótta konunnar sem virðist eiga upptök sín í kollinum á henni.

Annað mikilvægt tákn ljóðabálksins er sjálf okfruman. Ég verð reyndar að viðurkenna að áður en ég las fyrrnefnt viðtal við höfund vissi ég ekki nákvæmlega hvað okfruma væri. En samkvæmt orðum höfundar markar hún upphafið á nýju lífi því okfruman verður til þegar tvær kynfrumur koma saman og mynda eina heild sem síðar verður nýr einstaklingur. Fortíð og framtíð koma saman í okfrumunni, sem gefur eins og skáldið segir í viðtalinu „tilfinning[u] fyrir framrás“ og „hringflug[i] tímans.“ En okfruma er ekki alltaf ávísun á líf, eins og fram kemur í ljóðabálkinum, og konan fær að upplifa það þegar hún verður fyrir fósturláti, sem virðist gerast oftar en einu sinni í lífi hennar, og verður að uppsprettu harms og trega. Þá minnir orðið „ok-fruma“ mig prívat og persónulega á jökulinn sem hvarf um daginn. Þó að það tengist ljóðabókinni ekki beint og er ekki til umræðu þar, gefur það dálítið annað sjónarhorn á tilfinninguna sem tengist framrás og hringflugi tímans.

Annað eftirminnilegt tákn sem kemur oftar en einu sinni við sögu í ljóðabókinni er svarti hundurinn sem þekkist úr skáldskap annarra skálda, til dæmis Gyrðis Elíassonar, en á reyndar rætur að rekja lengra aftur í hefðina. Svarti hundurinn getur vísað í fleiri en eina merkingu og hann tekur á sig ólíkar myndir í okfrumunni. Þegar stúlkan hittir hann fyrir í æsku ræðst hann á hana og bítur, en seinna, á fullorðinsárum, táknar nærvera hans þunglyndi. Að afneita svarta hundinum er tilraun til þess að hafna veikindunum og komast hjá því að takast á við þau:

Hún deplar augunum hratt hratt hratt til að losna við alla hundana

 

Segir: Hér er enginn hundur

Enginn svartur hundur sem liggur á engum sófa

 

Þú ert ekki svartur hundur

Það liggur ekki á þér neinn svartur hundur

Þú ert ekki að kremjast undir svörtum hundi allan daginn

[...]

Þegar það er nótt er enga svarta hunda að sjá

í felum

upp við svarta húsveggi 

Okfruman er metnaðarfullt og flott fyrsta skáldverk. Ljóðunum er haganlega fléttað saman og þau eru vel skrifuð. Þá hefur skáldkonan einnig myndskreytt bálkinn en á milli ljóðana má virða fyrir sér óræða hringlaga bletti gerða úr einhverskonar skuggum sem minna á frumur. Myndirnar vísa í titil ljóðabálksins og upphaf hans, en einnig í hinar makalausu frumur sem liggja allt um kring og eru í stöðugri hringrás, verða til, sameinast, endurnýjast og deyja. 

 

Vera Knútsdóttir, nóvember 2019

 

Bókin á Borgarbókasafninu