Beint í efni

Öxin og jörðin

Öxin og jörðin
Höfundur
Ólafur Gunnarsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Án þess að ætla út í sögur úr bernsku minni verð ég að játa hér strax að mér hundleiddist alltaf Íslandssaga og rúmlega það. Allt þetta þramm fram og til baka um landið, frekir kallar og fjas – mér þótti þetta afspyrnu fúlt og ef ég ætti að velja eitthvað tímabil sem pirraði mig öðrum fremur væri það líklega siðaskiptin. Þrátt fyrir áhuga minn á trúmálum hef ég aldrei fyllilega getað séð muninn á þessum tveimur útgáfum kristni, né ástæðuna fyrir átökunum þar á milli. Og allt þetta biskupavesen fannst mér beinlínis hlægilegt. Á hinn bóginn hef ég alltaf haft ákaflega gaman af sögulegum skáldsögum, og því feitari og reyfarakenndari, því betra. Það var því með blendnum hug sem ég hóf lestur sögu Ólafs Gunnarssonar, Öxin og jörðin, en hún gerist á árunum 1547-1563, það er að segja, rétt í kringum siðaskiptin og segir frá eilífum átökum og basli biskupa. En viti menn, ég bara límdist við söguna og ekki laust við að ég fengi dáldinn áhuga á þessu siðaskiptabauki, allavega nægilegan til að yfirheyra nokkra sakleysingja um málið.

Sagan hefst sumsé á því að átök milli Jóns Arasonar og Gizurar Einarssonar, sem sitja á sitthvoru biskupssetrinu sinn í hvorum siðnum, færast í aukana. Síðan deyr Gizur (mér til mikillar undrunar, ég er nefnilega svo heppin að þekkja ekki söguna og því var margt sem kom alveg flatt uppá mig, ekkert þó jafn mikið og þegar Gizzi geyið dó, mér leið eins og áhorfanda í unglingahrollvekju þegar aðalpíunni er óvænt slátrað í fyrsta atriði), Marteinn Einarsson tekur hans stað og allt fer í enn meiri flækju. Og svo blandast kóngurinn auðvitað í málið og danskir embættismenn hans, auk þýskra kaupmanna.

Núnú, áhersla Ólafs er sú að siðaskiptin hafi í raun verið það sem endanlega gerði út um sjálfstæði Íslands, og skilst mér á yfirheyrslum mínum að þetta sé einnegin skoðun sumra sagnfræðinga (ekki svo að skilja að það skipti máli, mér hefur aldrei fundist ástæða til að líma sig of mikið við staðreyndir í sögulegum skáldsögum), en þrátt fyrir þetta fer hann ekki þá leið að gera Jón Arasaon að einhverri ægilegri þjóðernishetju (eins og sumar kenningar ku halda á lofti), heldur ítrekar líka að hann er frekur og valdagráðugur kall – en framsýnn sumsé, hann ber líka hag lands og þjóðar fyrir brjósti. Þó eru þeir lútersmenn enn aumari, og fá almennt lélega útreið. Kannski um of, en það varð á stundum dálítið þreytandi hvað þessir kallar allir gátu illa gert upp hug sinn og hollustu. Kannski það hafi verið veikasti punktur bókarinnar, en það er algengt trikk í sögulegum skáldsögum að láta lífshlaup valinna persóna kallast á við söguna. Því var ekki að skipta hér, þó nóg væri af persónunum, þá var engin sem beint átti samúð manns, eða skipti sérlegu máli hvað yrði um. Þórunn dóttir Jóns fannst mér langskemmtilegust, en hún er svona kvenskörungur að hætti Íslendingasagna – og nokkuð klisjuð sem slík – en samt afskaplega hressilegur karakter sem sást sorglega lítið til. En utan þetta þá er sagan bæði spennandi og áhrifamikil. Ólafur hefur margoft sýnt að hann kann að draga upp persónur og svið sem lesandinn sér ljóslifandi fyrir sér, og hér dregst lesandinn inn í þennan sextándualdar heim Íslendinga, og fær innsýn bæði í daglegt líf og annað vafstur. Og svo eru þarna náttúrulega frábærar splatterlýsingar, sem byrja strax með aftökunni í upphafi sögunnar, en hún setur tóninn fyrir það sem koma skal.

Ég lýsti framar ánægju minni með sögulegar skáldsögur og ég verð að bæta því við að ég hef aldrei skilið nöldur út í slíkar af svokölluðum samtímaskáldsagnapostulum, sem kvarta yfir því að söguleg skáldsaga beri í sér flótta frá samtímanum og jafnvel ótta við að takast á við hann. Sögulegar skáldsögur, líkt og aðrar skáldsögur, lifa ekki í einhverju tímaleysi, né eru þær bundnar þeim tíma sem þær gerast á – þær hljóta alltaf að bera keim af þeim tíma sem þær eru skrifaðar og lesnar á. Svo er um Öxi og jörð Ólafs en í tengslum við þá sögu er ekki annað en hægt að leiða hugann að ástandinu í heimsmálum nú, í kjölfar innrásar Bandaríkjahers á Írak. Annarsvegar má skoða málið í íslensku samhengi, þarsem undirgefni íslenskra stjórnvalda gagnvart bandarískum yfirvöldum þegar kom að því að taka afstöðu til árásarinnar speglar óneitanlega þrælslund þá sem lúterskir sýna kóngi sínum, en sú blinda þjónusta endar eins og áður er sagt í því að það litla sem eftir var af sjálfstæði Íslendinga hvarf. Einnig gat ég ekki annað en velt fyrir mér stöðu Tonys Blair, sem hlýtur að vera búinn að sjá hversu mikil reginmistök það voru að fylkja liði með Bandaríkjamönnum og þarf nú að verja vonlausan málstað, ekki ólíkt og þegar Marteinn Einarsson uppgötvar að glæsta Evrópuborgin sem kóngur hafði lofað yrði aldrei byggð á Íslandi og að allt hans streð hafi verið vonlaust. Þó er ólíklegt að Blair fari nokkurn tíma að ráði Marteins og segi af sér embætti. Og ef Marteinn er Blair þá mætti hugsa sér Daða Guðmundsson sem fulltrúa íslenskra stjórnvalda, en hann valdi sér það hlutskipti sem hann áleit sig græða mest á.

Í heildina séð er því óhætt að segja að skáldsaga Ólafs Gunnarssonar sé, þrátt fyrir nokkra veika punkta, áhrifamikið verk, sem vekur lesandann til umhugsunar og kallar á umræður og vangaveltur, og það er akkúrat það sem leitað er eftir í góðum bókmenntum.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003