Beint í efni

Ríólítreglan

Ríólítreglan
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Ríólítreglan er nýjasta bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur en hún hefur áður sent frá sér fjölda barnabóka og er meðal annars þekkt fyrir hinar bráðskemmtilegu bækur um Fíusól. Hér er sagt frá vinunum Nóa, Steini, Mónu, Gloríu og Digga en þau koma frá ansi ólíkum heimilum og aðstæður þeirra eru mismunandi eftir því. Heima hjá Nóa snýst allt um að sjá til þess að álfarnir sem halda til í húsi fjölskyldunnar séu sáttir og mamma Nóa er með þá á heilanum. Líf fjölskyldunnar er af þessum sökum oft nokkuð flókið og þau þurfa að standa í alls konar athöfnum og reglum sem álfarnir leggja til. Steinn er hins vegar alinn upp hjá afa sínum sem nú er orðinn aldraður og nýfluttur á hjúkrunarheimili. Frændi Steins átti að sjá um hann en hann er farinn til Kaupmannahafnar og hefur sjaldan samband. Steinn sér eiginlega um sig sjálfur þrátt fyrir að vera bara fjórtán ára og er orðinn ansi góður passa að ekki komist upp um hann.

Móna býr með foreldrum sínum en pabbi hennar ferðast mikið. Þar sem mamma Mónu á við pillufíkn að stríða lendir heimilishaldið að miklu leyti á Mónu sem þarf líka að sjá um mömmu sína, á meðan pabbinn virðist lítið skipta sér af. Gloría og Diggi koma svo úr allt öðrum veruleika. Þegar Gloría var sex ára og Diggi þriggja flúðu þau ásamt móður sinni frá Kólumbíu. Vopnaðir menn höfðu ráðist inn á heimili þeirra og myrt pabba barnanna en þau og móðir þeirra komust undan við illan leik. Mamma þeirra vinnur myrkanna á milli og rúmlega það til að sjá fyrir þeim og þau systkinin þurfa að vera mikið ein og bjarga sér sjálf.

Vinirnir fimm finna samastað fjarri vandamálunum í félagsmiðstöðinni. Þar vinnur Hrafn sem er í miklu uppáhaldi hjá krökkunum og hann hefur skilning á því að þau vilji dvelja þar löngum stundum. Í upphafi sögunnar stendur til að krakkarnir fari ásamt Hrafni og fleirum úr félagsmiðstöðinni í ferð í Landmannalaugar. Skömmu fyrir ferðina hverfur Hrafn hins vegar sporlaust. Krakkarnir eru sammála að það sé eitthvað furðulegt við hvarf hans en enn furðulegra verður það þegar maður að nafni Trausti birtist og gengur í öll verk Hrafns. Hann býr yfir einhverjum mögnuðum sannfærðingakrafti og fær þau til að samþykkja að koma með í ferðina þótt enginn þekki hann í raun vel. Nokkur hópur barna leggur af stað en fljótlega fer að heltast úr lestinni. Þegar börnin fimm eru þau einu sem eftir standa er Trausti sáttur. Án þess að átta sig almennilega á því hvað er að gerast eru þau leidd inn í álfheima þar sem álfadrottning vill bjóða þeim að vera. Spurningin er hvort þetta sé boð sem hægt er að afþakka. Börnin þurfa þú að gera það upp við sig hvort lífið utan álfheima sé þess virði að snúa aftur í og sumir eru sannfærðari en aðrir.

Samskipti álfa og manna eru gamalkunnugt umfjöllunarefni sem við þekkjum flest úr þjóðsögunum. Nokkuð vinsælt er að þessar þjóðsögur séu notaðar í barnabókum og ekki að furða því þetta eru ævintýralegar og spennandi sögur sem eiga ákveðinn sess í hugum margra. Í raun má segja að í Ríólítreglunni sé unnið með allra hefðbundustu minnin úr álfasögunum, álfamær sem lokkar ungan mann með sér inn í bergið, menn sem er boðið dvöl með álfum með ákveðnum ströngum skilyrðum og álfa sem eru ósáttir við byggingaframkvæmdir manna og eyðileggja vinnutæki. Álfarnir eru sömu tegundar og álfarnir úr þjóðsögunum og yfir sögunni hvílir þessi ævintýralegi þjóðsagnaandi. Hins vegar er umfjöllunin um álfa einnig brotin upp á mjög skemmtilegan og sannfærandi hátt með mömmu Nóa, eða kannski öllu heldur viðbrögðum fólks við henni. Hún er fullkomlega handviss um að álfar og huldufólk séu til og er í stöðugum samskiptum við þá. Samskipti hennar við pabba Nóa og aðrar persónur í sögunni sýna hins vegar hvernig fólk sem er ekki eins sannfært upplifir álfa og fólk sem trúir á álfa.

Ríólítreglan er bæði fyndin og grípandi saga. Blandan af álfasögum og hversdagsleika heppnast mjög vel, ekki síst vegna þess að mismunandi viðhorfum er komið á framfæri þótt lesandinn viti auðvitað að tilvist álfa fari ekki á milli mála. Sögulegum staðreyndum og þjóðsögum er reglulega fléttað inn í frásögnina og er þannig gert að það verður ekkert kennslubókarlegt við það heldur verður eðlilegur partur af sögunni. Ef kafað er undir yfirborðið er Ríólítreglan þó einnig sagan af því hvernig mismunandi aðstæður í lífi fólks geta styrkt það á mismunandi hátt og hvernig reynsla okkar getur veitt okkur styrk. Gildi samvinnu og samheldni verða lesandanum einnig ljós. Hér er fjallað um góða og slæma valkosti og möguleika, þrátt fyrir gylliboð álfanna um betra líf átta börnin sig á því að auðvelda leiðin er ekki alltaf besta leiðin og sá valkostur sem virkar bestur í fyrstu hefur kannski ýmislegt óvænt og óæskiilegt í för með sér.

María Bjarkadóttir, desember 2011