Beint í efni

Sálir vindsins, Lukkuriddarinn og Flúraða konan

Sálir vindsins, Lukkuriddarinn og Flúraða konan
Höfundur
Mons Kallentoft
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Sálir vindsins, Lukkuriddarinn og Flúraða konan
Höfundur
Jan-Erik Fjell
Útgefandi
Björt
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Sálir vindsins, Lukkuriddarinn og Flúraða konan
Höfundur
Mads Peder Nordbo
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Glæpur og refsing eru augljóslega viðfangsefni spennusagna af ýmsu tagi, en á síðari árum hafa þessi sívinsælu fyrirbæri tekið nokkrum breytingum í samfélagi þar sem ekki er alltaf svo augljóst hver eða hvar mörk hins glæpsamlega liggja. Þetta á til dæmis við um þær sveiflur sem hafa verið í alþjóðlegum fjármálaheimi og hagkerfi í kjölfar aukinnar áherslu á einkavæðingu. Einnig hafa knýjandi spurningar um kynferðisafbrot af ýmsu tagi vakið umræðu um vægi refsinga í þeim málaflokki, að ekki sé minnst á sönnunarbyrði. Loks hefur staða vitna verið vinsælt umfjöllunarefni, og þá með áherslu á óskeikulleika minninga – og þátt gleymskunnar.

Það er athyglisvert að sjá hvernig glæpasagnahöfundar eru í auknum mæli að velta fyrir sér álitamálum af þessu tagi og nýta þannig form glæpasögunnar og stækka svið hennar á margvíslegan hátt, enda eru þetta málefni sem hafa víða skírskotun bæði fyrir einstaklinga og samfélag.

Í Sálum vindsins eftir Mons Kallentoft er tekið á einkavæðingunni, en í sögum hans er iðulega fjallað um ýmis siðferðisleg álitamál, eða réttara sagt, mörk hins siðferðislega og glæpsamlega. Þegar gamall maður deyr á hjúkrunarheimili vakna spurningar um einkarekstur, en heimilið hefur, líkt og fjöldi annarra heilbrigðisstofnanna verið selt til einkafyrirtækis. Það fyrirtæki hefur síðan grætt mikla fjármuni með markvissum niðurskurði í rekstrinum og ætlar nú að selja stofnanirnar áfram til risafyrirtækis í Bandaríkjunum. Lát gamla mannsins kemur róti á þessi áform, sérstaklega þegar kemur í ljós að það sem virtist vera sjálfsmorð er það alls ekki.

Malin Fors hangir þurr í þessari bók, en drykkjuvandamál hennar hafa verið áberandi í fyrri bókunum um hana. Hún er sem fyrr ákveðin og snjöll, þó samskipti séu kannski ekki hennar sterkasta hlið, en sambandið við dótturina er alltaf erfitt. Dóttirin starfar á hjúkrunarheimilinu þar sem gamli maðurinn dó og er uppfull af góðum áformum, sem eru kannski ekki alltaf raunsæ. Við sögu koma einnig auðjöfurinn sem keypti reksturinn og ást hans á dóttur sinni, sem hann vill allt gera fyrir. Þrá hans eftir að verja tíma með dótturinni og auðga líf hennar er stillt upp sem mótvægi við græðginni. Þessi ást er hinsvegar afmörkuð við eina manneskju, á meðan starfsfólk heilbrigðisstofnananna sem hann rekur hefur helgað líf sitt umönnun þeirra sem ekki geta hjálpað sér sjálfir, eins og til dæmis bróðir Malinar sem er einhverfur.

Í ljós kemur að gamli maðurinn átti frekar erfitt samband við börn sín, en var hinsvegar náinn dótturdóttur sinni. Þau koma öll við sögu, svo og starfsfólk heimilisins og samstarfsfólk Malinar, en hún er í stöðugri samkeppni hennar við unga nýja lögreglukonu. Stíllinn er sem fyrr knappur og sem fyrr heyrist rödd hins dauða sem talar við Malin.

Þó sagan sé að mörgu leyti áhugaverð eru þessi atriði orðin svolítið útjöskuð og full ástæða til að flikka aðeins upp á formúluna. Sem glæpasaga er þetta ágætis lesning en ákveðin þreyta er farin að gera vart við sig, sem er synd í ljósi þess að fyrri bækurnar hafa verið afar frambærilegar, og sú síðasta, Englar vatnsins, til dæmis sérlega athyglisverð.

Lukkuriddarinn eftir Jan-Erik Fjell er fimmta bókin í seríu sem hefur lögreglumanninn Anton Brekke sem aðalhetju. Þetta er þó sú fyrsta sem birtist á íslensku. Sagan gerist að hluta til í heimabæ hans, Fredrikstad, og að hluta til í Las Vegas. Það sem sameinar þessa staði er amerískur kaggi, en á verkstæði í Fredrikstad finnast leifar af mannshönd í undirvagni bifreiðarinnar. Skömmu síðar finnst kona látin, myrt, en í ljós kom að bíllinn var geymdur í bílskúr hennar. Hún bjó á býli fyrir utan bæinn og hafði verið alger einfari, utan að hafa samskipti við nágrannahjón á næsta bæ. Grunurinn beinist fljótt að ungum manni sem vann hjá henni, en hann er fyrrum smáglæpamaður og því auðvelt skotmark. Sonur nágrannahjónananna kemur líka við sögu, en hann er fasteignasali sem einnig á við spilafíkn að stríða. Hann var í uppáhaldi hinnar myrtu og er einkaerfingi hennar.

Las Vegas sagan gerist á tveimur tímaskeiðum, annarsvegar á áttunda áratugnum og hinsvegar á sama tíma og málið með bílinn. Á áttunda áratugnum er norsk stúlka að leita að frægð og frama og endar sem hjákona eiganda stærsta spilavítis borgarinnar og í nútímanum er gamall maður myrtur og lögreglumaður sættir sig ekki við að finna ekki lausn á málinu.

Anton Brekke er spilafíkill og því er það ekki alveg svo heppilegt að senda hann til Las Vegas, en þangað fer hann samt, því þangað liggur slóð bílsins. Þar koma svo í ljós ýmsar hliðar málsins sem varða völd og peninga, ástir, tryggð og svik. Við sögu kemur einnig lífvörður og aðstoðarmaður spilavítiseigandans, en sá hafði verið hermaður í Víetnam og á sér dramatíska sögu.

Þessi samsláttur bandarískra átakamála, uppgangsins í Las Vegas og þeirri gerviveröld sem þar ríkir og ýmissa eftirmála Víetnam-stríðsins, og öllu einfaldari heimsmyndar norskrar smáborgar, er í sjálfu sér ágætlega vel heppnaður. Það er til dæmis mikill munur á því hvernig spilavítunum er lýst, en í Fredrikstad er þetta smá klúbbur sem Anton þekkir vel, meðan Las Vegas er glamúrheimur sem hefur mannslíf að engu. Jafnframt eru dregnar upp samlíkingar, eins og á milli fasteignasalans sem gengst upp í því að vera ríkur og fínn, og reynir að skapa sér eigin glamúrveröld.

Grænland er að verða meira áberandi í bókmenntum, enda ekki nema von í ljósi þess hve norðrið almennt nýtur mikilla vinsælda. Grænlenskt samfélag er framandi, líka fyrir norðurlandabúa sem þekkja ekki mikið til menningar þessa lands á hjara veraldar. Það eru þó helst Danir, enda hafa þeir verið duglegir að skrifa um Grænland undanfarið. Flúraða konan eftir Mads Peder Nordbo er dæmi um þetta, en höfundur hefur dvalið í Grænlandi. Sögumaðurinn er líka Dani, Matthew, fæddur á Grænlandi, sonur amerísks hermanns sem starfaði þar við herstöðina í Thule. Eftir slys sem olli dauða unnustu hans og ófædds barns flýr hann Danmörku og fær vinnu sem blaðamaður í Nuuk. Þegar lík finnst uppi á jökli vekur það upp vonir um stórfrétt og merkan fornleifafund, en svo hverfur múmían og lögreglumaðurinn sem gætti hennar er myrtur á mjög sérstæðan og blóðugan hátt og í ljós kemur að aðferðin er sú sama og í nokkrum fjörutíu ára gömlum morðum.

Matthew fer að grafast fyrir um málið og kemst í kynni við unga húðflúraða konu sem er nýkomin úr fangelsi, en hún hafði verið dæmd fyrir að drepa föður sinn. Fljótlega koma ýmis leyndarmál í ljós sem varða kynferðisofbeldi og þöggun með áherslu á valdbeitingu nýlenduherra.

Höfundurinn er mjög meðvitaður um að þessi hlið Grænlensks samfélags hefur verið nokkuð áberandi í umfjöllun um landið og menningu þess, en í upphafi er Matthew að hlusta á stjórnmálamenn deila, þar sem meðal annars er kvartað yfir því að þetta sé það eina sem fólk hugsi um þegar kemur að Grænlandi, misnotkun á konum og kynferðisglæpir.

Þetta er því ekki endilega verk sem skiptir sköpum, en sagan er vel upp byggð og áhugaverð, ekki síst fyrir persónurnar og þá sérstaklega flúruðu konuna sjálfa.

Fíkn og græðgi eru það sem knýr sögupersónurnar áfram í Sálum vindsins og Lukkuriddaranum, bæði lögreglufólkið og glæpamennina. Annarskonar græðgi er til staðar í Flúruðu konunni, en þar er áherslan á arf nýlenduhyggjunnar og kynbundið ofbeldi. Í fyrri bókunum tveimur leika peningar lykilatriði, enda fremur nærtækt málefni í heimi þar sem skilin á milli hinna auðugu og þeirra sem minna eða ekkert eiga verða æ víðtækari. Einnig er þar varpað fram siðferðislegum spurningum um hagnað, annarsvegar af niðurskurði í aðbúnaði sjúkra og hinsvegar af fíkn fjárhættuspilara. Í öllum þremur verkunum er gert í því að benda á að mörk sektar og sakleysis eru ekki alltaf skýr og sömuleiðis er varpað upp knýjandi spurningum um glæpi og refsingar.

úlfhildur dagsdóttir, maí 2018