Beint í efni

Saga: A Novel of Medieval Iceland

Saga: A Novel of Medieval Iceland
Höfundur
Jeff Janoda
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

I

Eyrbyggjasaga er helsta heimildin á bakvið sögulega skáldsögu hins kanadíska Jeff Janode, Saga (2005). Saga, líkt og titilinn gefur til kynna, gerist á víkingatímum, tímum fornsagnanna og lýsir valdabaráttu tveggja goða á Snæfellsnesi. Inn í átökin blandast svo daglegt líf almennings. Janoda hefur kynnt sér miðaldir í Norður-Evrópu um árabil og í inngangi kemur fram að hann álítur Íslendingasögur sögulegar heimildir um þennan tíma og því nefni ég Eyrbyggjasögu sem heimild, þó sjálf sé ég fremur skeptísk á að sjá fornsögurnar í þessu ljósi. Ekki ætla ég mér þó að hafna því að sögurnar hafi ákveðið heimildagildi, um hugarheim og hugmyndir, jafnvel siði og daglega háttu, enda álít ég svo að í öllum skáldskap felist fullt eins mikil þekking og í fræðum, en tel þó vafasamt að taka heimildagildi fornsagnanna of bókstaflega eða hátíðlega. Það er einmitt þessi hátíðleiki sem er helsta vandamálið í sumum þeirra skáldverka sem byggja á Íslendingasögum. Hann birtist greinilega í Sögu Janoda og er óþarflega skaðlegur annars ágætri skáldsögu. Þess má geta að sagan er fyrsta skáldsaga höfundar, sem hefur áður skrifað vísindasmásögur, og það skýrir kannski að einhverju leyti það að höfundur bregður ekki meir á leik með heimildir og / eða fyrirmyndir.

Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að hér sé margt vel gert. Sérstaklega tekst höfundi vel upp í því að skapa heim sem lesandi getur ekki annað en horfið inní, heim sem er svo eftirminnilegur að þegar lestrinum var lokið stóð ég mig að því að velta hálfmeðvitað fyrir mér hvað væri nú að frétta af hinni og þessari persónunni. Ekki spillti fyrir að hluti sögunnar gerist á Bólstað í Svanfirði, en ég heimsótti einmitt Bólstað í Bárðardal og las þar í bókinni.

Sagan hefst á lýsingu á því þegar frímaðurinn Úlfar er að grafa nýfætt og illa bæklað barn sitt í jörðu langt frá mannabyggðum. Dauði sonarins er ekki aðeins sorglegur fyrir föðurinn heldur einnig praktískt áfall, því ef hann eignast ekki son sem verður þá fullfrjáls maður og getur erft Úlfarsfell, bæ Úlfars, gengur landið aftur til fyrrum eiganda Úlfars eða afkomenda hans. Eigandinn heitir Þorbrandur, en synir hans eru miklir vinir Úlfars og tveir þeirra fylgja honum í þessa erfiðu för. Hér sýnir Janoda strax heilmikla fimi við að kynna bæði sögusvið og samfélag, samhliða því að leggja grunninn að atburðarás bókarinnar. Því síðar kemur í ljós að Þorbrandur ætlar sér mikla hluti í krafti verndar goða síns, Snorra, jafnhliða því að hindra annan goða, Arnkel, í því að ná of miklum völdum, en land Úlfars er einmitt keypt af föður Arnkels. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum plottum í sögunni, en aðalplottararnir eru þessir þrír, Þorbrandur, Snorri og Arnkell, sem síðan spila með fólk eins og þeim sýnist, svona ekki ólíkt og í sumum tegundum lögreglu- og njósnareyfara, þegar enginn veit hvað hinn ætlast fyrir. Við fylgjum Úlfari heim og komumst þar í kynni við helsta óvin hans, Þórólf sem hefur viðurnefnið halti eða ‘lamefoot’. Sá er gamall víkingur, svoli mikill og kraftakarl, sem hefur sóað eigum sínum - og þarmeð sonar síns Arnkells goða - í drykkju, en á milli þeirra feðga er fremur stirt. Einnig hittum við fyrir konu Úlfars, Auln, en hún er skyggn. Og þannig er lesandinn hægt og hægt kynntur fyrir fleiri og fleiri persónum, jafnframt því sem innsýn er gefin í siði og hefðir, trúarsiði og hjátrú, og daglegt líf eins og vinnulag, fatnað og svo auðvitað veðurfar og árstíðaskipti. Sá hluti er þó ekki eins fyrirferðamikill og ætla mætti, en þar kemur líklegast til auga útlendingsins, en Íslendingar eru vanir því að landið og veðrið leiki í það minnsta eitt af aðalhlutverkunum í sögulegum skáldskap.

Eins og áður sagði er heildarmyndin góð og höfundur skapar úr þessum heimi bæði sannfærandi og eftirminnilegt drama. Helsta vandamálið er þó sá hátíðleikablær sem á stundum verður yfirgnæfandi, sérstaklega þegar réttarkerfinu er lýst - en sem betur fer sýnir sig að það er ekki eins alfullkomið og virðist í fyrstu. Þannig mætti segja að þó vissulega sé nauðsynlegt að höfundur beri vissa virðingu fyrir viðfangsefni sínu, þá er einnig mikilvægt að sú virðing beri verkið ekki ofurliði, en á stundum fannst mér gæta þessa í Sögu. Þetta var þó aðallega í fyrstu, en eftir því sem á leið söguna og hún varð reyfarakenndari og flóknari - draugagangurinn meiri og átökin heiftarlegri - dró úr þessum tón og sagan sjálf tók völdin.

II

Fyrir þá sem nenna að lesa þetta langt langar mig að velta fyrir mér nokkrum fleiri atriðum sem varða sögulegan skáldskap um miðaldir á Íslandi. Í grein minni um verk Vilborgar Davíðsdóttur hér á Bókmenntavefnum, velti ég fyrir mér nokkrum öðrum sögulegum skáldsögum sem hafa íslenskar fornsögur eða íslenskan fornsögutíma að fyrirmynd, og tók sem dæmi skáldsögu Jónasar Kristjánssonar, Veröld víð (1998), Haustgrímu Iðunnar Steinsdóttur (2000), Grænlendinga Jane Smiley (1988, á íslensku 1991) og Eiriksdottur eftir Joan Clark (1994). Það sem vakti athygli mína var að hvort sem það virtist ætlunin eða ekki taka öll þessi verk á sig form og andblæ afþreyingarsagna og virka eins og reyfarar, en það sama má segja um Sögu Janoda. Eina dæmið um skáldverk sem lýsir íslenskum miðöldum og sleppur undan þessu - ef það er þá eitthvað að sleppa frá - er skáldsaga norðmannsins Thorvald Steen um Snorra Sturluson, Undir svikulli sól. Og það merkilega er að sú bók er ekki sérlega vel heppnuð, hún er of þunglamaleg og hátíðleg og alls ekki nógu spennandi, hvorki sem spennusaga - en sagan lýsir aðdraganda morðsins á Snorra - né sem skáldverk. Hún stenst til dæmis að mínu mati engan veginn samanburð við Sögu. Annað sem ég tók eftir þegar ég leit yfir erlendar umfjallanir um báðar þessar bækur var hversu mikla áherslu gagnrýnendur leggja á að í verkunum sé sett andlit á söguna, það er, að hér sé verið að skapa persónur úr ópersónulegum heimildum. Og þar kem ég aftur að þessu vafstri með heimildir og skáldskap. Því málið er einmitt að fyrir mig, sem hef ekkert sérstaklega kafað ofaní fornsagnaarfinn, en hef þó alist upp við þessar sögur eins og allir Íslendingar, er þessi miðaldasaga okkar alls ekki ‘andlitslaus’. Snorri, til dæmis, er fyrir mér bara heilmikil persóna og skáldsaga Steen bætti nákvæmlega engu þar við. Á sama hátt finnst mér Saga Janoda ekkert endilega bæta miklu við Íslendingasögurnar eða Eyrbyggju, en það breytir ekki því að hún er vel gerð og skemmtileg og á fullt erindi sem sögulegt skáldverk, á eigin forsendum.

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2005