Beint í efni

Saga af bláu sumri

Saga af bláu sumri
Höfundur
Þórdís Björnsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það var dálítið merkileg upplifun fyrir mig að lesa bók Þórdísar Björnsdóttur, Sögu af bláu sumri, því þar er fjallað um unga konu sem ákveður að dvelja eitt sumar í húsi nýlátinnar ömmu sinnar, en þar hafði hún dvalist heilmikið í æsku. Þegar ég las bókina var amma mín einmitt nýdáin, en hjá henni er ég að hluta til alin upp. Því þarf ekki að koma á óvart að sagan höfðaði nokkuð sterkt til mín og hreyfði við mér.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Þórdís sent frá sér nokkurn fjölda bóka, þrjár ljóðabækur og eina prósabók sem hún samdi á ensku í samvinnu við eiginmann sinn Jesse Ball. Saga af bláu sumri er því hennar fimmta bók og í raun fyrsta skáldsaga. Verk Þórdísar einkennast nokkuð af einhverskonar gotnesku eða einfaldlega hryllingi og búa jafnframt yfir samblöndu fantasíu og fegurðar. Saga af bláu sumri er þó fremur raunsæ, fantasían birtist í vangaveltum um líf eftir dauðan og draugagang, en fram á unglingsár upplifir sögukona ýmiskonar draugagang, bæði í húsi ömmu sinnar og annarsstaðar. Þannig er fyrsti hluti bókarinnar helgaður minningum um ömmuna, og tengsl stúlkunnar við hana, en amman var lengst af ekkja, afinn deyr áður en sögukona okkar fæðist. Hér er sleginn nokkuð hefðbundinn tónn minninga, en þó án allrar væmni og ævinlega með nokkuð dularfullum undirtónum. Þeir ágerast þegar í ljós kemur að sögukonan á við hjartatruflanir að stríða sem hún hefur engum sagt frá og því fær lesandi fljótt á tilfinninguna að líf hennar hangi á bláþræði, sé jafnvel á einhverjum mörkum. Þetta verður enn meira áberandi þegar í ljós kemur þráhyggja hennar, en fyrir utan minningarnar um ömmuna gengur sagan útá það að við komuna sér sögukonan unga stúlku í þorpinu og heillast svo af fegurð hennar að hún fylgir henni eftir:

Ég velti fyrir mér hvort kjörbúðin væri enn á sínum stað því ég hafði alveg gleymt að líta eftir því þegar ég gekk í gegnum bæinn úr rútunni daginn áður. Stúlkan sem ég sá á leiðinni hafði fangað alla athygli mína. Eftir á að hyggja þótti mér í raun merkilegt að ég skyldi hafa gengið rétta leið heim að húsinu en ekki ráfað eitthvað út í bláinn eftir að hún hvarf mér sjónum.

Hún var á mínu reki og ég hafði séð hana koma út úr gamla Klukkusafninu um sexleytið. Aðra eins fegurð hafði ég aldrei augum litið. Þessi stúlka var algjörlega einstök í mínum eigin heimi, þeirri veröld sem aðeins ég og enginn annar hafði aðgang að, og gæti aldrei hlotið aðgang að, jafnvel þótt ég óskaði þess sjálf. Í mér vaknaði tilfinning sem ég hafði áður kynnst í lífinu, þegar eitthvað heltók mig og fékk mig til að vilja taka mikla áhættu, niðurlægja mig eða fórna einhverju dýrmætu. Í flest skiptin hafði þetta einfaldlega verið löngun til að breyta hversdagsleikanum í eitthvað annað.

Einu sinni var ég stödd uppi á fjórðu hæð í hárri byggingu. Þar stóð ég nærri stigahandriðinu og fylgdist með ungum hjónum leiða lítið barn á milli sín. Skyndilega greip mig óstjórnleg löngun, eða kannski fremur dýrsleg hvöt, til að grípa barnið eldsnöggt og kasta því yfir handriðið.

Ég sá þetta alveg fyrir mér - ég myndi hlaupa að þeim, fleygja barninu niður, og fyrr en varði lægi það fyrir neðan í blóði sínu. Allt myndi þetta gerast á einu örstuttu andartaki en samt sem áður kollvarpa allri tilverunni.

Slíkur er máttur eins andartaks og mér fannst gott að vera minnt á það öðru hverju. Samt hræddist ég líka stöðugt að láta einhvern daginn undan þessari hvöt og gera eitthvað skelfilegt. (33-34)

Þessi lýsing teiknar vel upp það andrúmsloft sem Þórdís kallar fram í bókinni, en þar blandast saman tilfinning fyrir þráhyggju og ákveðnu ógnarjafnvægi; undir kyrru yfirborði er eitthvað ólgandi sem gæti brotist út hvenær sem er. Vinnustaður ókunnu stúlkunnar, Klukkusafnið, er líka mikilvægt í þessu sambandi, en þar er geymdur fjöldi klukkna sem allar eru stilltar á ólíka tíma og slá því ótt og títt: “stundum ímyndaði ég mér að húsið allt væri ein stór og lifandi skepna sem ég væri stödd innan í, tikkið væri ákafur hjartslátturinn” (44). Hér fellur stúlkan með hjartsláttartruflanirnar saman við húsið, en auk þessa kemur við sögu undarlegur maður við höfnina sem hún spyr hvað klukkan sé, og sem svarar eftir einkennilega langan tíma.

Í ljós kemur að sú sem vinnur á safninu er þar til að létta undir með gömlum manni og því eiga stúlkurnar tvær það sameiginlegt að tengjast gömlu fólki. Með þessu öllu, klukkum og ólíkum kynslóðum dregur Þórdís upp átakalausa en þó áhrifamikla mynd af tímanum, eða eiginlega einskonar tímaleysi, sem síðan fléttast þessum ímyndum þráhyggju og óhugs. Kápumyndin undirstrikar þetta, en framan á bókinni er gömul ljósmynd af tveimur konum, andlit þeirra hafa verið þurrkuð út.

Saga af bláu sumri er fremur nett bók, hún er ekki mikil að umfangi og lætur lítið yfir sér. Þannig er hún hvorki neitt stórvirki né meiriháttar atburður, og einmitt í því felst gildi hennar. Höfundur færist ekki of mikið í fang eins og of algengt er í fyrstu skáldsögum, hún kann sér hóf og nær fullkomlega að stilla saman þá strengi sem þarf til að skapa eftirminnilega og áhugaverða sögu, sem er bæði staðfesting á þeim hæfileikum sem skáldkonan hefur þegar sýnt og gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007