Beint í efni

Rökkurbýsnir

Rökkurbýsnir
Höfundur
Sjón
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það eru undarleg teikn á lofti, jarðskjálftar skekja byggðir og bú, dögum saman, ísbirnir ganga ítrekað á land og ókennilegur sumarhiti leikur um andlit. Slíkt getur aðeins boðað stórtíðindi, líklega ill. Jónas Pálmason hefði ekki átt í vandræðum með að túlka þessa váboða og vægja engum, og henda á lofti ýmsa gripi til varnar slíkum rökkurbýsnum, þó ekki hafi hann fundið gullgerðarsteininn sem hann leitaði í hrafnshausum, Bezóarinn, lífsins stein.

Það er á svo margt að líta í nýjustu skáldsögu Sjóns, Rökkurbýsnum, að göggu finnst hún næstum ofurliði borin. Líkt og undanfarið er Sjón hér að fást við það sem kallað er söguleg skáldsaga, en sem fyrr birtist það hugtak í alveg nýju formi í verki höfundar sem notar söguna sem einskonar svið fyrir sínar margháttuðu kannanir á hugmyndum og heimsmyndum. Rökkurbýsnir gerist á sautjándu öld og segir frá Jónasi Pálmasyni sem kallaður er hinn lærði. Hann er fjölfræðingur mikill, náttúruvísindamaður og vel lærður í lækningalistum, auk þess að kunna góð skil á hinu yfirnáttúrulega. Sagan gerist á stuttu tímabili í lífi hans, nánar tiltekið á árunum 1635-1639, í kjölfar útlegðardóms sem hann hlaut af völdum undirróðar óvildarmanna sinna. Jónas er dæmdur fyrir galdra, en í ljós kemur að málaferli gegn honum eiga sér aðrar og skuggalegri rætur. Eins og gengur flakkar þó frásögnin fram og til baka í tíma og við kynnumst uppvexti Jónasar og upphafi fróðleiksfýsnar hans og lærdóms, en honum er lýst þannig að hann hafi það sem í dag er kallað ljósmyndaminni.

Bygging sögunnar minnir dálítið á völundarhús, bókin virkar næstum eins og rammafrásögn eða bréfasaga - án þess þó að vera nokkuð slíkt. Eftir stuttan inngang um (neikvæð) viðbrögð hins ofurhetjulega Lúsifers við nýjasta uppáhaldi guðs, manninum, er lesanda hent inn í sundurslitin minningarbrot Jónasar, sem dvelst úti á lítilli eyju í útlegð sinni. Honum tókst aldrei að komast úr landi og því er honum holað niður þarna, einum með minningum sínum. Í næsta hluta, sem gerist ári síðar, er fyrstu persónu frásögnin orðin heillegri, og nú segir frá því að kona hans kemur til hans og saman þreyja þau þessa einangrun, Jónas með hugsunum sínum og kenningum um samhengi hlutanna og furður tilverunnar, sem Sigríður kona hans svarar með orðunum: „Það er þessi þvættingur sem kom okkur hingað” (65). Hér er frásögnin aðgengilegri og lesandi þarf ekki að ríghalda sér í síður bókarinnar til að hanga með í beygjum. Í þriðja hluta breytist frásagnarhátturinn í þriðju persónu frásögn sem segir frá björgun Jónasar og ferð hans til Kaupmannahafnar að leita sýknu í máli sínu, en þar kemur fræðimaðurinn Óli Worm til sögunnar. Enn breytist tóntegundin og er hér á allan hátt um mun léttari og leikandi frásögn að ræða, sem stöðugt er stungin kímni - og hlátri. Nú er lesandi kominn inn að miðju völundarhússins og getur glatt sig á því að hafa komist alla leið. Á sama hátt fjarlægist hann Jónas, stendur dálítið utan við persónuna og kynnist henni uppá nýtt þannig. En ferð Jónasar - og lesandans - er ekki lokið, það þarf að finna leið út úr byggingunni á ný. Í fjórða hluta erum við aftur stödd á eyjunni með Jónasi og hér kemur í ljós uppspretta ofsókna gegn honum: Jónas sagði óþægilegan sannleika um yfirmenn og fyrirmenni meðan aðrir þögðu. Í síðasta hlutanum erum við síðan á ný komin á kaf í innri hugsanir Jónasar, minningarbrot og sundurlausar hugsanir í anda hins móderníska stíls sem nefnist vitundarflæði. Hér þjónar þetta flæði þó öðrum tilgangi, þeim að byggja upp - og soga lesandann inní - þá ríku tilfinningu fyrir samhengi ólíkra hluta sem sagan fjallar um. Og svo endar þetta alltsaman á litlum og ævintýralegum eftirmála, í anda formálans, og loks einskonar fótnótu.

Líkaminn er, sem fyrr í verkum Sjóns, fyrirferðarmikill og í anda tímabilsins er mikið um ‘grottesku’ (sem fangar ekki aðeins nútíma-fræðihugtakið gróteska, heldur nær einnig utanum gotneskar tilvísanir); draugur kúkar hafsjó af saur yfir draugabana sína („fossaði niður af honum flest af þeim viðbjóði sem tilheyrir mannlegri búsetu: úrgangur manna og búpenings, saur og hrossatað, lambaspörð, fúlegg og dýrabein, lúsugir fuglshamir, ungbarnaskita og fiskslóg, dauðra manna fataleppar og útferð alls konar” (90)), kynnautnir ýmsar eru aldrei langt undan, né heldur hinar ýmsu (ó)vættir lagar, láðs og lofts sem stinga sér niður í textann hér og þar og munu rekja rætur sínar til fræðirita Jóns nokkurs Guðmundssonar lærða, en sá var uppi á sautjándu öld og er fyrirmynd Jónasar (þó ekki sú eina, finnið sjálf út hverjar hinar voru). Til að vega upp á móti hinu líkamlega er einnig heilmikið af hinu andlega, en trúarbragðaátök þessa tíma eru mjög til umfjöllunar og ljóst að Jónas er nokkuð hallur undir pápísku. María guðsmóðir birtist til að mynda í sérlega áhrifamiklu atriði úr æsku Jónasar.

Inn í þessa byggingu, sem er svo fimlega ofin en þó svo sláandi einföld, fléttar höfundur heimsmynd endurreisnarinnar, enn blessunarlega ómengaða af upplýsingunni (sem eyðilagði allt). Allt á sinn stað í sköpunarverkinu, hlutverk, stund og (ævi)sögu. Og allt hangir þetta saman í flóknum og á stundum ógagnsæum vef sem er strengdur yfir heiminn allan og himinhvolfin. Þessi tilfinning fyrir samhengi hlutanna kemur strax fram í fyrsta hlutanum er þar rifjar Jónas upp kynni sín af lækningalistum, sem aðallega snerust um kvenmansbelgi. Jónas hefur lesið helstu lækningarit og man þau nákvæmlega svo þegar hendur hans (en þarna er hann ennþá ‘bara’ barn) fara innundir klæði kvennanna þá kallar hann bókina fram í hugskot sitt „svo hún lagðist við nefbeinið og lá þar opin, vinstri blaðsíðan var í vinstra augnlokinu og hægri blaðsíðan í því hægra.” Svo flettir hann bókinni uns hann kemur að meini sem fellur að snertingu hans: „Þannig las ég saman bók og konu uns féllu saman í eitt” (25). Á sama hátt fellir Sjón bók sína og heimsmynd sautjándu aldar í eitt, hér er skapaður heimur sem lesandi er leiddur inní, heimur sem í fyrstu er dálítið erfitt að ná áttum í en verður fljótlega ljóslifandi fyrir augum hans, minningu og snertingu við bókina. Með þessu móti hlýtur lesandi að upplifa hvernig skynjun hans rennur saman við sögu Sjóns, ekki síst í krafti tungumálsins sem er sjálfbær samsuða tíðarandans og stílbragða skáldsins. Sem fyrr sýnir höfundur hversu vel honum lætur að skapa þrívíðar veraldir hugmynda, tungumáls og fyrirbæra; lesandi getur staldrað við hvar sem er, litið í kringum sig og áttað sig á helstu kennileitum áður en hann heldur áfram ferðinni dýpra inn í tilveru sem í dag er næsta fjarlæg, en þó fyllilega nærtæk meðan frásögnin heldur áfram að grafa sig inní hugskotið, löngu eftir að að lesandinn hefur verið leiddur á ný út úr bókinni.

Rökkurbýsnir er hugvitsamlega smíðað og fallegt verk sem markar mikilvæg spor í feril rithöfundarins Sjóns og staðfestir stöðu hans sem helsta fulltrúa undra og dýrða í íslenskum skáldskap. Enn á ný er sköpuð lestrarreynsla sem er ævintýri líkust og lesandi óskar sér að endist sem lengst.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008