Beint í efni

Predikarinn og Arfur Nóbels

Predikarinn og Arfur Nóbels
Höfundur
Camilla Läckberg
Útgefandi
ARI
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Predikarinn og Arfur Nóbels
Höfundur
Liza Marklund
Útgefandi
ARI
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fyrir nokkrum ár(atug)um var mikið talað um áhrif sænskrar hugmyndafræði og samfélagsfræði á Ísland. Fjöldi þeirra sem menntaði sig í ríki Svía var slíkur að áhrif þeirra urðu þónokkur, og eru jafnvel enn. En nú er svo komið að Íslendingar eru hættir að fá eins mikið af samfélagslegum straumum frá Svíþjóð og í staðinn streyma sænskar glæpasögur inn í landið. Þessi umskipti eru vissulega um margt áhugaverð – en verða ekki rædd hér nánar, né ætla ég að velta því fyrir mér hvort Svíþjóð sé orðin ný fyrirmynd glæpsamlegrar starfsemi fyrir Íslendinga.

Í staðinn ætla ég að fjalla um tvö nýjustu afkvæmi sænskra glæpasagnahöfunda, Predikarann eftir Camillu Läckberg og Arf Nóbels eftir Lizu Marklund. Af þessum tveimur er Marklund öllu þekktari, en margar bækur hennar hafa verið þýddar á íslensku og hlotið góðar viðtökur. Läckberg er nýrri höfundur og Predikarinn önnur bók hennar, en sú fyrsta, Ísprinsessan, kom út í íslenskri þýðingu í fyrra. Þar sagði frá Ericu, ungum rithöfundi, sem óvart flækist inn í glæpamál þegar hún kemur að bernskuvinkonu sinni látinni í baðkari. Hún stendur þó ekki ein í stórræðunum, því Patrik, ungur lögreglumaður og kunningi hennar frá fyrri tíð, reynist ekki með öllu ónýtur í glæparannsóknum og saman komast þau að niðurstöðu í málinu. Í Predikaranum hittum við aftur fyrir þetta ágæta par, sem nú er einmitt orðið að pari, og Erica er ólétt og í þokkabót nokkuð vel stæð eftir að hafa gefið út bók byggða á morðmálinu sem lýst var í Ísprinsessunni. Patrik er í sumarfríi en er kallaður til þegar lík ungrar stúlku finnst, og undir því beinagrindur tveggja annarra. Inn í málið blandast fjölskylda nokkur, sonur og barnabörn látins predikara, en sá var löngum grunaður um að hafa haft meiri áhuga á því að auðgast en að ganga með guði. Líkt og Ísprinsessan gerist sagan í litlum strandbæ ekki langt frá Stokkhólmi og sem fyrr tekst Läckberg vel að fanga andrúmsloft slíks staðar, allt frá sumarleyfisstemningunni í sumarhitanum til togstreitu innan lögregluteymisins. Og svo blandast auðvitað bæjarrógurinn inn í málið, en sumum afkomendum predikarans hefur vegnað ver en öðrum. Erica er komin á steypirinn og heldur sig til hlés í rannsókninni, án þess þó að vera með öllu gagnslaus og samskipti þeirra hjúanna, bæði sín á milli og við vini og vandamenn blandast skemmtilega inn í söguna og gefa henni líf og lit.

Sem fyrr er einkalíf Anniku Bengtzon fyrirferðarmikið í sögu Marklund, Arfur Nóbels. Eftir atburðina í Úlfinum rauða eru brestir í hjónabandinu, auk þess sem hún hefur komið sér illa í vinnu sinni á blaðinu. Þegar hún síðan lendir í því að vera vitni að morðinu á formanni Nóbelsnefndarinnar á Nóbelshátíðinni versnar staða hennar enn, því sem vitni er henni bannað að tjá sig um atburðina. Þrátt fyrir það hefst hún handa við að grúska í málinu og er komin með ýmsa þræði í hendurnar þegar hún er send í frí. En svo fer allt af stað aftur þegar fleiri meðlimir Nóbelsnefndarinnar eru myrtir. Sem fyrr er Marklund metnaðargjörn í skrifum sínum og fléttar söguna fjölmörgum þráðum sem hún heldur vel utanum, lýsingin á háskóla/rannsóknarsamfélaginu í kringum Nóbelsnefndina er vel heppnuð, með öllum sínum (hálf)brjáluðu vísindamönnum, svo og umfjöllunin um hryðjuverkaógnina og viðbrögð stjórnvalda og almennings við henni. Leigumorðinginn Kisan er líka skemmtileg viðbót og gaman að sjá hina ofurviðkvæmu og taugaveikluðu Anniku telft gegn slíkri konu sem er svo mikill harðnagli að það hálfa væri nóg. Saga Nóbels sjálfs er kannski svolítið utanáliggjandi og tengist plottinu tæplega nægilega vel, en er hinsvegar áhugaverð og virkar ágætlega sem krydd.

Ég átti aldeilis ágæta helgi með þessum konum öllum, þeim Camillu, Lizu, Ericu, Anniku og Kisunni – og Patrik greyið, hann mátti bara alveg vera með.

Úlfhildur Dagsdóttir, mars 2007