Beint í efni

Sekúndu nær dauðanum - vá, tíminn líður!

Sekúndu nær dauðanum - vá, tíminn líður!
Höfundur
Ingólfur Gíslason
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

„En þetta er svo óskáldlegt“ sagði einn mætur bókmenntamaður við mig þegar talið barst að bók Ingólfs Gíslasonar, Sekúndu nær dauðanum - vá, tíminn líður, og þá sérstaklega að sleiktum píkum og ríðingum sem koma fyrir í nokkrum ljóðanna. Vissulega er hægt að taka undir að ljóðlínur eins og: „þurrka sæðið af brjóstum í koddaver / snerir koddanum við“ og „lyfti pilsi / sleiki á þér píkuna / foreldrar í næsta herbergi“ úr ljóðinu „Brestir“ er ekki sérstaklega ‘skáldlegt’, en hvað er þá þetta ‘skáldlega’? Í orðum viðmælanda míns felst ljóslega einhver hugmynd um mælingu skáldskapar og skáldleika, sem á sérstaklega við um ljóð. Þegar nánar er að gáð er þó ekki auðvelt að ná handfangi á þessum skáldleika, en þar býr þó undir glögg sýn á tiltekna fagurfræði, sem væntanlega helgast af einhverskonar hefð og mætti einnig kenna við þokka eða jafnvel hrynjandi, allavega þurfa orð að raðast saman í einhverja samsetningu sem skapar áhugaverðar og hugvekjandi myndir og hugrenningatengsl.

En þessi umfjöllun er ekki vettvangur fyrir nákvæma úttekt og greiningu á skáldleika. Hinsvegar er þessi hugmynd um ‘skáldleika’ ákaflega nærtæk þegar ljóðabók Ingólfs er lesin, því eitt af því fyrsta sem blasir við er að hér er beinlínis verið að skrifa gegn hefðbundnum hugmyndum um skáldleika. Þetta er ljóst bæði af setningum eins og þeim sem vitnað er til að ofan, viðfangsefni ljóðanna og heildarhönnun sjálfrar bókarinnar. Líkt og með fleiri bækur frá skáldum sem gefa út undir merkjum Nýhil er hönnun bókarinnar grípandi, stærð og áferð kápu er smart og síðan eru gerðar allskonar tilraunir með uppsetningu ljóða, og ber þar sérstaklega að geta tveggja ‘myndasögulegra’ karlmannsmynda sem birtast reglulega eins og stef við hin ljóðin. Ljóðin sjálf eru síðan uppfull af vangaveltum um bókmenntir og mat á þeim, eins og kemur ljóslega fram í ljóðinu sem vitnað er til aftan á kápu, „Kenning mín um bækur“ sem hljóðar svo:

að þær séu runkhæfar
grátbólguvaldandi
kviðarholsverkjandi
lífsumbreytandi
tortímandi & uppbyggilegar
taktlausar & drynjandi
þetta er bara kenning
takið henni skrækjandi
opnið gáttirnar
opnið buddurnar

kaupið mig

Önnur ljóð eru sett upp í líkön, eins og „Kæri ljóðrýnandi“ snemma í bókinni, en þar er búið að merkja í viðeigandi reiti sem einskonar gátlista fyrir greiningu, og nafnlaust ljóð undir lok bókarinnar, en þar er búinn til kvarði til að mæla meginþætti og temu bókarinnar.

Þessi andspyrna gegn hefðbundinni fagurfræði skáldleika er reyndar eitthvað sem finna má í verkum fleiri skálda sem kenna sig við Nýhil og tengist öðru áberandi einkenni verka þeirra, sem líka birtist í bók Ingólfs, en það er endurnýtingin eða það hvernig orð annarra eru felld inn í textann, ýmist beint eða með útúrsnúningi. Þannig kom það blásaklausum gagnrýnanda hressilega á óvart þegar hún las athugasemdasíðu aftast í bókinni, en þar kemur fram að orðin „Markmiðið er að vera ögrandi og nokkuð róttækur, hæfilega grófur en umfram allt svalur“ eru fengin að láni úr ritdómi eftir Úlfhildi Dagsdóttur.“ Ekki hafði nefnd Úlfhildur kannast neitt við línuna, sem birtist framarlega í fyrsta ljóði bókarinnar, en þó tekið til þess að þarna sýndi höfundur að hann gæti gert grín að sjálfum sér. Grínið reyndist svo beinast annað...

Fyrr á árinu gaf Ingólfur út ljóðabókina Handsprengja í morgunsárið í félagi við Eirík Örn Norðdahl, en ljóðin voru öll samansett úr tilvitnunum í þekkta einstaklinga, einungis forminu var breytt með því að setningar voru settar upp og slitnar í sundur á það sem hefur hér verið kallað skáldlegan hátt. Þessi útgáfa gekk kannski einna lengst í þessum textaleik, en af öðrum má nefna ævisögur Hannesar Hólmsteins í meðförum Óttars Norðfjörð og mörg ljóða Eiríks Arnar, nú síðast í ljóðabókinni Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum!

Í bók Ingólfs er að finna nokkur dæmi um tilvitnanir, ljóð Jóhanns Sigurjónssonar, „Sofðu unga ástin mín“, gengur ljósum logum um bókina, Steinn Steinar er líka áberandi (líkt og í Fönixi Eiríks Arnar reyndar) og auk skálda má nefna mjög fyndna úrklippu úr lýsingu á persónuleikaprófi frá ráðningarfyrirtækinu Capacent, í ljóðinu „Hreinleikapróf“.

Þessi notkun á tilvitnunum og textum annarra er nokkuð frábrugðin því sem nú er orðið að hefðbundnu skáldskaparmáli póstmódernismans, þrátt fyrir að grunnstefin um sjálfsmeðvitund og áköll til annarra bókmennta séu þau sömu. Hér er gengið lengra og tilgangurinn virðist annar - ekki endilega sá að kalla fram samspil við bókmenntasöguna og tiltekin verk, heldur mætti sjá þetta sem ákveðna tilraun til andhverfu, enn og aftur gegn fagurfræði hins ‘skáldlega’. Augljóslega hlýtur öll andspyrna gegn fagurfræði ævinlega að hverfast í það að verða að nýrri fagurfræði, líkt og er nú orðið áberandi í verkum sumra Nýhil skálda — þegar skáldleikanum er hafnað svo ákaft verður einfaldlega til nýr skáldleiki.

Í heildina séð er bók Ingólfs Gíslasonar, Sekúndu nær dauðanum, vel heppnað dæmi um þennan nýja skáldleika. Vissulega tapar höfundur sér í stælum annað slagið (fyrrnefnd ljóð um mælikvarða á ljóðin eru dæmi um það), en meirihluti ljóðanna er áhugaverður, fyndinn og á stundum bráðsnjall. Fyrsta ljóðið „Textastrengir“ er dæmi um vel heppnaða samsuðu vangaveltna og vísana, sem endar á einskonar yfirlýsingu: „Ritgerðir sem þrá að vera ljóð eða ljóð sem vilja vera ritgerðir? Köllum þetta bara ritgerðasafn með ljóðrænu ívafi. Textastrengi. Stríð.“ Og þó ég geti vissulega samþykkt að ríðingar séu ekki sérlega ‘skáldlegar’ þá fannst mér „Þróunarkenning Pamelu“ með ríðingum í takt við tónlistarsöguna bæði skondið og flott. Margar af formtilraununum heppnast vel, eins og ljóð sem eru sett upp sem krossapróf og skoðanakönnun, og stefin fyrrnefndu með hausunum tveimur sem skiptast á skoðunum skapa áhugaverðan takt innan bókarinnar.

Þau ljóð sem taka fyrir hefðbundin viðfangsefni ljóða, eins og „Kvöldganga með flugum“, „Tárin“ og „Vegurinn“ virka vel og sömuleiðis mörg pólitísku ljóðanna sem eru enn eitt skáldskapareinkenni þessarar bókar. „Bein útsending / úthverfi“ dregur upp flotta súrrealíska mynd, „Hreingerning“ er velheppnað háð á upphafnar hreinleikahugmyndir landans og um landið og „Ævintýri handa drengjum“ er sömuleiðis bæði írónísk og íhugul útlegging á hernaði í bland við drengjabóka-drauma. Ljóðið hefst á lýsingu á orrustuþotum: „himininn auðvitað bjartur og blár en þarna koma þær, tækniævintýri fyrir drengi af öllum kynjum“, svo fylgja vangaveltur um „hvort hægt sé að skrifa fallegan texta um herflugvélar“ og að lokum segir frá pabbanum: „hann stjórnaði sveit orrustuflugvéla og hefði sjálfur losað nokkur þúsund tonn af sprengiefni á fólk í fjarlægum löndum, en ég meina það væri vinnan hans, að búa til háloftahakk.“ Hér er ferðast frá hugljúfum heimi drengjasagna yfir í vangaveltur um skáldskap og þaðan í ádeilu á stríð.

Áköllin til lesanda, um að lesa áfram, þó hann sé ekki þjóðhagslega hagkvæmur meðan á lestrinum stendur og tapi á því sekúndum úr lífi sínu er líka fyndið stef og á sinn þátt í því að lesandi gerist viljugur samsekur í ljóðagjörningunum.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007