Beint í efni

Rán

Rán
Höfundur
Álfrún Gunnlaugsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Á kili bókarinnar stendur ¡Rán, með öfugu spænsku upphrópunarmerki fyrir framan titilinn og nafn sögukonunnar. Það gefur strax til kynna í hvaða heimshluta lesandinn er staddur, en bókin gerist aðallega í Barcelona, höfuðborg Katalóníu sem (enn sem komið er) er hluti af Spáni.

Titillinn og nafnið vísar líka til viðfangsefnis sögunnar á ýmsan hátt, líkt og önnur nöfn verksins - en þó er kannski varlegt að fara of mikið út í táknrænan lestur á verkinu, enda segir í upphafi bókarinnar þar sem Rán er að hreinsa stíflað niðurfall: „Sannfærðist um að hún væri að gera eitthvað sem hefði táknræna merkingu þótt í svipinn væri henni ókunnugt um hvað það var.” (14) Vissulega er þessi hreinsun á niðurfallinu táknræn fyrir margt í sögunni, sem fjallar að stórum hluta um ferðalag og minningar, en þó verður líka að hafa í huga að Rán hafnar heimssýn síns spænska kærasta sem sér allt í svörtu og hvítu og hugsar þreytulega með sér mörgum árum síðar: „Aldrei gat neitt verið einfalt og afdráttarlaust.” (225)

Daginn áður en Rán ætlar í heimsókn til Íslands er maðurinn hennar horfinn af heimili þeirra í Sviss. Hann er ekki fyrsti maðurinn sem hverfur úr lífi hennar, nokkrum áratugum áður hafði Roberto, kærastinn hennar í Barcelona einnig horfið á braut og svo er það sonurinn Valur, sem varð eftir á Íslandi þegar Rán giftist hinum svissneska Hansjürg. Þrátt fyrir áhyggjur vinkonu sinnar heldur Rán ferð sinni ótrauð áfram, en áður en hún fer til gamla heimalandsins heimsækir hún annað fyrra heimili, Barcelona, en þar hafði hún stundað nám sem ung kona. Í Barcelona flæða minningarnar fram og sagan ferðast fram og til baka í tíma og rúmi, frá Spáni til Íslands með viðkomu á Englandi og í Sviss, auk Parísar.

Það eru sjö ár síðan síðasta bók Álfrúnar kom út, Yfir Ebrofljótið, en þar segir frá minningum íslensks sjálfboðaliða úr spænsku borgarastyrjöldinni. Álfrún hefur áður fjallað um borgarastríðið á Spáni og afleiðingar þess í skáldsögunni Þel, sem einnig gerist að hluta til í Barcelona. Hér er þó nálgun Álfrúnar nokkuð ólík, sagan er sögð í fyrstu og þriðju persónu af fullorðinni konu, Rán, sem rifjar upp eigin upplifun af því að búa í Barcelona undir fargi einræðisherrans Franco, auk þess sem hún lýsir minningum bareigandans Eloy af upphafi borgarastríðsins í borginni, þegar verkamönnum tókst í fyrstu að sameinast og verjast innrás fasista-hersins, en töpuðu næstu umferð. Við vitum ekki vel hvernig hún veit þetta um Eloy, mögulega ímyndar Rán sér minningar hans því hún ályktar að hann hafi misst fótinn í átökunum og segir á einum stað: „Hafi Eloy tekið þátt í að bæla niður uppreisn hersins í júlí 1936, við upphaf borgarastríðsins, tók hann áreiðanlega beinan eða óbeinan þátt í að verjast kommúnistunum og stuðningsmönnum þeirra í Barcelona sem efndu til uppgjörs við anarkista og marxistaflokkinn POUM í maí 1937.” (92) Af þessu má ætla að sá hluti sögunnar sem snýr að Eloy og minningum hans úr stríðinu séu hugarfóstur Ránar, sem er að reyna að átta sig á pólitískum átakalínum þessa tíma, þar sem hún situr á bar Eloys og horfir út um glugga: „Það hafði sest móða innan á hann. Handan móðunnar var fortíð borgarastríðsins sem ekki grillti svo auðveldlega í á þeim tíma sem ég dvaldi í Barcelona. Ekki var til siðs að tala um það stríð og í rauninni bannað.” (77) Þannig er borgin Barcelona mun meira í miðju frásagnarinnar en í Þeli og Yfir Ebrofljótið, Rán ferðast um gerbreytta borg, ýmist ráðvillt eða ákveðin og rifjar upp samband sitt við Roberto, soninn Val og eiginmanninn Hansa. Samhliða teiknast upp mynd af borginni, götum hennar, söfnum og sögu og allt fléttast þetta saman í þann einstaka vef frásagnarlistar sem lesendur eru orðnir að góðu kunnir frá höfundi.

Álfrún speglar stríðið í átökum Ránar við karlmennina í lífi sínu, auk þess sem þögnin um stríðið endurspeglast líka í vangaveltum um samskipti fólks, hið ósagða, hið ósegjanlega, það sem þarf að tala um og það sem er óþarft að segja. Jafnframt kallast hin margþættu pólitísku átök (anarkistar, marxistar, kommúnistar sem börðust innbyrðis ekki síður en við falangista) á við þær spurningar um valkosti og það að láta velja fyrir sig, fljóta með straumnum eða berjast á móti. Þar verður nafn sonarins augljóslega ákaflega táknrænt, en þegar Rán ætlar að sækja hann til Íslands eftir að hafa komið sér fyrir í Sviss með eiginmanni sínum neitar hann að fara með henni og kýs að vera hjá ömmu sinni og móðursystur. Þessi aðskilnaður myndar helstu átakalínuna í lífi Ránar og birtist í nákvæmum lýsingum hennar á Maríulíkneskjum hér og þar um borgina. Listin og umræða um hana fléttast náið inní söguna og skapar sterkt mótvægi við hina hverfulu minningu. Þannig er listin séð sem eitthvað varanlegt, agað en þó umbreytanlegt í minningunni, sem er ævinlega rásandi og óstöðug.

Eins og í fyrri verkum höfundar eru tilfinningaátökin mikil og sagan tekur á í lestri. Álfrún nýtir sér þá tækni að flakka stöðugt milli fyrstu og þriðju persónu í frásögninni og skapar þannig flæði sem er einfaldlega meistaralegt. Það er hrein unun að lesa texta sem er svona þaulunninn en jafnframt laus við alla stirfni eða rembing og lesandi ferðast átakalaust á milli hinna ólíku sviða átakanna.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008