Beint í efni

Reykjavíkurmyndir

Reykjavíkurmyndir
Höfundur
Óskar Árni Óskarsson
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Það er auðvelt að gleyma sér í nýútkomnu ljóðasafni Óskars Árna Óskarssonar, Reykjavíkurmyndir. Leyfa skáldinu að bera sig á vit borgarævintýra og upplifa kaupstaðinn Reykjavík með öðrum hætti en áður. Og þessi tilfinning, að gleyma stað, stund og sjálfum sér um stundarsakir, fellur vel að rómantískum hugmyndum um skáldskap sem afdrep fyrir hugann. Ljóðmælandi lýsir þessu raunar vel í eftirfarandi ljóðbroti: 

Maður er víst alla ævina 
að reyna að finna sjálfan sig 
en bestu stundirnar eru hugsanlega þær 
þegar maður týnir sjálfum sér 
það er nokkuð liðið á maímánuð 
og ég sit á bekk úti á Granda
búinn að týna mér í ljóðabók 
og langar ekkert 
til að koma í leitirnar
(90)

Ferill Óskars Árna spannar nú yfir þrjá áratugi en í höfundarverki hans leynast ljóð, þýðingar og smáprósar, en í hressilegum inngangi að ljóðasafninu lýsir Jón Kalman því formi sem einu sterkasta höfundareinkenni skáldsins: „Æringinn Óskar Árni nýtur sín vel í smáprósaforminu, og þrátt fyrir að sumir þeirra séu knúnir áfram af sterkri frásagnarödd virðast þeir lúta áfram lögmálum ljóðsins – með sína óræðu hugsun, með sitt hnitmiðaða orðaval.“ (12) Smáprósinn er afar spennandi og frjótt bókmenntaform. Hann er allt í senn ljóð, prósi og örsaga. Í ritaskrá í safninu má sjá að skáldið hefur gefið út alls níu smáprósaverk, þ.á m. Skuggamyndir úr ferðalagi sem undirritaðri finnst þó hæfa betur skáldsögustimpillinn. Verkið sker sig úr í höfundarverki skáldsins að forminu til þótt viðfangsefnið tengist skýrt þráðunum í ljóðagerðinni. Skuggamyndir úr ferðalagi var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2008 og er að vissu leyti minningabók þar sem skáldið raðar saman textabrotum og ljósmyndum til að miðla nokkurs konar ættarsögu. 

Eins og titillinn Reykjavíkurmyndir gefur sterklega til kynna geymir safnið ljóð sem eiga það sameiginlegt að tengjast Reykjavík, heimaborg skáldsins, en safninu er skipt í kafla sem bera óræða titla en vísa um leið í þemu í höfundarverki skáldsins, s.s. „Skuggi af snúrustaur“, „Truflanir“ og „Útjaðrar“. Þrátt fyrir að borgartengingin sé vissulega misjafnlega áberandi í ljóðunum færir hún skáldinu ákveðið hlutverk. Eða öllu heldur færir á svið það hlutverk sem skáldið fer í þegar hann yrkir um borgina. Ljóðmælandi ferðast um borgina og upplifir frá sínu sérstaka sjónahorni sem hann miðlar lesendum. Hugtakið flâneur hefur verið þýtt með ólíkum hætti í íslensku tungumáli; flandrari, förusveinn, vandrari eða bara flanör, og er þekkt fyrirbæri í menningarasögunni. Upphaflega tengdi þýski bókmenntafræðingurinn Walter Benjamin hugtakið franska skáldinu Charles Baudelaire og fæðingu stórborgarinnar á nítjándu öld. Flandrarinn er yfirleitt skáld eða listamaður sem ferðast um borgina og gerir hana að yrkisefni sínu. Hann tekur ekki beinlínis þátt í borgarlífinu eins og aðrir samborgarar hans sem ferðast til og frá vinnu, versla í matinn og fara í bankann til að borga reikninga, heldur fylgist hann með borgarlífinu utan frá, greinir og miðlar svo því sem hann sér. Flandrarinn tengist að vissu leyti rómantískum hugmyndum um skáldið sem er á skjön við venjubundinn hversdagsleikann en áherslan á borgarumhverfið tengir hann um leið við módernisma og nútímavæðingu. 

Flandrarinn í Óskari Árna á ýmislegt sameiginlegt með hinum síðrómantíska flandrara en hér er nálgunin við fyrirbærið á einhvern hátt hversdagslegri, angurværari og hann tekur sig ekki eins hátíðlega. Hann berst að því virðist nokkuð stefnulaust um borgina, flakkar um Vesturbæinn og miðbæinn, minnist til dæmis á nokkrum stöðum á biðröðina við pylsuvagninn í Tryggvagötu, en hann berst einnig til útjaðra bæjarins og til úthverfanna. Í kafla sem ber titilinn „Útjaðrar“ má finna ljóð sem segir frá því þegar hann lítur við á þeim dýrðarinnar stað Sólheimasafni að kveldi, finnur áhugaverða bók um japanska fornspeki, fær hana að láni og hverfur aftur út í myrkrið. En hversdagsleg athöfn eins og heimsókn á bókasafn umbreytist í töfrandi viðburð í meðförum flandrarans: „Krítarteikingar á gangstéttinni og dansandi stjörnur milli háhýsanna. Alltaf rekur eitthvað á fjörur iðjuleysingjans.“ (184) Næsta ljóð er ef til vill hefðbundnara  „flandraraljóð“ þar sem ferðalag ljóðmælanda verður nánast áþreifanlegt: 

[...] Ranglaði um Blesugróf og niður að Elliðaánum meðan myrkrið var að síga á. Farfuglarnir farnir að skila sér aftur til landsins. Nú væri gott að kunna fuglamál. Hvínandi rafmagnsgítar skekur hrörlegan bílskur við Vatnsveituveginn. Næstum fullt tungl á aprílhimni – kvöld til að kveikja glóð í vindli. (185)

Bernskan er yrkisefni skáldsins Óskars Árna. Hann stiklar til dæmis á stóru í eigin bernsku í ljóðinu „Bergstaðarstrætið: Úr glötuðu handriti bernskunnar“ með smáprósum eða minningarbrotum sem fylgja hverju ártali, allt frá fæðingarári hans 1950 og fram á unglingsár 1963. En bernskan almennt er skáldinu einnig hugleikin, hversu brothætt hún er, saklaus, angurvær, falleg og stundum sveipuð ævintýraljóma. Það á til dæmis við um ljóðið um litlu stúlkuna sem hjúfrar sig upp að ljóðmælanda og hrýtur; um þríhjólið sem ljóðmælandi átti í æsku og lenti ofan í potti í lakkrísgerðinni og um litlu stúlkuna sem misskildi eitthvað og beit páfann í tærnar í stað þess að kyssa þær í opinberri heimsókn hans til Reykjavíkur. Í eitt skipti verður bernskan afar átakanleg, svo ekki sé meira sagt, en það er í Gazaljóðinu sem má telja eina ljóðið í safninu sem birtir einhvers konar pólitík með beinskeyttum hætti og heitir réttu nafni „Reykjavík að kvöldi 6. janúar 2009.“

Smáprósarnir í kaflanum „Truflanir“ eru sérlega efirminnilegir enda eitthvað afar sérstakt við þá sem erfitt er að henda reiður á. Þetta eru örsögur eða furðuprósar, eins og Jón Kalmann kallar þá, og einkennast af ákveðnum húmor sem daðrar við að vera fullkomlega absúrd. Það á til dæmis við um ljóðið „Þegar húsin fluttust úr stað“ og lýsir því hvernig hús borgarinnar taka upp á því að færast úr stað innan borgarlandslagsins. Ljóðið minnir á upptakt að dystópíu eða ólandssögu og ég ímynda mér að það gæti slegið lesendur rækilega útaf laginu að lesa um að Melabúðin væri komin upp í Ártúnsbrekku. Annað ljóð í sama kafla fjallar um safnara sem á við afar sérstaka söfnunaráráttu að stríða því hann safnar afklipptum nöglum skálda og rithöfunda. Hann stærir sig til dæmis af því að eiga heilt sett frá höfundi úr sömu viku og viðkomandi höfundur hlaut Íslensku bókmenntuverðlaunin. (159)

Ljóðasafnið má trúlega lesa í einum rykk en mig grunar að þetta sé bók sem fái að hvíla á aðgengilegum stað á heimilum lesenda. Að minnsta kosti ætla ég að hafa hana í nálægð við hægindastólinn minn svo ég geti gripið í hana við og við. Til dæmis þegar grámyglan er við það að bera mig ofurliði og ég þrái ekkert frekar en að gleyma mér í ljóðrænum og absúrd vangaveltum um hvunndaginn. Sumir segja að öll heimili eigi að eiga eintak af biblíunni, aðrir af Illíonskviðu, Passíusálmunum eða Egilssögu. Ég segi að öll heimili ættu að eiga eitt eintak af Reykjavíkurmyndum Óskars Árna svo að forvitnir lesendur geti kynnt sér lágstemmda töfra skáldskaparins. Ég leyfi mér að vísa í skáldið að lokum með þessum orðum: „og eiginlega ekkert meira um það að segja.“ (163)

Vera Knútsdóttir, 2018