Beint í efni

Píanóstillirinn

Píanóstillirinn
Höfundur
Daniel Mason
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Samkvæmt bókarkápu er sagan um píanóstillinn fyrsta skáldsaga ungs bandarísks læknis, Daníels Mason, og sló óvænt í gegn. Það skýrir að nokkru þann byrjendabrag sem er á bókinni, og kannski að einhverju leyti þá fortíðarþrá eftir enskum hefðum undir lok viktoríutímans, sem sagan lýsir. Píanóstillirinn segir frá miðaldra lækni, Edgar Drake, sem fær það óvænta verkefni að fara alla leið til Búrma til að stilla þar falskan franskan flygil, en hann sérhæfir sig einmitt í þessari tilteknu tegund flygla. Ástæðan fyrir því að flygillinn er þangað kominn er sú að herlæknir nokkur, Anthony Carroll, hefur með nokkuð sérstæðum hætti tekist að koma á stöðugu ástandi í hluta Búrma, en hann er mikill áhugamaður um listir og vísindi og krefst þess að fá flygil fluttan alla leið í innstu myrkur landsins. Svo verður hljóðfærið að sjálfsögðu falskt í þessum hundraðogellefu aðstæðum og þá þarf að stilla.

Eins og títt er í skáldsögum býr þessi hljóðláti píanóstillir yfir óslökkvandi þrá eftir einhverju 'öðru', og þrátt fyrir að eiga konu sem hann elskar og gott heimili og líf almennt, tekur hann sig upp og fer í þessa hættuför, en stríðsástand ríkir í Burma, bæði milli nýlenduherranna og innfæddra og milli Breta og Frakka og Rússa sem einnig ásælast landið. Á leiðinni uppgötvar hann margt nýtt og er gersamlega heillaður af töfrum austursins, sem er lýst fagurlega. Lesandinn dregst með honum inn í þennan heim og lifir sig fljótlega inn í hann. Það er ekki fyrr en í miðri bók sem hann loks hittir herlækninn fræga, sem er hálfgerð goðsögn meðal Bretanna á staðnum, og minnir sá fundur nokkuð á annan frægan, þegar Stanley greyið hitti loks á Livingstone. Gott ef sá fundur gerist nokkuð fyrr en um miðbik Hvítu Nílar? Þessir tveir menn ná afskaplega vel saman yfir sameiginlegum áhuga sínum á menningu og fegurð og áður en af veit er Drake hálfpartinn sestur að í búðum Carroll. En pólitíkin er eitthvað vafasöm og áður en af veit er Drake lentur í einhverju sem hann hafði ekki gert ráð fyrir.

Þetta er heilmikil saga og afskaplega heillandi á köflum. Mason tekst vel að draga upp mynd af þessu landsvæði, hefðum, siðum, menningu og mannfólki og varpar á þetta alltsaman einskonar þúsundogeinnarnæturljóma. Það er hinsvegar ekki erfitt að dragast inn í heim þessa landsvæðis, en mér er í fersku minni ekki alls ólík bresk skáldsaga sem ég las fyrir tveimur árum og fjallar um ferð inn í Indland og Burma, en þar er temað orkídeur en ekki tónlist. Sagan heitir Fish, Blood and Bone og er eftir Leslie Forbes, fyrir þá sem hafa áhuga. (Reyndar minnti orkídeuáráttan í kvikmyndinni Adaptation mig líka á þessa skáldsögu svo kannski er ég bara með hana á heilanum.) Hinsvegar er bókin ekki gallalaus og fóru þar mest fyrir brjóstið á mér ákveðnar klisjur, eins og þessi rómantíska um karlmanninn sem þráir eitthvað óhöndlanlegt, og jarðbundnu en þó ávalt þolinmóðu konuna hans sem vill svo gjarna bara sitja heima og búa um rúmið. Í þokkabót lendir hann svo í 'ástarævintýri' með einni innfæddri konu, sem er augljóst tákn fyrir töfra landsins og var það sömuleiðis afskaplega lúin saga. En burtséð frá þessu er Píanóstillirinn saga sem er sannarlega þess virði að fylgja eftir.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003