Beint í efni

Sautjándinn

Sautjándinn
Höfundur
Lóa Pind Aldísardóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Samþáttun bókmenntategunda einkennir nálgun Lóu Pind Aldísardóttur í fyrstu skáldsögu hennar, Sautjándanum. Hér má finna þræði skvísubókmennta, spennusögu og vísindaskáldskapar, í bland við pólitíska ádeilu. Þetta myndar á stundum áhugaverða samfléttun en á hinn bóginn virkar sagan á köflum eins og hún þjáist af tilvistarvanda, þar sem enginn þessara þráða er nægilega sterkur til að bera hana uppi. Hinsvegar, og kannski einmitt þessvegna, er margt í sögunni sem kemur ánægjulega á óvart, því með því að daðra við þessi form án þess að nýta sér þau fyllilega tekst höfundi að ganga þvert á óhjákvæmilegar væntingar. Þannig skapast áhugaverðar mótsagnir innan textans og ennfremur óvænt endalok sögunnar.

Lóa Pind Aldísardóttir er vel þekkt fyrir störf sín við fjölmiðla og það er greinilegt að sú reynsla nýtist henni í þessari samsettu sögu sem er kannski fyrst og fremst einskonar ádeila á neyslusamfélag og græðgi - jafnframt því að vera ákveðinn óður til ánægjunnar sem felst í því að kaupa fallega hluti og umkringja sig slíkum. Sagan gerist í náinni framtíð og segir frá fjórum ólíkum vinkonum sem eru að undirbúa sig fyrir brúðkaup einnar þeirra, en hún er forríkur eigandi snyrtivörukeðju. Aðalsöguhetjan er lögfræðingurinn Ylfa, en hún blandast í ýmis pólitísk mál, bæði þau sem snerta vinkonuna og fyrirtæki hennar og svo innflytjenda- og stóriðjustefnu yfirvalda og þetta kemur allt inn á umræðu um stórfyrirtæki og valdastöðu þeirra. Ylfa er verslunarfíkill og lýsir á einum stað því sem hún kallar “kraftbirtingu neyslunnar” eftir velheppnaða ferð í verslunarmiðstöðina Skuggatorg sem risið hefur í miðbæ Reykjavíkur:

Sumir skilja ekki þessa kraftbirtingu neyslunnar. Til dæmis margir karlmenn. En tótalistinn ég, skynja hana inn að kviku. Og veit að næmir innkaupastjórar geta náð hæðum kraftaskálda. Undrið getur birst manni í formi flíkur. Segjum að ég finni bleikan kjól. Hann tendrar ókannaða stöð í hægra heilahveli, boðin berast með ljóshraða eftir taugum, augun taka að ljóma og handleggir lyftast í átt að dýrðinni. Ef hann reynist svo í mátunarklefanum draga athygli að kostum en frá göllum á borð við breiðar mjaðmir, síðuspik, verð ég þátttakandi í undrinu. Tótalistinn, þitt sjopparasjálf, er fullnægður. Kraftaverkið í búningsklefanum getur maður svo framkallað við ákveðnar aðstæður næstu vikur, mánuði og jafnvel ár. Það er þó háð fjölda frumsýninga. Takist manni að safna nógu mörgum tilefnum, með nýju fólki viðhelst frumsýningarljóminn. (203)

Þetta er ein af þeim lýsingum sem grípur vel tóntegund sögunnar þar sem leitast er við að stíga ógnarjafnvægi hreinnar íróníu og einhverskonar einlægni, en aðalpersónan Ylfa sameinar þetta tvennt ágætlega. Því miður tekst þetta ekki alltaf svona vel og í heildina hefði bókin mátt við styttingu, auk þess sem persóna Ylfu verður á stundum of mótsagnakennd til að virka sannfærandi. Sömuleiðis er sá hluti sem snýr að framtíðarmyndinni ansi gallaður, og það er að verða þreytandi að lesa vísindaskáldskap eftir íslenska rithöfunda (eins og til dæmis Andra Snæ Magnason og Hallgrím Helgason) sem sýna svo greinilega takmarkaða þekkingu á þessari bókmenntategund, og þá sérstaklega því sem hefur verið skrifað á síðustu áratugum. Hugmyndin um ofurvald stórfyrirtækja og fríríki þeim tengt er löngu orðið að klisju innan vísindaskáldskapar og hér er lítið gert annað en endurtaka hana.

En eins og áður sagði er líka margt vel gert. Stíllinn er liðlegur og sagan vel læsileg og það má skemmta sér ágætlega yfir því að kynnast þeim stöllum og uppátækjum þeirra, auk þess sem spennusagnahlutinn, sem er eiginlega einskonar njósnasaga, virkar vel og inniheldur sá hluti einna best heppnuðu kaflana, bæði kómíska og hressilega. Skvísubókmenntahlutinn, með tilheyrandi umfjöllunum um neyslumenningu er sömuleiðis nokkuð skondinn og sagan kemst verulega skemmtilega á skrið undir lokin, ekki síst vegna þess hversu vel tekst að koma lesanda á óvart - augljóslega er ekki hægt að fara nánar út í það hér, en lesendum bent á bókina sjálfa.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007