Beint í efni

Ótemjur

Ótemjur
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Nýjasta skáldsaga Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, unglingabókin Ótemjur, er raunsæisleg þroskasaga með svolitlu dularfullu ívafi. Sagan segir frá hinni þrettán ára gömlu Lukku sem býr í lítilli kjallaraíbúð í borginni ásamt Flórensu ömmu sinni. Stundum býr Stína stuð, dóttir Flórensu, líka hjá þeim en þó að Stína sé ekki alltaf á staðnum litast fjölskyldulífið mjög af líferni hennar. Hún á við áfengisvanda að stríða og lifir og hrærist í heimi sem þær Lukka og Flórensa, eða amma Fló eins og hún er oft kölluð, vilja ekki eiga nokkurn þátt í, þó að oft komist þær ekki hjá því. Lífið er ágætt þegar þær stöllur eru tvær saman heima, en Stína snýr reglulega öllu á annan endann hjá þeim með drykkju og partístandi.

Lukka og amma Fló eru afar nánar, en amma er mikið veik og liggur fyrir dauðanum í upphafi sögunnar. Lukka þarf að annast um hana og sjá um heimilið þar sem ekki er hægt að stóla á Stínu. Amma Fló er búin að gera áætlun til að tryggja að Lukka lendi ekki á vergangi eftir andlát hennar og koma því þannig fyrir að frænka þeirra í sem býr á sveitabæ í Skagafirði ætlar að taka hana í fóstur. Lukka hefur aldrei hitt þessa frænku en hún er góð kona að sögn ömmu og hún treystir henni til að ala hana upp fjarri ruglinu í kringum Stínu sem getur varla séð um sjálfa sig, hvað þá þrettán ára ungling. Lukka er ekki alls kostar ánægð með þessi plön enda hefur hún lesið um svona staði úti á landi, sem taka að sér umkomulaus börn. Hún er sannfærð um að frænkan sé flagð undir fögru skinni og að börnin sem fara til hennar séu neydd í vinnu eða eitthvað þaðan af verra. Þegar amma Fló deyr ákveður hún því að taka til sinna ráða. Hún er með þaulskipulagða flóttaáætlun; hún ætlar að koma sér um borð í skip og burt frá öllu. Allt virðist ætla að ganga upp þegar hún lætur sig hverfa að heiman eftir jarðarför ömmu Flóar en amma hefur hugsað fyrir öllu og Lukka neyðist þrátt fyrir allt til að sætta sig við að fara norður, allavega þangað til henni gefst færi á að strjúka þaðan aftur og koma sér suður og um borð í skipið.

Freyja, frænka hennar í sveitinni, er reyndar alls enginn þrælahaldari eins og Lukka hélt heldur vænsta kona, en Lukka er ekki vön því að geta treyst fullorðnum og bítur af sér allar tilraunir Freyju til að vingast við sig. Hún er staðráðin í því að halda sig við planið og láta sig hverfa um leið og hún getur. Hún grípur fyrsta tækifæri og leggur af stað um nótt en er komin skammt á veg þegar hún lendir í afar dularfullri reynslu, á vegi hennar verður undurfagur hestur og með honum ung kona. Þau birtast mjög óvænt og Lukka er ekki viss hvort þetta sé að gerast í raun eða sé einhverskonar sýn, en konan tjáir henni að hesturinn heiti Vaka og hafi valið Lukku sem vinkonu. Lukka heillast algerlega af Vöku og ákveður að salta flóttaplönin um tíma og vera um kyrrt á meðan hún gefur sér tækifæri til að kanna málið aðeins. Tíminn líður hratt og Lukka er nánast bergnumin af hestinum en fyrir vikið gleymir hún alveg að gæta að sér og ekki líður á löngu þar til fortíðin í borginni eltir hana uppi og fer að ásækja hana að nýju.

Þó að Lukka sé ákveðin í að finnast sveitin ömurleg er lífið þar gjörólíkt því sem hún átti von á. Freyja frænka hennar og Rainer maðurinn hennar eru vön því að vera með börn í fóstri og Lukka er ekki eina barnið sem dvelur hjá þeim á bænum þá stundina. Þar er líka Tandri, sem er reyndar ekki í fóstri heldur þangað kominn til að reyna að vinna bug á ofsahræðslu sinni gagnvart dýrum. Lukka kallar Tandra „óttabarn“ því hann er stöðugt hræddur í sveitinni, en með honum og Lukku tekst smátt og smátt einlæg vinátta. Lukka finnur til ábyrgðar gagnvart Tandra sem henni finnst hálf bjargarlaus innan um öll dýrin í sveitinni og Tandri er hreinskilinn og skorinortur við Lukku sem er oft frekar föst fyrir og fljót að draga neikvæðar ályktanir um fólk. Sjónarhorn hans á hlutina kemur Lukku, og reyndar fullorðna fólkinu líka, oft á óvart og vekur hana til umhugsunar. Samveran við Vöku, við dýrin á bænum og við fólk sem hugsar vel um hvert annað mýkir Lukku smám saman gagnvart umheiminum þó hún eigi eftir sem áður erfitt með að treysta öðrum.

Í upphafi sögunnar ríkir mikið myrkur í kringum Lukku og tungumálið er notað á hugmyndaríkan hátt til að undirstrika það. Þær Lukka og amma Fló kalla kjallaraíbúðina þar sem þær búa til að mynda „hyldýpið“ og Lukka kallar vini Stínu „skuggaverur“; andstæðan við þær eru „dagmanneskjur“ eða „fólk sem sefur á nóttinni og fer í vinnuna á daginn“ (73). Í borginni er Lukka uppstökk og full hörku, ekki síst eftir að amma Fló fellur frá, enda á hún engan lengur að til að reiða sig á. Eftir því sem líður á dvölina í sveitinni og lífið í borginni verður fjarlægara birtir hins vegar yfir henni. Sagan gerist að sumri og bjartar sumarnæturnar í Skagafirði mynda skýra andstæðu við þungt yfirbragð borgarinnar. Lukka verður eiginlega alveg óvart þátttakandi í lífinu í sveitinni, hún hjálpar til við reiðnámskeið sem haldið er á bænum, hún tekur að sér umsjón með hvolpum og hjálpar Tandra að takast á við dýrahræðsluna. Hún blandast auk þess óvænt inn í skipulagsmál í sveitinni þar sem stendur til að fara í mikla hóteluppbyggingu á höfða í nágrenninu, en Freyja er sú eina í sveitinni sem er mótfallin framkvæmdinni og í afstöðu hennar til málsins er fólgin ákveðin ádeila. Nágrannar hennar sjá tækifæri og gróða í uppbyggingu á staðnum, hótelið á að laða að ríkt fólk og þjóna þeim tilgangi að færa það nær náttúrunni. Framkvæmdirnar munu hins vegar leiða af sér mikið rask á svæðinu og það þarf að fórna miklu til að byggja það, í stað þess að njóta náttúrunnar óspilltrar, eins og hún er.

Tungutak Lukku er afar óvenjulegt, hún tvinnar saman heimatilbúnum blótsyrðum í „Fúkkaflaumi“, orðaleik sem hún og amma Fló fundu upp á og gengur út á að „smíða ný blótsyrði sem eru frumleg og skapandi en særa engan og veita útrás og innblástur“ (99). Kona sem stendur í vegi fyrir og skemmir flóttaáætlun Lukku er til dæmis „hlussutrossa“ og „bálvítis buddusnudda“ (45), sveitina hennar Freyju kallar Lukka „drobbings draugabæli“ (135) eftir að hún sér dularfulla sýn uppi á höfðanum, og aðalmaðurinn í hótelframkvæmdunum er „lubbusnuddi og fýlubobbi“ (179) og svo mætti lengi telja. Blótsyrði Lukku vekja athygli og stundum kátínu þeirra sem á heyra, en hún notar þau reyndar stundum til að særa fólk og ýta frá sér, undir því yfirskini að ekki sé hægt að segja neitt við því þar sem orðin þýða jú í raun ekkert.

Ótemjur er afar grípandi og áhrifarík saga, sem fjallar um alvarleg og á köflum átakanleg mál. Sagan er engu að síður ekki þung aflestrar eða niðurdrepandi enda verða þær persónur, sem koma til sögunnar í sveitinni til þess að létta andrúmsloftið í kringum Lukku. Hún er brennd af samskiptum sínum við fullorðna og er alein og týnd í upphafi eftir að amma hennar deyr. Þó að sveitin og Freyja frænka hennar virki ógnvekjandi í fyrstu kemur í ljós að hvorugt er eins slæmt og Lukka hélt. Hún þarf hins vegar bæði að læra að standa með sjálfri sér og treysta öðrum til að átta sig á því og um leið og hún yfirstígur sinn eigin ótta við að vera svikin og skilin eftir ein finnur hún loksins hamingju og öryggi, sinn samastað.

María Bjarkadóttir, desember 2021