Beint í efni

Ósagt

Ósagt
Höfundur
Eyvindur Karlsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er ekki beint hægt að segja að hinn frægi ótti rithöfunda við áhrif annara rithöfunda (sbr. The Anxiety of Influence eftir Harold Bloom) einkenni fyrstu skáldsögu Eyvindar Karlssonar, Ósagt, hann ber áhrifavalda sína á erminni, svo mjög að það setur gagnrýnanda í dálitla klemmu þegar meta á verkið.

Söguna sjálfa er þó ekki vandamál að meta, hér er á ferðinni nokkuð sterk nútímaleg skáldsaga í hæfilega hörkulegum tón sem segir frá ungri konu og lífshlaupi hennar, allt frá einelti sem hún varð fyrir í skóla til umbreytinga sem verða á henni, fyrst á unglingsaldri og seinna sem ungri konu. Saga hennar er sögð í bútum, það er flakkað fram og til baka í tíma, frá æskuminningum um einelti til minninga rúmlegrar tvítugrar konu um fremur misheppnað hjónaband með eldri lýtalækni. Rammi verksins er yfirheyrsla yfir konunni, en þar segir hún ekki þá sögu sem ber bókina uppi heldur allt aðra og mun styttri, sem svo kemur fram í lokin. Sögusviðið er einhvers konar útgáfa af Íslandi, hálfkunnugleg og hálfframandi.

Hráslagaleg tóntegundin á vel við þau viðfangsefni sem tekist er á við, en meðal annars er hart deilt á fegurðar- og líkamsræktariðnaðinn, allt frá heldur neikvæðri mynd lýtalæknisins til háðsádeilu á lífrænt grænmetisfóður. Inn í þetta blandast svo sjálfshjálparbækur eftir Mugg Þór Ferdinandsson, en sá höfundur kemur svo einnig aðeins við sögu. Þessi þáttur verksins er sá sem virkar hvað síst, hlutur þessa höfundar og verka hans kemur ekki nægilega skýrt fram og þáttur bókanna sem aðalpersónan les linnulaust er ekki ljós. Yfirheyrsluramminn gefur til kynna að um spennusögu sé að ræða en svo er ekki, allavega ekki beinlínis eða á hefðbundinn hátt. Byggingin er þó í spennusagnastíl og sagan er spennandi, þrátt fyrir að vera nokkuð fyrirsjáanleg.

Allt þetta er fínt og gott, en líkist óneitanlega ansi mikið verkum bandaríska rithöfundarins Chuck Palahniuk (höfundur skáldsögunnar Fight Club), en þau einkennast af meðvituðum ‘sensasjónalisma’, þar sem ýktir æsilegir eða tilfinningahlaðnir atburðir hrannast upp. Þessu fylgir alltaf hressileg samfélagsúttekt. Þetta, og fleiri kunnugleg stef frá Palahniuk, er að finna í Ósagt. Líkindin eru hreinlega með ólíkindum, allt frá hrynjandi textans, uppbyggingu verksins og viðfangsefni þess, allt er þetta svo í anda hins bandaríska rithöfundar að gagnrýnandi getur ekki annað en staldrað við og ... lent í flækju. Hvar á að leggja vægið þegar svona verk er metið? Það er ekki eins og Eyvindur fari í felur með aðdáun sína á Palahniuk, hann nefnir hann, með höfundunum Nick Hornby og Brett Easton Ellis á kynningarsíðu bókarinnar á Myspace (http://www.myspace.com/eyvindurkarlsson) og talar um lestur sinn á verkum hans á bloggsíðu sinni, meira að segja umbrot bókarinnar er í anda umbrotsins á verkum Palahniuk. Þó er ekkert í sjálfri sögunni sem vísar beint til Palahniuks og því erfitt fyrir ókunnugan að henda reiður á áhrifunum innan verksins, helst mætti hugsa sér að vísanirnar í lestur aðalsöguhetjunnar á verkum Muggs séu einskonar vísun í vangaveltur um áhrif sem bækur hafa á fólk. En eins og áður er sagt þá er ekki sérlega mikið unnið með þann þátt og því erfitt að sjá hvaða hlutverki hann gegnir.

Það er því ekki auðvelt að komast að einhverri einfaldri niðurstöðu um svona verk. Í fyrsta lagi ber að fagna því að fram komi ungur rithöfundur sem þjáist ekki af hinum fræga ‘ótta við áhrif’ og hikar ekki við að sækja sér áhrifavalda við hæfi og vinna með verk þeirra. Á hinn bóginn geta slík áhrif gengið of langt og snúist í höndunum á höfundinum. Og óneitanlega fannst mér sagan á stundum óþægilega mikið of lík verkum annars höfundar. En svo má velta þessu við eina ferðina enn og segja; en hvað með verkið sjálft, stendur það fyrir sínu? Það hlýtur að skipta máli og svo sannarlega virkar saga Eyvindar ágætlega, eins og áður er sagt, og gengur alveg upp í sjálfri sér.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2007