Beint í efni

Óstöðvandi skilaboð

Óstöðvandi skilaboð
Höfundur
Ásdís Óladóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Árni Davíð Magnússon

Undanfarin misseri, þegar manneskjum hefur verið meinað að hittast, hafa einsemd og einmanaleiki af skiljanlegum ástæðum hlotið nokkra vigt í almennri umræðu. Þær skepnur eru mörgum skáldum þó vel kunnugar, bæði í bókstaflegum og þematískum skilningi. Í áttundu ljóðabók Ásdísar Óladóttur, Óstöðvandi skilaboð, er einmanaleikinn í forgrunni og tengslaþörf knýr harkalega að dyrum hjá ljóðmælanda.

Bókin hefst á ljóðinu „Tiltekt“ sem slær viðeigandi upphafsstef:

Um hádegisbil
handsama ég vindhviður,

tíni upp ljóð
um glataðar ástkonur,

hverf inn í draum
tungumálsins

sem vekjaraklukkan
mölvaði í morgun.

Ljóðin berast með vindhviðunum á réttan stað og hinar glötuðu ástkonur ljóðmælanda birtast lesendum hver af annarri, og mynda þráð sem gengur í gegnum bókina. Það væri þó ef til vill réttara að tala um að fjarvera þeirra fremur en vera leiði lesendur í gegnum bókina því um hana er í raun ort.

Einmanaleikinn sem af fjarverunni leiðir birtist á margvíslegan hátt í bókinni. Nefna má myndmálið, en sjávarmyndmál er nokkuð áberandi þar sem óendanleg, yfirþyrmandi víðátta hafsins er látin kallast á við hugar- eða tilfinningaástand ljóðmælanda. Ljóðmælandi líkir sér í einu ljóði við „þögult haf“, og í ljóðinu „Tindrandi“, sem virðist vera ort um stefnumótaforritið Tinder, er áþekku myndmáli beitt á athyglisverðan máta. Þar eru aðrar einmana sálir svamlandi „í þaraskógi“ og eru á kaldhæðnislegan hátt frjálsar „eins og fiskur í búri“, sem lýsir ágætlega innilokandi ástandi einmanaleikans. Ljóðið lýsir einnig hve tengslamyndun getur oft og tíðum verið brothætt og undarleg á miðlum sem þessum, þar sem sambönd velta á því hvort annar aðilinn, líkt og ljóðmælandi, ‚svæpar‘ til hægri eða vinstri. Brothættum tengslum tveggja manneskja er áfram lýst í einu sterkasta ljóði bókarinnar að mínu mati, „Söng saumakonunnar“ en í stað fiskabúrsins á Tinder eru tengslin í þessu ljóði ákaflega líkamleg:

Örfínn þráður
og ég sauma saman
augnlok,
slitnar taugar,
varir sem snerta
varir mínar,
 tvö flöktandi hjörtu
sem vaxa sitt í hvora áttina,
leggi og tuttugu tær.
Brjóst sauma ég
saman við brjóst,
maga við maga
og hugsanir sem mætast
í rafmagnaðri birtunni.

Sambandið virðist þó ekki líklegt til þess að halda nema þessi lesandi sé að vanmeta styrk hins örfína þráðar til þess að halda saman hjörtum sem vaxa í gagnstæðar áttir.

Segja má að ljóð bókarinnar séu nokkuð samheldin, þar sem flest þeirra fjalla á einn eða annan hátt um einsemdina eins og drepið hefur verið á. Samfella er styrkur Óstöðvandi skilaboða, en á sama tíma þá getur skapast dálítil hætta á einsleitni. Hvað áðurnefnt sjávarmyndmál varðar mætti fjölbreytnin í táknbeitingu vera ögn meiri, því að stundum ber á því að sömu tákn séu endurtekin án þess að þau fái beinlínis nýjar skírskotanir eða dýpri merkingu. Til dæmis er því dálítið ofaukið að ljóðmælanda sé líkt við „þögult haf“ eins og áður var nefnt, en annars staðar sé hann „með haf í augum“, mætir augnaráði „yfir gráu hafi“, eða að hjarta hans hamri „í sægrænt rökkrið“.

Annað sem kemur mjög við sögu í Óstöðvandi skilaboðum er leit ljóðmælanda að samastað. „Illgresi blómstrar / í garðinum mínum“ lýsir ljóðmælandi yfir. Garður þessi, ef til vill garður sálarinnar eða hinn tilvistarlegi garður, er margnotað bókmenntatákn frá dæmisögum Jesú Krists og upp úr. Ekki er leitast við að uppræta illgresið í bókinni heldur er dvalið í þessum garði. Ljóðmælanda gengur örðuglega að flýja frá honum, en leitar athvarfs á stöðum, eða staðleysum, sem kallast vel á við það þema einsemdarinnar sem hér hefur verið reifað. Stundum kýs ljóðmælandi algleymi næturinnar („Yfirtaka“) en mætir í annan stað óboðin í veislu á tunglinu („Dag einn“).

Sum ljóðin gefa fyrirheit um einhvers konar lausn eða sátt, upprætingu á áðurnefndu illgresi, en lausnin er yfirleitt tvíræð. Það má til dæmis sjá í ljóðinu „Úr einkasafni II“:

Á veggnum
hangir á nagla
nakin kona
umvafin bláu fjalli.
Ég tek hana niður
og fjallið,
pakka þeim báðum inn í plast
og fer með á pósthúsið.
Kveð með trega
en um leið létti.
Hvísla gegnum plastið:
„Bless elskurnar.“
Held síðan heim á leið
undan bergmáli
ágengra pensilstroka.

Nöktu konuna og fjallið væri hægt að túlka á ýmsa vegu, spegla ljóðmælanda í myndinni eða líta á hana sem ljúfsára endurminningu. Myndin er þó það sem ljóðmælandi verður að losna við en megnar ekki, ef bergmál pensilstrokanna í lok ljóðsins er tekið alvarlega. Af síðasta ljóði bókarinnar að dæma („2020“), sem er staðsett í nútíð, verður ljóðmælanda bersýnilega lítið ágengt, þar sem hann bíður þess að „tárvotur þvottur“ þorni: „hvort það verður / mánuður / eða ár / veit ég ekki“.

Það er þægilegt að lesa ljóðabók með skýrt afmarkaða heildarhugsun eins og Óstöðvandi skilaboð. Það leggur af ljóðunum hlýjan blæ þrátt fyrir nokkuð napurt umfjöllunarefni og það er lesendum hollt að geta speglað sig í jafnítarlegri greinargerð um einsemdina á tímum þegar það á sannarlega við.


Árni Davíð Magnússon, október 2020